Áslaug Magnúsdóttir hefur tekið sæti í stjórn íslenska tæknifyrirtækisins Catecut. Fyrirtækið notar myndgreiningu til að bera kennsl á fatnað og merkja eiginleika fatnaðar sjálfvirkt. Þetta á að skila sér í dýpri vörulýsingum og bættri leitavélabestun fyrir netverslanir með það að markmiði að draga úr ósamræmi í vöruupplýsingum.
Áslaug er stofnandi tískumerkisins Katla, meðstofnandi og fyrrverandi forstjóri Moda Operandi og fyrrverandi stjórnandi Gilt Groupe. Áslaug er á lista tískumiðilsins Business of Fashion, BoF 500, yfir aðila um allan heim sem þykja hafa áhrif á tískuheiminn í dag.
„Áslaug er einn virtasti frumkvöðull tískuheimsins og hefur leitt stafræna breytingu í lúxustísku og netverslun á heimsvísu síðustu tvo áratugi,“ segir Heiðrún Ósk Sigfúsdóttir, meðstofnandi og framkvæmdastjóri Catecut, í fréttatilkynningu.
„Hún var jafnframt valin ein af 50 valdamestu konum í tískuheiminum af vefritinu Fashionista. Hún hefur nú þegar haft jákvæð áhrif á stefnumótun okkar með innsýn sinni í alþjóðlegan tískuiðnað. Það er okkur sannur heiður að fá hana í stjórn.“
Catecut hefur hlotið þróunarstyrk Vöxt frá Tækniþróunarsjóði RANNÍS og markaðsstyrk úr Atvinnumálum kvenna.
„Teymið hjá Catecut hefur þá reynslu og tækni sem þarf til að umbreyta netverslun með fatnað með því að leysa margar raunverulegar áskoranir í rekstri, og upplifun viðskiptavina,“ segir Áslaug.