Íþróttavörumerkisrisinn Nike sá virði hlutabréfa taka kipp í kjölfar tilkynningar um samstarf við vörumerkið SKIMS, sem er í eigu Kim Kardashian, undir merkinu NikeSKIMS.
Flestir kannast við Nike en kannski kannast færri við undir- og aðhaldsfatamerkið SKIMS, en Kardashian-systirin stofnaði vörumerkið í september 2019 í samstarfið við Emmu og Jens Grede.
Tilkynnt var um nýju vörulínuna NikeSKIMS í gær og er hún væntanleg á netið og í valdar verslanir í Bandaríkjunum, með vorinu. Kardashian hefur sagt vörulínuna vera vandlega hannaða, eitthvað til að verða „heltekinn af“.
Nike var stofnað árið 1964 og var upphaflega var fyrsta vara fyrirtækisins Nike-strigaskór. Vörumerkið hefur í áraraðir verið meðal stærstu í heiminum en átt undir högg að sækja undanfarið vegna tómstundamerkja á borð við Alo Yoga, Vuori og fjölda annarra. Til að halda dampi þurfti Nike að fara nýjar leiðir og er samstarfið sagt vera tilraun fyrirtækisins til að sporna gegn dvínandi vinsældum.
Samstarfinu er ekki ætlað að vera eins og einnar nætur gaman heldur langtímasamband, þar sem risinn Nike, með alla sína sögu, sameinar krafta sína með SKIMS, sem hverfist um sérþekkingu á aðhaldsfatnaði og hefur sterka tengingu á samfélagsmiðlum.
Ekkert hefur verið gefið upp um útlit vörulínunnar en nokkrar getgátur eru á lofti eins og hreinn stíll, minimalískur, fagur og mjúkur, í anda SKIMS, blandað með tæknilegri hönnun og íþróttastíl Nike. Í tilkynningunni kom hins vegar fram að línan verði ætluð konum en þar verða m.a. skór og fylgihlutir.