„Sprengikrafturinn er ekki alveg sá sami og fyrir tuttugu árum“

Ásgeir Helgi er sáttur með lífið og tilveruna.
Ásgeir Helgi er sáttur með lífið og tilveruna. Ljósmynd/Sunna Ben

Ásgeir Helgi Magnús­son er maður margra hatta. Hann er dans­ari, einn reynslu­mesti dans­ari Íslenska dans­flokks­ins, flugþjónn hjá Icelanda­ir og skemmtikraft­ur af guðs náð, en hann er mörg­um kunn­ur sem dragdrottn­ing­in Ag­atha P. Auk þess er hann sam­býl­ismaður og þriggja barna faðir, það er því alla jafna í nægu að snú­ast hjá hon­um. 

Líf Ásgeirs Helga tók já­kvæðum breyt­ing­um fyr­ir nokkr­um árum þegar Garðar Þór Jóns­son kom óvænt inn í líf hans eitt ör­laga­ríkt kvöld á Kaffi­barn­um. Þeir hafa brallað ým­is­legt í gegn­um tíðina og gerðust fóst­ur­for­eldr­ar árið 2022 og eiga í dag þrjá unga syni. 

Á veg­ferð að byggja upp sjálfs­traustið

Ásgeir Helgi upp­götvaði ástríðu sína fyr­ir dansi þegar hann var 17 ára gam­all.

„Ég skráði mig á byrj­enda­nám­skeið í alls kon­ar dans­stíl­um í Jazzball­ett­skóla Báru. Þarna opnaðist á eitt­hvað magnað og ég varð strax hug­fang­inn. Dans­inn var svo stór­kost­lega frá­bær og heilandi fyr­ir ung­ling­inn sem var á þeirri veg­ferð að byggja upp sjálfs­traustið eft­ir að hafa gengið meðfram veggj­um alla grunn­skóla­göng­una.“

Dans­inn er sum­um í blóð bor­inn, á það við um þig og fjöl­skyldu þína?

„Nei, eig­in­lega ekki. Þetta er svo­lítið sjálfsprottið hjá mér. En ég ólst samt upp í mjög list­rænu um­hverfi. Mamma hef­ur alla tíð verið mjög áhuga­söm um mynd­list og ólst sjálf upp í ná­vígi við mjög færa list­mál­ara. Föður­amma mín var af­skap­lega fær lista- og hand­verks­kona og gat unnið muni og verk úr öll­um mögu­leg­um efnivið.“

Viss­irðu snemma að þú vild­ir verða at­vinnu­dans­ari?

„Ég vissi fljót­lega að þetta væri eitt­hvað sem mig langaði að gera en til­hugs­un­in um óstöðuga at­vinnu, streð og verk­efna­skort hræddi mig svo­lítið. Þegar ég fór í fram­halds­nám í dansi var ég alltaf með það sem svona „fyr­ir­vara“ að dans­inn væri eitt­hvað sem mig langaði að læra en að ég væri ekki al­veg viss um hvort ég myndi starfa við þetta. Svo fauk sá „fyr­ir­vari“ bara út um glugg­ann þegar ég var um það bil að ljúka nám­inu.“

Ásgeir Helgi í verkinu HVERFA.
Ásgeir Helgi í verk­inu HVERFA. Ljós­mynd/​Elísa­bet Blön­dal

Ásgeir Helgi stundaði nám við Ball­et­taka­dem­ian í Stokk­hólmi og einnig við Lista­há­skóla Íslands. Hann gekk til liðs við Íslenska dans­flokk­inn árið 2010 og hef­ur tekið þátt í fjölda sýn­inga og fengið tæki­færi til að ferðast um all­an heim.

Nú hef­ur þú spilað stóra rullu hjá Íslenska dans­flokkn­um í meira en ára­tug, hvernig kom það til?

„Dans­höf­und­arn­ir Erna Ómars­dótt­ir og Damien Jalet voru á þess­um tíma að skapa sviðsút­gáfu af verk­inu, Transaquania – Out of the Blue, sem hafði verið sett upp í Bláa lón­inu ár­inu áður. Ég var bú­sett­ur í Hollandi en hafði kynnst þeim báðum í námi mínu í Lista­há­skól­an­um og rek­ist á þau á hinum ýmsu dansviðburðum í Evr­ópu. Þau óskuðu eft­ir því að ég tæki þátt í verk­inu og ég kom heim til Íslands fyr­ir það verk­efni. Svo leiddi eitt af öðru og ég ílengd­ist hjá Íslenska dans­flokkn­um.“

Hvernig var að stíga á svið í fyrsta sinn sem at­vinnu­dans­ari?

