Sigrún Ósk Kristjánsdóttir sjónvarpsstjarna á Stöð 2, sem nú hefur verið lögð niður, er komin með nýtt starf. Nýja starfið er staða upplýsingafulltrúa Akraneskaupstaðar en þar býr Sigrún Ósk og hefur gert lengi. Sigrún Ósk var valin úr 31. manna hópi. Smartland sagði frá því á dögunum að Sigrún Ósk hefði sagt upp starfi sínu á Stöð 2 eftir 16 ára starf hjá fyrirtækinu.
Sigrún Ósk er með BA-próf í heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst. Hún hefur víðtæka og farsæla reynslu úr fjölmiðlum, þar sem hún hefur starfað sem blaðamaður, ritstjóri og við dagskrárgerð ýmissa sjónvarps- og útvarpsþátta. Auk þess hefur hún gegnt starfi markaðs- og atvinnufulltrúa hjá Akraneskaupstað og verið varamaður í bæjarstjórn.
„Ég er afar þakklát fyrir að hafa verið treyst fyrir því mikilvæga verkefni að móta nýtt starf upplýsingafulltrúa hjá Akraneskaupstað og er full tilhlökkunar að hefja störf. Mér hefur alla tíð þótt mjög vænt um þetta góða bæjarfélag og er spennt fyrir að leggja mín lóð á vogarskálarnar," segir Sigrún Ósk í viðtali á vefnum Akranes.is.
„Með starfi upplýsingafulltrúa er ætlun okkar að bæta upplýsingamiðlun til íbúa Akraness og viðskiptavina Akraneskaupstaðar. Það er mikill fengur fyrir sveitarfélagið að fá Sigrúnu Ósk til starfa. Hún býr yfir mikilli þekkingu og reynslu á sviði miðlunar og þekkir jafnframt samfélagið og málefni Akraness afar vel,“ segir Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri.
Sigrún Ósk mun hefja störf í byrjun ágúst og mun meðal annars bera ábyrgð á samfélagsmiðlum Akraneskaupstaðar, útgáfu fréttatilkynninga, upplýsingagjöf um verkefni og stefnumál sveitarfélagsins, sem og tengslum við fjölmiðla.