Tískuhúsið Versace stefnir aftur „heim“ til Ítalíu en Prada Group hefur fest kaup á félaginu. Önnur félög í eigu Prada Group-samstæðunnar eru tískuhúsið Prada, Miu Miu, Church's, Car Shoe, gúrmetbakaríið Marchesi 1824 og Luna Rossa.
Kaupverðið er 1,25 milljarðar evra eða í kringum 182 milljarð króna sem þykir heldur lægra en búist var upphaflega við. Versace hefur átt undir högg að sækja að undanförnu og hefur verið rekið með tapi.
„Við erum í skýjunum að geta boðið Versace í Prada-fjölskylduna og skrifað nýjan kafla fyrir merki sem við deilum mörgum hugsjónum með eins og skapandi hugsun, handverki og arfleið. Við munum halda áfram að fagna og túlka djörfa og tímalausa fagurfræði. Við erum vel í stakk búin til að skrifa nýja síðu í sögu Versace og byggja á gildum samstæðunnar á sama tíma,“ sagði Patrizio Bertelli forstjóri Prada Group, um kaupin.
Það vakti mikla athygli fyrr á árinu þegar Donatella Versace, fyrrum listrænn stjórnandi tískuhússins, lét af störfum. Hún hafði gegnt stöðunni síðan árið 1997 eða frá því að bróðir hennar, Gianni Versace, var myrtur.
Nýr listrænn stjórnandi Versace er Dario Vitale og er þetta í fyrsta skipti í sögu tískuhússins sem aðili utan fjölskyldunnar sinnir stöðunni.