Spákonan Sigga Kling dró fram spilin og kristalskúluna og skoðaði stöðuna á stjörnumerkjunum í maí. Það er margt áhugavert í stjörnukortunum en Sigga Kling heldur því fram að hrúturinn sé að fara að upplifa merkilegustu þrjá mánuði á lífsleiðinni.
Elsku hrúturinn minn.
Þú ert að fara í eina merkilegustu þrjá mánuði í lífi þínu, allt sem að kemur til þín eða er í kringum þig núna eru aðstæður til þess að þú takir ákvarðanir og það er kannski erfitt að taka réttar ákvarðanir.
Þú átt eftir að skynja rétta ákvörðun þannig þegar þú hugsar hvað þú ætlar að gera finnurðu fyrir miklum létti. Ef þú tengir bara við kvíða gagnvart einhverju ættirðu að líta í aðra átt og skoða annan möguleika.
Líkaminn talar við þig og er svo fljótur að skynja rétt eða rangt, nákvæmlega eins og þegar þú verður snögglega hræddur þá geturðu fengið sting í magann eða einhvers staðar annars staðar á sekúndubroti.
Elsku nautið mitt.
Þetta eru svo spennandi tímar sem eru fram undan en kaos hefur verið svolítið ríkjandi en þú þarft bara að leysa úr því eins og hverri annarri krossgátu.
Eina ástæðan þess að svona kaos komi yfir þig eru of sterkar hugsanir, þú ert svo máttugur að þínar eigin hugsanir eru svo háværar. Á einu augnabliki er eins og öll ský dragi frá sólu og þó þú hugsir núna að allt verði betra einhvern tíma er þetta einhvern tíma ekki til.
Svo lagaðu til í kringum þig, ekki vorkenna þér né öðrum því vorkunn er ekki góð orka. Þann 12. maí er fullt tungl og talan átta teiknar upp þann dag, þarna sérðu í gegnum hlutina og finnur út hvernig þú breytir svörtu í hvítt.
Það eina sem þú þarft að gera er að stökkva á þau verkefni sem þú þarft að breyta eða vinna í. Athugaðu að þú þarft að gera þessi verkefni sjálfur því enginn mun hjálpa þér. Ef þú ert að bíða eftir að einhver hjálpi þér verður ekkert úr neinu.
Elsku tvíburinn minn!
Þú ert langskemmtilegasta merkið en þú getur líka fallið niður í gjótu og orðið dökkur í sálinni gagnvart sjálfum þér.
Þú mátt ekki staldra of mikið við þar en núna er akkúrat landið að gefa þér svo mikla birtu og svo svakalegan kraft að mikilvægt er að þú lærir inn- og útöndum því öndun er eitt það merkilegasta sem þú ættir að læra.
Til dæmis að anda djúpt inn … telja hægt upp á tíu í huganum … og anda frá þér. Það þarf ekki allt að vera svo flókið, bara gera einfalda hluti er langbest fyrir þig.
Þessi mánuður er sannkallaður undirbúningstími. Hann lætur þig mæta hindrunum til að koma þér á réttan stað. Þú þarft að vita af innlifun hvar þú ert og hvert þú vilt fara í raun og veru.
Elsku krabbinn minn.
Þó að þér finnist að þú hafir klessukeyrt bílinn eða sjálfan þig núna sérstaklega á síðustu tíu dögum leiðréttist það allt saman og kemur betur út en þú þorðir að vona.
Þú ert að leyfa lífinu að flæða svo fallega og að henda þér út úr því oki sem hefur að einhverju leyti fest þig. Þú þarft bara að meta þig aðeins meira því allt það fólk sem er í kringum þig metur þig eins og þú gerir það.
Fjármálin bjargast alltaf — þó á síðustu stundu sé — stórir peningar gætu orðið að þínum en í því þarftu að vera óhræddur að standa með þér.
Einnig áttu eftir að sjá að þú ert að líta betur út en áður en það er kannski vegna þess að þú færð meiri áhuga að laga þig til, fara í föt sem þú elskar, „klæða þig í daginn“ eins og Dorrit fyrrum forsetafrú sagði svo fallega.
Það eru svo miklar sviptingar í orkunni og pláneturnar í kringum okkur raðast þannig saman að annað eins hefur ekki sést í 165 ár.
Elsku ljónið mitt.
Þú yndislega kraftmikla vera sem hefur svo háa og djúpa skynjun á hinu andlega. Þér finnst stundum þú skiljir ekki hvað þetta líf er að færa þér.
Undanfarið hefurðu verið bæði glaður og sorgmæddur, jafnvel á sama klukkutímanum. Sá tími hefur komið að þú sérð ekki tilganginn með þessu öllu saman.
Það er þó svo að það er enginn tilgangur með lífinu þar sem þú ert undir stjórn á þessu ferðalagi. Þá ert það ÞÚ sem ræður því hvaða tilgang þú hefur í því og hvernig þér líður varðandi það.
Þegar þér líður vel, þegar vellíðan streymir um þig, mundu að klappa aðeins á hjartastöðina þína eða bringuna því þá festirðu betur þá líðan í minni frumanna þinna.
Mars er sterkur í þínu merki núna og hann er pláneta vinnusemi. Þannig er best að drífa sig að klára þau mál sem sitja á hakanum. Eins og var hér áður fyrr var vorhreingerning í hverju húsi til að fagna birtunni. Þegar búið er að hreinsa til líður þér svo vel.
Elsku meyjan mín.
Það er alveg víst að þú veist að þú þarft að standa þína plikt. Þú ert sú manneskja sem ég myndi velja í flest verkefni því það sem þú ætlar að gera gerir þú svo vel.
Það er eins og það færist yfir þig friður, auðmýkt og ró og þú ert að fara í einhvers konar tímabil þar sem þú getur sinnt því sem þú elskar. Þú finnur leið að peningastreymi og peningar eru bara orka sem getur verið svo skemmtileg.
Hins vegar skaltu ekki bera ábyrgð á annarra manna fjárhag nema þú getir misst þann pening án þess að erfiðleikar heimsæki þig.
Þú ert annað hvort að rífa niður eitthvað í húsnæðinu þínu, breyta, mála. Hvort sem um er að ræða stórt eða lítið verk fyllir það huga þinn á meðan og lætur þig ekki hugsa um vandamál sem þú getur hvort eð er ekki leyst.
Þegar þú byggir upp umhverfið þitt byggirðu upp andann þinn í leiðinni. Það er svo mikið verið að tala um að við séum að ferðast inn í fimmtu víddina.
Elsku vogin mín.
Þó margt hafi blasað við af ótrúlegum erfiðleikum á síðasta ári hefur það gefið þér að þú lætur ekki ráðast inn í sálarlífið þitt eins og áður.
Það gæti verið breyting á vinnu ef þú ert búin að vera óviss undanfarið. Þú ert hægt og rólega búin að ákveða að þú ætlar að framkvæma eitthvað nýtt. Það gerist ekki strax en það er að myndast fyrir framan þig.
Þú ert farin að verðmeta þig og vita hvað þú getur. Þú vinnur svo vel úr allri sorg og kraftmikið karma sem þú átt inni er að koma og gefa þér gjafir.
Þú hefur oft eytt allt of miklum tíma í einhvern sem metur það ekki neitt, jafnvel þó þú hafir gert allt þitt til að byggja góðar undirstöður hjá þeirri persónu.
Guð hjálpar þeim sem hjálpa sér sjálfir þýðir einfaldlega að manneskjan sjálf verður að bjarga sér. Enginn getur bjargað annarri manneskju.
Elsku sporðdrekinn minn.
Það er svo mikið að gerast hjá þér en þann 12. maí er fullt tungl í sporðdrekamerkinu og sólin og úranus er í nautsmerkinu. Þú getur ekki haft neinn fílter á þér.
Það verður spenna og drama, hreinskilni og þú sérð hvað þú gerðir vitlaust og þegar þú sérð það veistu hvað þú átt að gera (því það er akkúrat í hina áttina).
Tunglið þitt sem er í kringum 12. maí er kallað blómatungl eða blómamáni og skiptir svo miklu máli þegar sú tíðni er í kringum þig. Þú mátt ekki rífast ekki við einhvern náinn þér sem á það alls ekki skilið, því þannig er það oftast hjá okkur, að við berjum á þeim sem næst hjartanu okkar eru.
Farðu og gefðu þeim þakklæti sem hafa hjálpað þér í gegnum tíðina, í hvaða formi sem það er, skiptir ekki aðalmáli en þetta þarftu að gera og framkvæma frá hjartanu.
Elsku bogmaðurinn minn.
Þér eru gefnir svo miklir hæfileikar og þess vegna er svo mikilvægt að nýta þá. Þú ert góður í því sem þú gerir, alveg sama hvað þú tekur þér fyrir hendur.
Það er einhvers konar skipting eða breyting í orkunni í kringum þig en það er þá frekar verið að tala um persónur sem tengjast þér og þú gætir verið að hafa áhyggjur af.
Vertu bara ákveðinn að halda áfram þínu striki. Mögulegt er að í kortunum sé að breyta um húsnæði, skoða nýja möguleika … þó það gæti verið plan yfir næstu mánuði er það samt komið inn í kringum þig.
Það er að koma eitthvað gott í sambandi við vinnu og ef þú ert í prófum (sem er líka vinna) er mjög mikilvægt að sjá það fyrir sér hvaða útkomu þú vilt fá í hverju prófi.
Skrifaðu þá útkomu niður og settu á ísskápinn svo frumurnar þínar sjái hvaða útkomu þú vilt ná. Það er líka gott að hafa töluna aðeins hærri en þú býst við, ég get sagt margar sögur af því að þetta hefur virkað.
Elsku steingeitin mín.
Það er að sjálfsögðu ekki allt sem gengur upp í lífi þínu en þú hefur sérstaka gáfu til að koma þér út úr erfiðleikum og koma þér á þá braut sem þú þarft að fara.
Þú hefur líka það afl að pína þig til að hanga of lengi á braut sem þú veist að þú átt ekki að vera á bara. Bara því þú hefur sagt þú ætlir að vera þarna næstu árin og þá verðurðu að standa við það.
Þú ert að hugsa um og safna saman hvaða hæfileika þú hefur og þú setur hæfileikana þína í stóran pott, hellir út á rjóma og hrærir en þá ertu kominn í öllum þínum krafti.
Þú þarft að vera í fjölbreyttum hlutum sem gefa þér lífið eins og þú vilt lifa því. Þú þarft að gefa þér leyfi til að skipta um vinnu, skóla og svo framvegis því þú getur verið of hörð við sjálfa þig að halda bara áfram, sama hvað.
Það verður mikill metnaður í þér í sambandi við það sem þú ert að taka að þér. Það mun ganga allt alveg ágætlega en upp úr 11. maí og eitthvað fram í júní verðurðu í essinu þínu.
Elsku vatnsberinn minn.
Þú ert settur hérna á jörðina til að vernda og blessa aðra. Til að gefa öðrum pláss, til að hjúkra öðrum, hvort sem það tengist andlega eða líkamlega sviðinu þeirra.
Það er líka þannig að þegar þú gefur af þér svona mikið færðu það margfalt til baka en ekki kannski frá þeim sem þú gafst og gerðir góðverkin hjá.
Þar sem þú ert svo tilfinningarík og fjölskrúðug persóna ertu alltaf að leita að einhverju betra til að bæta þig og það er alveg sama hvað þú finnur – þú heldur áfram að finna eitthvað nýtt.
Þú ert að fara að upplifa merkilegustu þrjá mánuði í lífi þínu og það er svo gjörsamlega undir þér komið hvort að þeir verða helmingi betri en góðir.
Útlit þitt og framkoma bendir til að þú sért sterkasta manneskjan á svæðinu en samt ertu með þetta ógnar viðkvæma hjarta.
Elsku fiskurinn minn.
Þú ert svo mikill sáttasemjari og friðelskandi mannvera en svo líka hefurðu þá eiginleika að geta breytt þér eftir eigin hentugleika.
Fiskarnir tákna fætur fólks alveg eins og tvíburarnir tákna hendur og ef þú vilt ekki hreyfa þig úr stað þá hreyfist ekkert. Þú hefur þennan kraft að allir veita því athygli sem þú segir.
Þú ert orðheppinn og fljótur að læra allt mögulegt. Vorið er þinn uppáhaldstími og blómatunglið er fullt 12. maí og 12. maí hefur að sjálfsögðu töluna átta sem er uppáhalds tala Kínverjanna og táknar eilífðina.
Í upphafi mánaðar verður þú svolítið pirraður elskan mín og lætur allt fara í taugarnar á þér en þetta breytist svo sannarlega þegar fyrstu tvær vikurnar eru búnar af þessum mánuði.
Slakaðu bara á og slepptu stjórninni, ímyndaðu þér bara að þú sért í aftursætinu þegar einhver er að keyra og þú þurfir ekki að aðhafast. Þetta á við fyrstu tíu dagana í þessum mánuði svo eftir þá mun þér ganga svo vel og finnur hvernig hjartað þitt stækkar og ferð með flæðinu.