Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá sjúkraþjálfara sem veltir fyrir sér hvort hann eigi að stofna kennitölu undir reksturinn eða ekki.
Góðan dag.
Ég er að fara að starfa sem sjúkraþjálfari á stofu út í bæ. Langar að forvitnast um það hvort það sé betra fyrir mig að hafa reksturinn á minni kennitölu eða að stofna fyrirtæki um reksturinn? Hverjir eru kostir og gallar við þessar leiðir? Ég hef heyrt mjög mismunandi svör og þætti vænt um að fá hjálp við að ákveða mig hvora leiðina ég ætti að fara.
Bestu kveðjur,
sjúkraþjálfarinn.
Sæll þjálfi.
Frábær spurning og það er að mörgu að huga. Fyrst og fremst verðum við að skoða hvað umræddur rekstur mun koma til með að gefa af sér og rétt væri hjá þér að stilla upp grófri rekstraráætlun í því samhengi.
Skattþrep einstaklinga eru þrjú og er miðjuþrepið um 38%, hæsta þrepið er rúm 46% og miðast við þegar laun og hagnaður í eigin starfsemi fara yfir rúmar 1.3 milljónir á mánuði.
Aðilar í sjálfstæðri starfsemi þurfa að reikna sér endurgjald skv. staðli Skattsins og eftir því sem ég kemst næst myndi sjúkraþjálfari flokkast í flokk C (6) og þyrfti að reikna sér að lágmarki kr. 738.000 á mánuði í laun eða reiknað endurgjald.
Tekjuskattur lögaðila er að jafnaði 37.6% hvort sem er um að ræða Samlagsfélag (SLF) eða einkahlutafélög (EHF) að teknu tilliti til skatts af arðgreiðslum.
Því mætti segja að ef samanlagður afrakstur starfseminnar þ.e. reiknuð laun og hagnaður fer yfir 1.3 milljónir á mánuði væri skattalega hagkvæmt að stofna lögaðila um reksturinn þar sem mismunur á skatti er rúm 8%. Ef sú tala er undir þessu viðmiði, 1,3 milljónir á mánuði breytir þetta nákvæmlega engu skattalega.
Sömu lög gilda um bókhald og frádráttarbærni kostnaðar hvort sem um er að ræða einstakling í rekstri eða lögaðila.
En það er líka önnur sjónarmið og er þetta ekki tæmandi upptalning á slíku. Það getur verið einfaldara fyrir aðila að vera með atvinnurekstur sinn undir hatti lögaðila í stað eigin kennitölu. Það getur aðskilið fjármál rekstrarins frá einstaklingnum þótt að um lítið sem ekkert skattahagræði sé að ræða. Einnig geta komið til sjónarmið varðandi fjárhagslegar ábyrgðir og áhættu rekstrarins.
Eins og spurningin hljómar frá þér þyrftir þú að skoða hvort umrædd starfsemi sé líkleg til að fara yfir umrædd mörk og hvort líklegt sé að þú náir fram einföldun á þínum persónulegu fjármálum með því að setja reksturinn inní félag. Ef svarið er já í báðum tilfellum er engin spurning um að þú stofnir félag utan um þína starfsemi.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.