Björk Guðmundsdóttir prýðir forsíðuna á nýjasta tímariti National Geographic. Hún er hluti af þrjátíu og þremur hugsjónamönnum sem barist hafa fyrir náttúrunni á einhvern hátt. Á listanum má einnig finna þekkta einstaklinga eins og Michelle Yeoh, Selenu Gomez, Jason Momoa og Yöru Shahidi.
Forsíðumyndina af Björk tók íslenski ljósmyndarinn Viðar Logi. Viðar komst meðal annars á lista Forbes á síðasta ári um þrjátíu einstaklinga undir þrjátíu ára sem hafa átt velgengni að fagna á sviði lista og menningar í Evrópu. Stílisti forsíðumyndarinnar er Edda Guðmundsdóttir sem hefur unnið mikið með listakonunni síðustu ár.
Á myndunum klæðist Björk meðal annars fatnaði frá Rick Owens, Moncler, James Merry og Mikiosakabe.
Björk er einnig í stóru viðtali í blaðinu þar sem hún talar um baráttuna gegn sjókvíaeldi hér á landi. Árið 2023 gáfu hún og söngkonan Rosalía út lagið „Oral“.
Markmiðið með útgáfu lagsins var að vekja athygli á „ógnvekjandi grimmd þegar kemur að sjókvíaeldi og þeim alvarlegu umhverfis- og vistfræðilegu afleiðingum sem sjókvíaeldi hefur,” sagði meðal annars í fréttatilkynningunni um lagið.