Júlíana hikar ekki þegar hún er spurð hvað sé efst á fermingargjafalistanum. „Mig langar mest í utanlandsferð, Adidas-skó og peninga.“ Hún er búin að kaupa fermingarkjólinn en það var mamma hennar sem rakst á hann fyrir tilviljun í Kringlunni og þær náðu síðasta kjólnum í hennar stærð.
„Ég keypti hvítan síðan kjól í Cosmo sem ég er mjög ánægð með. Ég er svo að fara í prufugreiðslu fljótlega og þá kemur endanlega í ljós hvernig hárið mitt verður í fermingunni. Ég ætla að fara í neglur en ég mála mig bara sjálf og ætla ekki að hafa mikla förðun.“
Magnea segir að þær mæðgur séu búnar að pæla í og skipuleggja ferminguna saman í nokkurn tíma og það hafi verið mjög skemmtilegt. „Júlíana hefur tekið virkan þátt í bæði hugmyndavinnunni en hún hefur líka hjálpað til við undirbúninginn í eldhúsinu. Okkur finnst þetta mjög gaman. Ég hef alltaf haft áhuga á því að undirbúa veislur og viðburði, alveg frá því að ég var bara tíu ára stelpa. Ég gjörsamlega gleymi mér í svona vinnu.“ Hún segist sækja sér innblástur héðan og þaðan. „Ég er að vinna í veislum í Víkinni, félagsheimili Víkings, svo þar sé ég oft eitthvað sniðugt, stundum finn ég eitthvað upp sjálf og svo nota ég tímarit og netið.“
Fermingargestirnir verða á bilinu 90-100 með börnum en veislan verður haldin heima. Litaþemað verður bleikt, hvítt og gull auk þess sem þær ætla að skreyta með lifandi blómum. Aðalveitingaborðið verður skreytt með hvítum dúk og blómum.
„Við ætlum auk þess kannski að spreyja einn gamlan fótboltaskó gylltan og hafa á gjafaborðinu. Svo létum við gera svolítið sniðugan gogg hjá fyrirtæki sem heitir BH-hönnun, ég sá gogginn í fyrra í fermingarveislu og fannst tilvalið að hafa hann á borðunum sem skraut en líka sem leik, því hægt er að svara spurningum um fermingarbarnið í honum. Það er margt fleira sniðugt á þessari síðu sem við ætlum að nýta okkur í fermingunni, við eigum bara eftir að ákveða endanlega hvað það verður.“
Þegar Magnea er spurð hvort til standi að hafa einhverja leiki fyrir veislugesti svarar hún um hæl að hún haldi enga veislu nema í henni séu skemmtilegir leikir.
„Við ætlum að hafa svokallað standandi bingó, þá standa allir með spjald og svo er ein tala dregin og sá sem er með töluna þarf að setjast og er því úr leik. Þannig að þetta er svona öfugt við venjulegt bingó en þetta er sniðugt af því að spilið tekur ekki svo langan tíma og þess vegna hægt að spila nokkrar umferðir. Við verðum svo með einhver páskaegg og eitthvað svoleiðis í verðlaun.“
Magnea bætir við að Júlíana ætli að klippa saman myndband af sér til að spila í veislunni en til er mikið af myndskeiðum af henni þegar hún var lítil að baka.
„Ég byrjaði tveggja ára að baka með mömmu, við vorum bara alltaf að baka. Ég fékk svo ísvél fyrir nokkru og er líka dugleg að búa til ís þar sem ég prófa mig áfram með mismunandi bragðtegundir, mér finnst svona eldhússtúss með mömmu skemmtilegt.“
Veitingarnar verða að miklu leyti heimagerðar og ekki af verri endanum þar sem Magnea er mikill kokkur og sælkeri. „Þetta verður svona smáréttaveisla með mjög fjölbreyttum veitingum, við kaupum alveg eitthvað tilbúið eins og kransaköku, kjúklingaspjót og uppáhaldsmatinn hennar Júlíönu sem er sushi. Allt annað gerum við saman og það er töluvert. Ég er byrjuð að undirbúa og til dæmis bakaði ég smápítubrauðin um daginn og setti í frystinn. Ég verð í raun búin að undirbúa allan matinn fyrir veisluna og svo koma vinkonur mínar eftir athöfnina í kirkjunni sem er um tíuleytið og hjálpa mér að setja þetta allt saman. Við bjóðum svo til veislunnar sjálfrar klukkan fimm og því náum við góðum tíma þarna á milli til að undirbúa allt og klára á fermingardaginn, þannig að allt verður ferskt og flott.“ Auk smáréttanna ætla Júlíana og Magnea að setja upp nammibar þar sem fólk getur valið sér góðgæti í poka.
Veitingarnar sem mæðgurnar ætla að útbúa eru mjög fjölbreyttar og þar eru bæði spennandi smáréttir og eitthvað sætt, segir Magnea.
„Við ætlum að baka Rice Krispies-köku saman, hún er svo falleg á borðið. Síðan ætla ég að útbúa roast beef-smurbrauð sjálf, míní-tortíur með tveimur mismunandi fyllingum sem ég festi með klemmu, pítubrauð með pico del gallo og hvítlaukssósu og mozzarellasnittur.“
Það er glampi í augunum á Magneu þegar hún er að gefa smakk af réttunum en skyldi námið eitthvað hafa nýst henni við undirbúninginn?
„Þetta diplómanám er 60 einingar og tekur eitt ár og þótt ég hafi oft stýrt og skipulagt viðburði þá hefur það nánast allt verið fyrir fjölskyldu og vini. Ég er búin að læra margt nýtt og er nú að nýta það sem ég kunni enn betur og í stærra samhengi, meira svona á faglegum nótum. Ég er nýbúin að sjá um 80 manna stórafmæli pabba svo ég er í ágætri æfingu,“ bætir hún við og segist vonast til að geta unnið meira við viðburðastjórnun að námi loknu.
Réttirnir sem Magnea útbjó fyrir myndatökuna voru sérlega bragðgóðir og hún deilir þeim hér með lesendum Morgunblaðsins.
Salsasósa
Setjið allt hráefnið í pott og sjóðið við vægan hita í u.þ.b. 1 klst. Látið kólna aðeins og maukið saman með töfrasprota eða í blandara.
Tortíur
Notið hringlaga skurðarjárn til að skera út litlar tortíur, u.þ.b. 50 stk., fer eftir stærð skurðarjárnsins.
Eldið í ofni í u.þ.b. 35 mínútur og kryddið með kjúklingakryddi eða taco-kryddi. Þegar bringurnar eru tilbúnar eru þær skornar í litla bita.
Látið tómat-chutneyið, kjúklingabitana og mangóbitana inn í hverja tortíu og skreytið með kóríander. Klemmið tortíuna saman með lítilli klemmu eins og á mynd.
Sýrður laukur
Vatn, hvítvínsedik og sykur soðið saman í potti. Þegar sykurinn hefur leyst upp er blöndunni leyft að kólna. Rauðlaukurinn skorinn þunnt niður og settur í krukku. Þegar vökvinn hefur kólnað er honum hellt yfir rauðlaukinn og krukkan geymd inn í ísskáp yfir nótt.
Einfalt guacamole
Blandið öllu saman. Smyrjið á helminginn af toríunni og setjið hvítlaukssósuna á hinn hlutann.
Hitið baunirnar ásamt kryddunum og setjið baunirnar á tortíuna, látið smávegis sýrðan lauk yfir og nokkra mangóbita.
Lokið með klemmu og berið fram.