Letur Rakelar notað af stórfyrirtækjum út í heimi

Rakel Tómasdóttir er grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Cirkus. Einnig er hún leturhönnuður og myndlistarkona. Leturgerð er hulinn heimur fyrir mörgum en hún segir það stóran bransa þó að hann sé lítið áberandi. Silk Serif, letur sem Rakel hannaði sem nemi í Listaháskólanum, er eitt mest selda letrið á stærstu letursölusíðu heims og fyrirtæki á borð við Condé Nast, Nike og Bergdorf Goodman hafa notað letrið. Það var einnig notað á forsíðu tískutímaritsins hollenska Vogue.

„Þegar ég er spurð hvað ég geri þá segi ég yfirleitt að ég sé grafískur hönnuður, sem ég er, en það tekur bara svo langan tíma að útskýra að það sé hægt að starfa við leturhönnun,“ segir Rakel. 

„Sum kannast kannski við mig út af myndlistinni minni en þetta tengist allt saman. Stundum teikna ég naktar konur og stundum teikna ég stafi.“

Svolítið eins og Sudoku

En hvernig er ferlið við hönnun leturs?

Fyrsta skrefið í hönnun á nýju letri er að teikna nokkra stafi. Svo er þetta svolítið eins og Sudoku, því fleiri stafi sem maður teiknar því auðveldara verður að sjá hvað passar og hvað ekki.“

Hún segir upphaf ferlisins skemmtilegast, eins og í flestum verkefnum, að hennar mati. „Mestur tími fer hins vegar í að láta alla stafina passa saman og stilla bilin á milli þeirra til dæmis þannig að letrið flæði vel og myndi þægilegt jafnvægi. Þetta er mikil nákvæmnisvinna en ég elska að gleyma mér í pínulitlum smáatriðum.“

Hún segist oft fá spurninguna hvort það séu ekki öll letur til nú þegar. 

„En það er hægt að spyrja þessarar spurningar um alla hönnun. Er ekki búið að hanna allar gallabuxur eða alla mögulega stóla? Það er skiljanlegt að fólk sem notar letur ekki dagsdaglega sjái ekki muninn á mismunandi leturgerðum en grafískir hönnuðir sjá hann svo sannarlega enda vinna þeir með letur alla daga. Það er fullt af fólki í leit að nýju letri. Þetta er kannski ekki mest áberandi bransinn en hann er stór á heimsvísu.“

Hannaði letrið í starfsnámi 

Geturðu sagt mér frá letrinu sem Vogue notaði?

„Það heitir Silk Serif og er fyrsta letrið sem ég gaf út. Það var meira að segja útskriftarverkefnið mitt úr Listaháskólanum árið 2016,“ segir Rakel.

„Meðfram grafískri hönnun í LHÍ var ég í starfsnámi hjá Reginu Rourke á tímaritinu Glamour. Regina var með frekar skýra hugmynd um hvernig letur hún vildi nota í tímaritið en við fundum ekkert sem passaði. Akkúrat á sama tíma var ég í leturhönnunaráfanga í skólanum og ákvað að láta reyna á að hanna letrið sem okkur vantaði.

Ég áttaði mig á því að þetta var í raun allt of stórt verkefni fyrir nema á öðru ári með enga reynslu í leturhönnun en það sakaði ekki að prófa. Kom þá í ljós að leturhönnun hentaði mér mjög vel og við enduðum á að nota letrið í tímaritið. Einu og hálfu ári síðar var ég búin að bæta við bold og italics og útskriftarverkefnið mitt varð fjórtán stíla leturfjölskylda.“

Vinnuheiti letursins í upphafi var „The Intern“ eða starfsneminn en hana vantaði betra nafn fyrir lokaverkefnið. 

„En hvernig í ósköpunum velur maður nafn á letur? Jú, maður fer með vinkonum sínum í gegnum allt naglalakkið sem við áttum á Glamour-skrifstofunni. Adda vinkona mín tók upp lítið silfrað naglalakk sem hét Silk og þá var það ákveðið,“ segir Rakel. 

„Síðan þá hef ég nefnt öll letrin mín eftir textíl; Silk, Velour, Chiffon og svo framvegis.“

Varð fljótt mest selda letrið

Eftir útskrift ákvað hún að láta á það reyna að setja letrið í almenna sölu. 

„Ekki það að ég hafi búist við að fólk myndi kaupa það en mig langaði bara að klára verkefnið og gefa það formlega út. Það kom mér þar af leiðandi mjög á óvart þegar Silk Serif varð fljótt eitt mest selda letrið á MyFonts.com sem er ein stærsta sölusíða leturs í heiminum.“

Hvernig gengur söluferli leturs fyrir sig?

„Til þess að geta notað letrið þarf að kaupa leyfi. Þetta virkar eins og hver önnur vefverslun, viðskiptavinurinn kaupir letrið í gegnum heimasíðuna mína eða aðra sölusíðu, fær skrárnar sendar í tölvupósti og getur þá notað það í tölvunni sinni eða á heimasíðu. Stærri fyrirtæki með fleiri birtingar borga meira. Vogue í Hollandi keypti letrið með viðeigandi leyfi og má þá nota það í allt sitt efni,“ svarar Rakel.

Hvernig er að sjá letrið sitt á svona stórum og virtum vettvangi?

„Það er súrrealískt að hugsa til þess að stafirnir sem ég teiknaði við lítið skrifborð í Listaháskólanum fyrir níu árum síðan hafi endað á forsíðu Vogue,“ segir hún.

Letur Rakelar á forsíðu hollenska Vogue.
Letur Rakelar á forsíðu hollenska Vogue. Skjáskot/Instagram

Tilkynnti afgreiðslumanninum að hún væri hönnuðurinn

„Þegar ég var stödd í New York fyrir nokkrum árum var ég að labba um með vinkonu minni, leit upp og sá letrið mitt á risastóru skilti snyrtivöruverslunar. Í sömu ferð kíkti ég inn í hina virtu verslun Bergdorf Goodman, af því ég vissi að þau hefðu keypt letur, þar fann ég Silk Serif í tímariti sem verslunin hafði gefið út. Ég varð mjög spennt og tilkynnti afgreiðslumanninum að ég hefði hannað letrið í blaðinu. Hann skildi ekkert hvað ég var að meina en ég varð mjög glöð. Dæmi um önnur stórfyrirtæki sem hafa keypt letur frá mér eru Condé Nast, Nike, DuJour Magazine, Penguin Random House og Bobby Berk.“

Það veitir henni mikla ánægju að sjá letrið í notkun. „En ég er líka bara mjög glöð að geta unnið við það að teikna stafi, eitthvað sem ég vissi ekki að væri hægt fyrr en ég byrjaði.“

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda