Í tilefni af 14 ára afmæli Smartlandsins var Marta María Winkel Jónasdóttir, upphafskona vefsins, til viðtals í Dagmálum á dögunum. Þar fór hún yfir hlutverk og sögu Smartlandsins en vefurinn hefur löngum stimplað sig inn í þjóðarsálina og kemur til með að vera hluti af henni um ókomna tíð.
Fatastíll, tíska og almenn smartheit er meðal þess sem einkennir fréttir á Smartlandi frá öðrum fréttum. Þar er gjarnan rýnt í klæðaburð helstu fyrirmanna þjóðarinnar við misjafnar undirtektir landsmanna. Þó virðast langflestir hafa skoðun á slíku umfjöllunarefni því ekki ljúga lestrartölurnar.
„Ef að við sem smáríki ætlum að láta taka okkur alvarlega á alþjóðlegum vettvangi þá verður þú að vita að þú mætir ekki í svona bomsum og þú þarft að vera með stílista,“ segir Marta María sem gagnrýndi skóbúnað Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, við myndun nýrrar ríkisstjórnar síðasta haust, og fékk mikil viðbrögð í framhaldinu.
„Kristrún Frostadóttir er búin að koma sér upp stílista og aðrir þyrftu að gera það líka,“ segir Marta María og bendir á að eini ásetningurinn með slíkum fréttum sé að fræða og upplýsa land og þjóð og stuðla að smartheitum. Síður en svo sé tilgangurinn sá að smána eða niðurlægja fólk.
„Við erum bara að reyna að mennta fólkið í landinu,“ segir hún. „Klæðaburður sumra hefur nú alveg batnað eftir að við fórum í ríkari mæli að benda á það sem betur mætti fara.“
Marta María segir áberandi viðhorfa mun vera á milli kynslóða þegar klæðaburður og verð á fatnaði er til umræðu. Yngri kynslóðin sé sólgin í að vita hvað flíkur fyrirmenna kosta á meðan eldri kynslóðin blygðist sín fyrir slíkt.
„Svo rakst ég nú á Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, um daginn og mátti nú til með að stríða henni aðeins og spurði hana: „Í hverju ertu og hvað kostaði það“ og þá leit hún svona á mig og sagði: „Veistu það að á dauða mínum átti ég frekar von en að klæðaburður minn ætti eftir að vera vikulegt fréttaefni“,“ segir Marta María og hlær á meðan hún rifjar upp samtalið við geðþekka forsetann.
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Mörtu Maríu í heild sinni.