Samkvæmt nýútkominni bók, The Author's AI Toolkit: From Concept to Publication eftir rithöfundinn Hank Quense, þurfa efnishöfundar ekki að hafa áhyggjur af að gervigreind komi í staðinn fyrir þá.
„Þegar við notum gervigreind til að draga úr þeim tíma sem við eyðum í venjuleg verkefni gerir það okkur kleift að einbeita okkur að djúptækari þáttum sköpunarferlisins, eins og að betrumbæta efni, bæta við tilfinningalegri dýpt og tryggja nákvæmni og áreiðanleika,“ segir Quense.
Með þessu á Quense við að rithöfundar ættu að nýta gervigreindina sem „aðstoðarmann“ sem geti tekið við verkefnum á borð við rannsóknir, gerð beinagrindar eða grunndrög.
Í bókinni kemur Quense inn á hvernig nýta megi gervigreindina á fimm stigum ritferlisins þegar bók er skrifuð.
Áætlun: Quense segir mikilvægt að kynna sér á hvaða hátt hægt sé að nota gervigreindina til að aðstoða við drög að sögunni og hvernig byggja megi upp ferlið á sem skilvirkastan máta. Gervigreindin getur aðstoðað rithöfunda við að koma skipulagi á hugmyndir og yfirstíga ritstíflur.
Skrif: Rithöfundar eiga að læra hvernig megi nota gervigreindina til að betrumbæta óbundið mál, búa til samræður, ýta undir persónusköpun og jafnvel að smíða umhverfi sögunnar. Allt þetta má gera án þess að skerða einstaka rödd höfundarins, samkvæmt Quense.
Útgáfa: Hægt er að einfalda tæknileg atriði við útgáfuna með lausnum frá gervigreindinni, t.d. við umbrot, hönnun bókarkápu og útbúa stutta lýsingu á söguþræði, sem gæti nú gert sjálfsútgáfu auðveldari en nokkru sinni fyrr.
Markaðssetning: Quense bendir á leiðir gervigreindarinnar til að markaðssetja bókina, t.d. við að ákvarða markhóp, skipuleggja markaðsherferðir og hvernig hægt sé að gera efni sem best fyrir samfélagsmiðla.
Viðskiptahliðin: Vörumerki höfundar getur verið stýrt af gervigreindinni sem getur aðstoðað m.a. við gerð fréttabréfa og greina markaðsþróun.
„Ekki óttast gervigreindina. Fagnið siðfræðilegu notagildi hennar,“ áréttar hann.