Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi hjá Endurskoðun & ráðgjöf svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hann spurningu frá konu sem veltir fyrir sér hvað sé hagstæðast þegar kemur að því að leigja út sumarhús á Airbnb.
Góðan dag.
Ef ég leigi sumarhús mitt á Airbnb, hvort greiði ég fjármagnstekjuskatt af tekjunum eða almennan tekjuskatt? Er hagstæðara að stofna einkahlutafélög utan um leiguna bara án þess þó að selja bústaðinn til félagsins? Ef bústaðurinn yrði seldur í framtíðinni hvaða skatt þyrfti að borga ef það verður söluhagnaður?
Kveðja,
sumarbústaðaguggan.
Sæl sumarbústaðagugga.
Heimagisting allt að 90 dagar á ári og undir 2 milljónum er almennt ekki litið á sem atvinnurekstrartekjur. Af slíkum leigutekjum reiknast fjármagnstekjuskattur 22% og nýtist frítekjumark fjármagnstekna á móti þessum tekjum. Þetta er „brúttó“ skattlagning þannig að skattur reiknast af heildartekjum, enginn frádráttur mögulegur.
Þetta fyrirkomulag er ekki mögulegt ef reksturinn er á hendi lögaðila. Þar skattleggjast allar tekjur sem atvinnurekstrartekjur og er skattlögð sem slík, ekki í 22% skatti eins og hjá einstaklingi.
Um leið og tekjur fara yfir 2 milljónir er litið á umrædda leigu sem atvinnustarfsemi. Skattlagningin ferá þá í venjuleg tekjuskattsþrep (31%-46% eftir atvikum). Skila þarf virðisaukaskatti af innkomunni en á móti má draga frá rekstrartengdan kostnað. Viðkomandi aðili þarf síðan að reikna sér endurgjald skv. staðli skattsins og skila af því staðgreiðslu skatta, tryggingagjaldi og öðrum launatengdum gjöldum.
Mér hefur í raun fundist fyrra fyrirkomulagið koma betur út frekar en það síðara ef ekki er um verulegar tekjur að ræða. Umstangið er töluvert utan um litla veltu en virðist samt henta aðilum sem elska að þvo rúmföt og sætta sig við lágt tímakaup. Ef hinsvegar ef um verulegar tekjur er að ræða er örugglega hægt að hafa út úr þessu góða framfærslu en menn verða að hafa í huga að þetta er einfaldlega þá skattskyld starfsemi eins og hver önnur.
Hvað varðar að stofna félag um leiguna sem slíka þá er því til að svara að væntanlega þyrfti sá lögaðili að greiða eiganda fasteignarinnar húsaleigu sem hann er síðan aftur skattskyldur af. Þannig að með slíku fyrirkomulagi erum við eiginlega komin í skattalega tilgangslausa hringekju.
Frístundahús eru skattfrjáls í hendi einstaklings eftir 7 ára eignarhaldstíma. Þetta á við um fasteignir utan atvinnurekstrar. Almennt er ekki litið á heimagistingu undir 2 milljónum á ári sem atvinnurekstrartekjur þannig að slík starfsemi skerðir ekki skattfrelsi eftir 7 ára eignarhaldstíma.
Hinsvegar ef sumarhúsið er leigt út í virðisaukaskattskyldri starfsemi með veltu yfir 2 milljón króna mörkin er búið að fyrirgera skattfrelsinu og líklegt má telja að söluhagnaður af slíkri eign verði að fullu skattskyld (ekki í fjármagnstekjuskattsþrepinu) eins og á við um aðrar rekstrartengdar eignir svo sem iðnaðar- og verslunarhúsnæði svo dæmi séu tekin.
Sumum hefur dottið i hug það fyrirkomulag að stofna félag um sumarhúsið og leigja hann út. Það getur endað sem skattaleg sprengja. Frístundahús í eigu manna eru skattfrjáls eftir 7 ára eignarhaldstíma. Þetta á ekki við ef eignarhaldið er á hendi lögaðila (félags). Árin eru fljót að líða og miðað við verðhækkanir sumarhúsa er líklegt að skattskyldur söluhagnaður á slíku húsi í eigu félags yrði verulegur, ég get alls ekki mælt með þessu.
Kveðja,
Eymundur Sveinn Einarsson endurskoðandi.
Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eymundi spurningu HÉR.