„Fyrsta verk­efni mitt eft­ir út­skrift var með dans­flokki í Bar­sel­óna. Ég tók að mér hlut­verk í verki sem var á sýn­ing­ar­ferð um Spán og fyrsta sýn­ing­in mín var í af­skap­lega fal­legu leik­húsi í katalónsku borg­inni Gíróna. Verkið hér Mur og var eft­ir dans­höf­und­inn Thom­as Noo­ne. Ég man að ég var frek­ar af­slappaður fyr­ir frum­sýn­ing­unni minni, sjálfsagt vegna þess að fjór­ir af sex döns­ur­um höfðu dansað verkið áður og voru mjög ör­ugg­ir og svo upp­lifði ég ekki mikla pressu því ég þekkti ekki neinn í áhorf­enda­hópn­um. Ég finn oft­ar en ekki fyr­ir aðeins meiri pressu ef ég er með fólkið mitt í saln­um.“

Hver er stolt­asta stund þín sem dans­ari?

„Það er svo­lítið skemmti­leg til­vilj­un að nokkr­um árum seinna var ég aft­ur kom­inn til Gíróna og í sama leik­hús. Í þetta skiptið var ég kom­inn aðeins lengra á mín­um ferli og var að dansa í upp­færslu belg­íska dans­flokks­ins Peep­ing Tom á verk­inu A Lou­er. Ég hafði lengi fylgst með þess­um dans­flokki og það má segja að það hafi verið ákveðinn draum­ur að fá ein­hvern tím­ann tæki­færi á að starfa með þeim. Þarna í leik­hús­inu í Gíróna inn­rammaðist þetta ein­hvern veg­inn svo fal­lega. Ég var kom­inn aft­ur á sviðið þar sem ég byrjaði at­vinnu­mennsk­una, nokkr­um árum betri og meðal frá­bærra lista­manna sem ég hafði litið upp til lengi.”

Ásgeir Helgi hefur tekið þátt í fjölda uppfærslna með Íslenska …
Ásgeir Helgi hef­ur tekið þátt í fjölda upp­færslna með Íslenska dans­flokkn­um. Ljós­mynd/​Aðsend

Hverj­ar hafa verið helstu áskor­an­irn­ar?

„Ég lenti í slæm­um meiðslum á fæti snemma á öðru ári í nám­inu í Svíþjóð sem enduðu með því að ég fór í skurðaðgerð og var frá dans­in­um í tíu mánuði. Það var krefj­andi að halda uppi já­kvæðni og gleði á þess­um tíma en ég fékk góðan stuðning. Sá lær­dóm­ur sem ég kannski helst dró af þessu var tvíþætt­ur. Ann­ars veg­ar að sýna lík­am­an­um, verk­fær­inu mínu, þol­in­mæli og mildi og hins veg­ar var það aðlög­un­ar­hæfn­in sem fylg­ir því að vinna sig í kring­um meiðsli. Síðan þá hef ég verið nokkuð hepp­inn og ekki lent í al­var­leg­um meiðslum. Aðrar áskor­an­ir hafa kannski helst verið þær að finna innri hvatn­ingu og ein­hvern áhuga­verðan flöt á efn­inu þegar maður tek­ur þátt í verk­efn­um sem höfða ekki mikið til manns. Jú, svo er skatta­skýrsla verk­taka al­veg áskor­un út af fyr­ir sig.“

Aðspurður hvort hann sé far­inn að íhuga framtíðina með Íslenska dans­flokkn­um seg­ir Ásgeir Helgi að það sé farið að síga á seinni helm­ing­inn.

„Ég hef verið hepp­inn og náð að sigla svona nokkuð lign­an sjó hvað varðar meiðsli og þess hátt­ar en maður finn­ur að lík­am­inn breyt­ist, ég er orðinn 42 ára gam­all. End­ur­heimt­in tek­ur aðeins lengri tíma og sprengi­kraft­ur­inn er ekki al­veg sá sami og fyr­ir tutt­ugu árum. En það er annað sem kem­ur í staðinn, eins og ör­yggið sem felst í reynsl­unni, sterk­ari nær­vera á sviðinu og næmni. Það eru al­gjör for­rétt­indi að standa enn á sviði og mig lang­ar að halda því áfram eins lengi og ég get. En núna er ég í for­eldra­or­lofi og er að njóta hverr­ar mín­útu.“ 

„Það er ynd­is­legt að sjá maka sinn í nýju hlut­verki”

Ásgeir Helgi kom út úr skápn­um á tán­ings­aldri.

Manstu hvernig þér leið?

„Já, þetta var ótrú­leg­ur rúss­íbani, bæði til­finn­inga­lega og fé­lags­lega. Maður var ein­hvern veg­inn að upp­götva nýj­an heim, þenn­an heim þar sem fleiri voru eins og ég. Heim og til­veru sem var í senn svo spenn­andi að maður vildi sökkva sér í hana til að vinna upp fyr­ir árin í skápn­um en líka á tím­um svo­lítið yfirþyrm­andi.“

Hvernig voru viðbrögð fjöl­skyldu og vina?

„Mjög góð. Þau vissu al­veg hvað klukk­an sló, löngu áður en ég hikstaði því upp úr mér.“

Hvernig kynnt­ist þú sam­býl­is­manni þínum?

„Sam­eig­in­leg kunn­ingja­kona okk­ar kynnti okk­ur eitt kvöld á Kaffi­barn­um. Henni fannst við eiga vel sam­an og við sam­mælt­umst um að hitt­ast á stefnu­móti. Það varð þó ekki fyrr en rúmu ári síðar. Kannski bara sem bet­ur fer. Ég var til­tölu­lega ný­kom­inn úr öðru sam­bandi og þurfti tíma til að gera það upp.“

Garðar og Ásgeir Helgi í Klet.
Garðar og Ásgeir Helgi í Klet. Ljós­mynd/​Aðsend

Var þetta ást við fyrstu sýn?

„Nei, ég held ekki ást, en það var strax mik­il hrifn­ing. Mér fannst hann mjög mynd­ar­leg­ur og vissi að sjálf­sögðu hver hann var, ég viður­kenni al­veg að ég var bú­inn að kíkja oft­ar en einu sinni og tvisvar á Face­book-síðu hans.“

Hvernig hef­ur sam­bandið þró­ast?

„Sam­bandið okk­ar hef­ur þró­ast mikið með tím­an­um. Við smull­um strax vel sam­an, erum svipað þenkj­andi og deil­um áhuga á úti­vist, ferðalög­um, mat og drykk. Á þess­um tíu árum höf­um við ferðast mikið sam­an og lent í alls kyns æv­in­týr­um sem hafa gert sam­bandið og vinátt­una traust­ari og dýpri.

Við keypt­um sam­an og gerðum upp gam­alt hús úti á landi. Það var virki­lega góð æf­ing í þol­in­mæði, sam­skipt­um og mála­miðlun­um. Svo hef­ur sam­bandið líka breyst eft­ir að við stig­um sam­an inn í for­eldra­hlut­verkið. Það er ynd­is­legt að sjá maka sinn í nýju hlut­verki, Garðar er al­veg frá­bær pabbi.”

Ásgeir Helgi og Garðar hafa ferðast víða.
Ásgeir Helgi og Garðar hafa ferðast víða. Ljós­mynd/​Aðsend

Hvernig sérðu framtíðina?

„Framtíðin er alltaf svo spenn­andi. Ég er viss um að ég finn mér eitt­hvað skemmti­legt að bar­dúsa við. Svo hlakka ég til að fylgj­ast með strák­un­um okk­ar vaxa úr grasi og fóta sig í líf­inu. Ég vona að við Garðar höld­um áfram að vera hress­ir pabb­ar langt inn í ell­ina og kannski einn dag­inn grá­ir og glettn­ir afar.“

Ásgeir Helgi ásamt syni sínum Christian Óskari.
Ásgeir Helgi ásamt syni sín­um Christian Óskari. Ljós­mynd/​Aðsend

Ertu mik­ill fjöl­skyldumaður?

„Já, það er lífs­ins mesta gæfa að hafa fengið að verða pabbi. Við gerðumst fóst­ur­for­eldr­ar árið 2022 og eig­um í dag þrjá ynd­is­lega stráka og þeir eiga okk­ur. Einn þeirra býr hjá móður sinni og kem­ur til okk­ar eina helgi í mánuði og hinir tveir eru hjá okk­ur.”

„Hún byrjaði sem til­raun“

Ásgeir Helgi hef­ur heillað lands­menn í hlut­verki Agöt­hu P. Hann skapaði karakt­er­inn fyr­ir nokkr­um árum þegar hann var að leita að leið til að tjá sig á skap­andi hátt utan þess­ara hefðbundnu ramma sviðslist­anna.

„Hún byrjaði sem til­raun en varð fljótt að per­sónu með eig­in karakt­er og kraft.“

Agatha P.
Ag­atha P. Ljós­mynd/​Sunday and White Studio

Hvernig lýs­ir þú henni?

Ag­atha P. er stór, björt og hug­rökk. Hún er með sterka nær­veru, húm­or og óþrjót­andi sjálfs­traust – en hún hef­ur líka mjúka og kær­leiks­ríka hlið. Hún er per­sóna sem vill gleðja fólk, hrista upp í dag­legu lífi og vekja fólk til um­hugs­un­ar.

Hvað er skemmti­leg­ast við dragið?

„Frelsið til að skapa. Það að geta breytt sjálf­um sér í allt sem mann lang­ar til að vera og skila því með gleði til áhorf­enda er stór­kost­legt. Sam­skipt­in við fólkið eru líka ómet­an­leg – að sjá hvernig dragið snert­ir og gleður.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda