Yfirgaf fjármálaheiminn og gerðist fasteignasali

Tinna Bryde er viðskiptafræðingur sem lærði að vera fasteignasali 2018. …
Tinna Bryde er viðskiptafræðingur sem lærði að vera fasteignasali 2018. Hún tók hins vegar ekki stökkið fyrr en um áramótin þegar hún hóf störf á Pálsson fasteignasölu. Cova Software/Unsplash

Viðskiptafræðingurinn Tinna Bryde ákvað að láta gamlan draum rætast og gerðist fasteignasali eftir að hafa unnið í fjármálageiranum. Tinna er hafsjór af fróðleik þegar kemur að sparnaði og fjármálum og segir að það sé gott ráð að hafa sparnað í öðrum banka svo fólk freistist ekki til að eyða peningunum.

Tinna hóf störf hjá Pálsson fasteignasölu um áramótin og segist hafa unun af því að hjálpa fólki.

„Ég er með brennandi áhuga á fasteignum og fjármálum og því að hjálpa fólki að taka upplýstar ákvarðanir þegar kemur að stærstu fjárfestingum lífsins,“ segir Tinna sem var viðskiptaþróunarstjóri á Aurbjörgu.

„Það besta við að vera í litlu sprotafyrirtæki eins og Aurbjörgu er að hlutverkin eru mörg. Ég var meðal annars ábyrg fyrir fræðslu um fjármál, lán og sparnað. Ég vann einnig við vöruþróun og sinnti samskiptum við notendur, svo það var góður grunnur þegar ég færði mig yfir í fasteignageirann,“ segir hún.

Hvers vegna ákvaðstu að gerast fasteignasali?

„Ég var löngu búin að ákveða að verða fasteignasali og kláraði námið 2018. Pabbi var fasteignasali til margra ára svo ég ólst upp í þessu umhverfi. Mér fannst ég tilbúin núna og það var löngunin í að blanda saman fjármálaþekkingu og fasteignum sem kallaði á mig. Mig langaði að færa mig nær fólkinu og bjóða öðruvísi nálgun, meiri fræðslu og gagnsæi.“

Hvað er það við starfið sem þér finnst heillandi?

„Mér finnst dýrmætt að fá að vera hluti af einni stærstu ákvörðun í lífi fólks, hvort sem það er að selja heimilið sitt eða kaupa nýtt. Það krefst bæði trausts og ráðgjafar og það er frábært að fá að vera þessi aðili sem fólk treystir á.“

Tinna hefur frá upphafi starfsferils síns starfað í fjármálageiranum.

„Síðustu ár kom ég að þróun stafrænnar þjónustu fyrir fólk í fasteignaviðskiptum. Þar kom ég meðal annars að hönnun á greiðslumati, verðmati og lánareiknivél. Þessi reynsla hefur nýst mér gríðarlega vel í fasteignasölunni.“

Hvað skiptir máli að hafa í huga þegar fasteign er seld?

„Undirbúningur skiptir miklu máli. Að eignin sé hrein, vel lýst og sett fram á faglegan hátt getur gert gæfumuninn. Góð markaðssetning og rétt verð er líka lykilatriði og svo þarf seljandi að vita hvert ferlið er og fá góðan stuðning frá upphafi til enda.“

Hvað hefur komið þér á óvart við fasteignasalastarfið?

„Hvað starfið er fjölbreytt. Það eru engir tveir dagar eins! Ég hef líka verið að prófa mig áfram með öðruvísi markaðssetningu með myndböndum af eignum í bland við fræðslu. Það var nokkuð sem ég hélt í upphafi að myndi ekki eiga vel við mig, en í dag er það orðið eitt af mínum helstu áhugamálum!

Hvorki kaupendamarkaður né seljendamarkaður

Hvernig er staðan á fasteignamarkaðnum núna?

„Staðan er tiltölulega jöfn, hvorki seljenda- né kaupendamarkaður. Það eru margar eignir á söluskrá í dag og sölutíminn hefur lengst. Það þýðir að kaupendur hafa meiri tíma og seljendur þurfa að vanda kynninguna. Ef vextir fara að lækka frekar gæti það aukið eftirspurn og þrýst verðinu upp.“

Á fólk sem er að kaupa sína fyrstu íbúð að stökkva af stað eða bíða?

„Það fer mjög eftir aðstæðum hvers og eins. Ef þú ert með stöðugar tekjur og næga útborgun, þá getur það verið skynsamlegt að kaupa, sérstaklega ef þú finnur eign sem hentar þínum þörfum vel. Það er engin trygging fyrir því að vextir lækki mikið meira eða að verð lækki.“

Ertu með einhver góð ráð fyrir ungt fólk sem er að reyna að safna fyrir íbúð?

„Já, ég á sjálf ungling á heimilinu og fyrsta sem ég ráðlagði honum var að stofna viðbótarlífeyrissparnað. Hann getur nýst sem útborgun í fyrstu fasteign, án þess að greiða skatt af, sem er algjör bónus. Svo skiptir miklu máli að setja sér skýr markmið: Hver er upphæðin sem þú þarft að safna? Hversu mikið getur þú lagt til hliðar í hverjum mánuði? Þegar það er komið á blað verður markmiðið raunverulegra. Við sem rekum heimili vitum að húsnæði og matur eru stærstu útgjaldaliðirnir. Þess vegna getur það verið gríðarlegur sparnaður fyrir ungt fólk að búa heima aðeins lengur ef það er mögulegt. Þannig geturðu lagt meira til hliðar og nálgast markmið þitt hraðar.“

Ertu með einhver góð sparnaðarráð fyrir þá sem vilja leggja fyrir til að geta keypt húsnæði?

„Ég sjálf nota sérstakan sparnaðarreikning í öðrum banka þar sem ég læt millifæra sjálfkrafa um hver mánaðamót. Það gerir það að verkum að sparnaðurinn er „út af fyrir sig“ og verður síður freistandi og smám saman safnast upp fín upphæð. Fleira sem gott er að nýta sér er að fá tilboð í tryggingarnar frá öllum tryggingafélögum og fara yfir útgjöldin reglulega. Prófa að fara til dæmis yfir neyslu síðustu þriggja mánaða. Ertu með áskriftir sem þú ert ekki að nýta þér? Sjálf uppgötvaði ég að ég var með áskriftir á erlendri síðu og fann enga einfalda leið til að hætta í áskriftinni. Það endaði með því að ég lokaði kortinu og viti menn, þá hurfu allar áskriftirnar. Ég skráði mig bara aftur í það sem ég vildi virkilega nota. Frábær leið til að „hreinsa til“ og spara í leiðinni!“

Tinna segir að það geti verið gott að loka kortinu …
Tinna segir að það geti verið gott að loka kortinu ef fólk er að borga fyrir áskriftir sem erfitt er að losna við. Morgunblaðið/Karítas
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda