„Hefur þig dreymt um að eiga bleikan bíl? Nú er tækifærið,“ segir í auglýsingu á Facebook-síðunni Brask og brall. Um er að ræða bifreið af VW Polo 1.2 gerð, 2012 árgerð. Það er Ingibjörg Austmann sem auglýsir bílinn til sölu.
Allir sem hafa átt Polo vita að þetta eru góðir bílar en það er hins vegar enginn slíkur gripur framleiddur í þessum frábæra lit. Ingibjörg tekur fram í auglýsingunni að bíllinn sé þó ekki alveg gallalaus.
„Gallar: smá hljóð í stýrisdælu og lakk/málning hefur séð betri daga á sumum stöðum,“ segir Ingibjörg í auglýsingunni.
Bílinn gengur fyrir bensíni og er keyrður rúmlega 108 þúsund km. Hann er beinskiptur og nýskoðaður með nýrri tímakeðju.