„Við urðum yfir okkur ástfangnar“

Helga segist hafa fundið jafnvægið í lífinu með fjölbreyttum störfum.
Helga segist hafa fundið jafnvægið í lífinu með fjölbreyttum störfum. mbl.is/Karítas

Helga Medek, kven­sjúk­dóma- og fæðing­ar­lækn­ir, tók u-beygju þegar hún skráði sig í Leiðsögu­skól­ann við MK og í rit­list við Schule des Schrei­bens í Ham­borg. Hug­rekkið
hafði yf­ir­hönd­ina þegar hún sagði upp starfi sínu á kven­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans, eft­ir að hafa starfað þar um ára­bil, og fór að leiðsegja ferðamönn­um um landið. Þá fékk hún loks tæki­færi til að skrifa sög­una sem hana hafði lengi dreymt að gera. Í dag seg­ist hún hafa náð full­komnu jafn­vægi í starfi.

„Dag­ur fimm var hvíld­ar­dag­ur og þá þurfti fólk að veiða sér sjálft til mat­ar svo ég þurfti að læra stang­veiði. Við þurft­um líka að gera að fisk­in­um og ég sem skurðlækn­ir lærði það nátt­úru­lega á núll einni.“ Þetta seg­ir Helga Medek, kven­sjúk­dóma- og fæðing­ar­lækn­ir, um fyrstu ferðina sem hún fór í sem leiðsögumaður á Arn­ar­vatns­heiði.

Helga er 48 ára göm­ul og lærði lækn­is­fræði í Medical Uni­versity of Vienna, í Vín­ar­borg í Aust­ur­ríki, þar sem hún ólst upp. Móðir henn­ar var ís­lensk og faðir henn­ar aust­ur­rísk­ur og liggja því ræt­urn­ar ann­ars veg­ar hér í Norður-Atlants­hafi og hins veg­ar á meg­in­landi Evr­ópu.

Helga leiðsegir einnig í fjórhjólaferðum.
Helga leiðseg­ir einnig í fjór­hjóla­ferðum. Ljós­mynd/​Aðsend

Æsku­draum­ur­inn

Hægt er að segja að Helga hafi að ein­hverju leyti horfið aft­ur til æsku­draumanna þegar hún hóf nám í Leiðsögu­skól­an­um við Mennta­skól­ann í Kópa­vogi og fjar­nám við rit­list­ar­skól­ann Schule des Schrei­bens í Ham­borg, eft­ir að hafa starfað á kven­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans um ára­bil.

„Þegar ég var krakki var ég mikið í úti­vist,“ byrj­ar Helga þegar hún lýs­ir æsk­unni í Vín­ar­borg. „Ég var í skát­un­um og byrjaði á skíðum þriggja ára göm­ul. Ég man að ég öf­undaði krakk­ana sem bjuggu á skíðasvæðunum og gátu nán­ast rennt sér í skól­ann.“

Þótt úti­vist hafi átt hug henn­ar og hjarta sem barns átti hún einnig ró­leg­ar stund­ir með penna í hendi þegar hún dundaði sér við að skrifa sög­ur. „Ég byrjaði að skrifa sög­ur þegar ég lærði að skrifa og var alltaf að semja smá­sög­ur.“ Staf­setn­ing var þó ekki styrk­leiki hjá henni og seg­ist hún ein­fald­lega hafa skrifað orðin eins og hún heyrði þau og hlaut skamm­ir í skól­an­um fyr­ir vikið. Mál­fræðin hafi þó komið með tím­an­um.

Í krefj­andi lækna­nám­inu lagði Helga skrif­in til hliðar en sköp­un­ar­gleðin blundaði þó alltaf innra með henni og byrjaði hún aft­ur að skrifa sem deild­ar­lækn­ir.

„Þegar ég fann að það var svo margt annað fyr­ir utan spít­al­ann sem ég hafði ekki upp­lifað í mörg ár þá kom þessi tíma­punkt­ur, að gera það sem mig langaði alltaf til að gera og það var að skrifa þessa bók sem ég hafði gengið með í mag­an­um í mörg ár.“

Ljós­mynd/​Aðsend

Lækna­fer­ill­inn

Eft­ir stúd­ents­próf flutti Helga, þá 18 ára, til San Francisco í eitt ár til að læra ensku á meðan hún ígrundaði hvaða nám hún vildi stefna á. Hún hafði alltaf haft mik­inn áhuga á ann­ars veg­ar nátt­úru­vís­ind­um og hins veg­ar þýsku og bók­mennta­fræði. Það síðar­nefnda langaði hana að læra en að lok­um varð lækn­is­fræðin fyr­ir val­inu.

Þegar Helga lauk lækn­is­fræði árið 2003 pakkaði hún niður í lít­inn Wolksvagen Polo sem hún hafði keypt af syst­ur sinni á 500 evr­ur og hélt til Þýska­lands til að hefja kandí­dats­árið á há­skóla­sjúkra­hús­inu í Tübingen, stúd­enta­borg ekki langt frá Stutt­g­art.

„Ég vissi frá upp­hafi að ég vildi að minnsta kosti prófa kven­sjúk­dóma­lækn­ing­ar því það heillaði mig að fá að fylgja kon­um frá ung­lings­aldri og fram eft­ir aldri.“

Það lá því bein­ast við hver sér­hæf­ing­in yrði og hóf Helga sér­nám í kven­sjúk­dóma­lækn­ing­um í Tübingen að kandí­dats­ár­inu loknu.

Á meðan hún var í sér­nám­inu fann hún fyr­ir þörf til að læra ís­lensku bet­ur og verja tíma með ömmu sinni hér­lend­is, sem þá var á lífi. Hún kom því til Íslands og hóf störf sem deild­ar­lækn­ir á kven­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans, þar sem hún starfaði í tvö og hálft ár.

Eft­ir það flutti hún til Aust­ur­rík­is og lauk sér­fræðiprófi sem kven­sjúk­dóma- og fæðing­ar­lækn­ir. Næsti viðkomu­staður var Belg­ía þar sem hún vann að rann­sókn­ar­verk­efni og þaðan flutti hún til Kufstein í Týrol í Aust­ur­ríki þar sem hún fékk fasta stöðu á spít­al­an­um í bæn­um.

„Mér fannst æðis­legt að vera í Ölp­un­um. Spít­al­inn var meðal­stór og teymið flott. Ég fékk að prófa ým­is­legt en var mest í skurðaðgerðum og fæðing­ar­hjálp.“ Ekki skemmdi um­hverfið fyr­ir en Helga seg­ist hafa farið mikið á skíði eft­ir vinnu ásamt sam­starfs­fólki enda mik­il hefð fyr­ir skíðaiðkun á stöðum sem þess­um.

mbl.is/​Karítas

Ástin dró hana aft­ur til Íslands

Það var á Íslandi 2010, þegar Helga sótti nám­skeið fyr­ir fæðing­ar­lækna, Advanced Life Supp­ort í fæðing­ar­hjálp, að Amor bankaði upp á. Í þess­ari Íslands­ferð hitti hún Krist­ínu Jóns­dótt­ur kven­sjúk­dóma­lækni.

„Við urðum yfir okk­ur ást­fangn­ar.“ Helga var þó ekki til­bú­in að yf­ir­gefa Týrol strax enda leið henni vel þar. Hún seg­ir Krist­ínu reglu­lega hafa hnippt í hana um hvort hún ætlaði ekki að flytja til Íslands.

Þegar Helga fór svo á lækn­aráðstefnu í Salzburg vorið 2011 hitti hún ís­lenska fyrr­ver­andi koll­ega sína af kven­sjúk­dóma­deild og þáver­andi yf­ir­lækni, Hildi Harðardótt­ur. Hild­ur bauð henni stöðu á Íslandi því það vantaði svo sér­fræðinga.

Vita­skuld var ekki annað hægt, með ást­ina og at­vinnu­boð hér­lend­is, en að flytja til Íslands svo að Helga flutti hingað aft­ur þá um sum­arið.

Krist­ín starfaði þá sem sér­fræðing­ur kven­sjúk­dóma­meg­in og Helga byrjaði sem fæðing­ar­lækn­ir en skipti svo um teymi og fór yfir í kven­sjúk­dóma­hlut­ann um það leyti sem Krist­ín varð yf­ir­lækn­ir á kven­sjúk­dóma­deild.

Helga læt­ur vel af vinnu­um­hverf­inu á Land­spít­al­an­um og gæðunum í þjón­ustu við sjúk­linga. Hún seg­ir lækn­ana fá að sækja ráðstefn­ur reglu­lega og að það sé inni í kjara­samn­ing­um að þeir fái náms­leyfi. „Ég get alla­vega talað fyr­ir kvenna- og fæðing­ar­hjálp og myndi segja að við fylgj­um öll­um nýj­ung­um og því sem er að ger­ast er­lend­is.“

Ljós­mynd/​Aðsend

Lækn­ir­inn sem varð leiðsögumaður

„Fyrstu fimm árin sem sér­fræðing­ur voru mjög spenn­andi og gef­andi,“ seg­ir Helga sem sér­hæfði sig í grind­ar­botnsvanda­mál­um. Eft­ir tíu ár hafi dag­arn­ir ein­kennst af ákveðinni rútínu og var hún far­in að finna fyr­ir þörf á breyt­ingu.

„Það vant­ar sam­keppni í heil­brigðis­um­hverf­inu hér­lend­is og auðvitað er minna um að hægt sé að færa sig til í starfi eða skipta um spít­ala, líkt og er­lend­is.“

Helga seg­ir þær Krist­ínu hafa verið mikið í úti­vist, í fjall­göng­um og alls kyns hreyfi­hóp­um. Helgu langaði til að læra meira í tengsl­um við úti­vist og ís­lenska nátt­úru svo þær Krist­ín gætu farið meira tvær sam­an. Eft­ir að hafa fengið GPS-tæki og nám­skeið í gjöf fór Helga að leita að fleiri nám­skeiðum til að læra meira um röt­un og fjalla­mennsku.

Eitt leiddi af öðru og vet­ur­inn 2020/​2021 var Helga kom­in í Leiðsögu­skól­ann þar sem hún stundaði nám meðfram vinnu í göngu­leiðsögn.

Þris­var í viku brunaði Helga eft­ir vinnu í Mennta­skól­ann í Kópa­vogi til að læra það sem kennt er í mennta­skóla hér­lend­is, sagn­fræði, landa­fræði og líf­fræði. Henni þótti þetta afar skemmti­legt en krefj­andi á sama tíma.

Þegar sam­göngu­tak­mark­an­ir vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins gerðu það að verk­um að kennt var í fjar­námi auðveldaði það Helgu lífið tölu­vert. „Þá gat ég farið inn á skrif­stofu eft­ir vinnu og verið með á nám­skeiðinu, keyrt heim í hlé­inu og haldið áfram.“

Helga seg­ir sam­nem­end­ur sína í Leiðsögu­skól­an­um hafa verið fólk á henn­ar aldri, allt í sömu spor­um og hún; þráði breyt­ing­ar. „Þetta voru kenn­ar­ar, lög­fræðing­ar og fólk sem vildi prófa eitt­hvað nýtt.“

Skrefið tekið lengra

Haustið eft­ir að hún út­skrifaðist úr Leiðsögu­skól­an­um var Helga beðin um að leiðsegja hópi af Þjóðverj­um yfir Arn­ar­vatns­heiði, enda sjálf þýsku­mæl­andi. Það var gengið með allt á bak­inu í alls tíu daga og nýtti Helga sum­ar­leyfi sitt í ferðina.

„Mér var treyst til þessa verk­efn­is þar sem ég er lækn­ir. Það var ým­is­legt sem ég vissi ekki fyr­ir fram en ég hafði minnst­ar áhyggj­ur af að eitt­hvað kæmi fyr­ir.“ Þegar leiðsögu­menn ótt­ast alla jafna mest að eitt­hvað komi upp á og ein­hver meiði sig í hópn­um er það nokkuð sem lækn­ir­inn Helga hræðist ekki.

„Ég hafði mest­ar áhyggj­ur af að brenna mat­inn því ef hann brenn­ur er ekk­ert sem kem­ur í staðinn, nema kannski hrís­grjón.“

Þrátt fyr­ir að hafa ekki bein­lín­is ætlað sér að breyta um starfs­vett­vang þegar hún lauk Leiðsögu­manna­skól­an­um sagði hún upp starfi sínu á kven­sjúk­dóma­deild árið 2023. „Það var ör­ugg­lega bara einn slæm­ur dag­ur í vinn­unni sem ýtti mér fram af brún­inni. Þá kom þetta loks til mín.“ Og seg­ist Helga hafa verið mjög sátt við ákvörðun­ina þrátt fyr­ir ótt­ann.

„Ég er rosa­lega sam­visku­söm og auðvitað búin að fjár­festa mörg ár í lækna­nám­inu.“ Í Aust­ur­ríki er lækna­námið frítt og finnst Helgu hún hafa skuld­bundið sig sam­fé­lag­inu þar sem skatt­greiðend­ur greiði yfir námið.

„Og ég hugsaði, má þetta bara, má bara hætta?“ Hún seg­ir Krist­ínu hafa stutt hana í breyt­ing­un­um og að hún hafi einnig hugsað mér sér að þetta gæti allt eins verið tíma­bundið.

Eft­ir að Helga hætti á Land­spít­al­an­um var hún leiðsögumaður í ýms­um ferðum á borð við hring­ferðir í rútu, fjór­hjóla­ferðir og norður­ljósa­ferðir, fyr­ir nokk­ur fyr­ir­tæki. Nóg er af verk­efn­um og seg­ir hún það fljótt að spyrj­ast út inn­an grein­ar­inn­ar ef leiðsögumaður stend­ur sig vel.

Nýtt jafn­vægi í leik og starfi

Mest krefj­andi leiðsögu­verk­efnið hingað til seg­ir Helga hafa verið þegar hún fór með hóp Íslend­inga til Suður-Týrol á veg­um Bænda­ferða því að henn­ar helsta áskor­un sé að leiðsegja á ís­lensku. Nokk­ur menn­ing­armun­ur er á milli þýsku­mæl­andi ferðamanna og þeirra ís­lensku. Þjóðverj­arn­ir eru stund­vís­ir og yf­ir­leitt mætt­ir nokkru fyr­ir sett­an tíma á meðan þeir ís­lensku eru öllu af­slappaðri.

Á ferðum sín­um hef­ur Helga hitt fjöld­ann all­an af áhuga­verðu fólki og seg­ir það blása lífi í sköp­un­ar­gleðina. Sam­skipti séu svo gef­andi og flest­ir eigi svo merki­lega sögu.

Þegar sköp­un­ar­gáf­an örvaðist á ný og Helga hafði ögn meiri tíma milli túra tók hún ákvörðun um að láta gaml­an draum verða að veru­leika og skráði sig í rit­list í rit­list­ar­skól­an­um Schule des Schrei­bens í Ham­borg.

Ef allt geng­ur eft­ir, eins og hún seg­ir sjálf, mun hún út­skrif­ast næsta vor.

Í nám­inu hef­ur hún haft leiðbein­anda sem sjálf­ur er rit­höf­und­ur og hef­ur gefið út fjölda bóka. Hún hef­ur nú nán­ast klárað hand­ritið að fyrstu bók sinni, hug­mynd sem hún gekk lengi með en skorti verk­fær­in og tækn­ina til að geta byrjað á.

„Hand­ritið er á loka­metr­un­um og svo er bara að taka stökkið. Ég hef aðeins ýtt því á und­an mér að finna umboðsmann, því það er það sem þarf úti til að kom­ast að hjá út­gef­anda,“ seg­ir Helga en hún skrif­ar bók­ina á þýsku.

Aðspurð seg­ist hún fara í ákveðið flæði þegar hún sit­ur og skrif­ar og lík­ir því við hvernig hún gleym­ir sjálfri sér þegar hún fram­kvæm­ir aðgerðir. „Þá fer ég í mitt „zone“.“

Það reynd­ist rétt hugsað hjá henni þegar hún sá fyr­ir að fjar­ver­an frá lækn­ing­um yrði aðeins tíma­bund­in. Ekki leið á löngu áður en byrjað var að toga aft­ur í hana úr „hinni átt­inni“ þegar hún var feng­in sem af­leys­inga­lækn­ir á kven­sjúk­dóma­deild Land­spít­al­ans síðastliðið vor. Þá fann hún hve mjög hún saknaði þess að starfa við það sem hún menntaði sig í og í dag er hún í hluta­starfi á Heil­brigðis­stofn­un Vest­ur­lands.

„Þá er ég tvo daga í viku að skera og hitta kon­ur. Rest­ina af vik­unni hef ég til að skrifa og fara í ferðir.“

Helga er hæst­ánægð með fyr­ir­komu­lagið og þetta nýja jafn­vægi í líf­inu. Hún seg­ir fólk oft verða hissa á þess­um svipt­ing­um í starfi, að fara úr læknasloppn­um, í út­vistarfatnaðinn og upp á fjöll. Hún lýs­ir því hvernig hún verði bara skemmti­legri leiðsögumaður og betri lækn­ir fyr­ir vikið.

Það krefst hug­rekk­is að breyta til í líf­inu og oft er það ein­ung­is haus­inn sem stopp­ar þegar ótt­inn nær yf­ir­hönd­inni. Þessi „hvað ef“-hugs­un, líkt og Helga seg­ir hafa hring­sólað í höfðinu á sér. Margt geti spilað inn í hræðsluna við breyt­ing­ar, til dæm­is áhyggj­ur af tekju­hliðinni. „Þetta var ferðalag sem tók sinn tíma. Stund­um tók ég eitt skref fram á við, fékk svo efa­semd­ir og fór þá eitt skref til baka. En maður veit aldrei nema prófa og nú er ég búin að finna jafn­vægið.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda