Bjartar íslenskar sumarnætur kalla á milda og heillandi liti sem fegra það sem guð gaf. Þetta veit Ammy Drammeh förðunarmeistari sem hannaði vorlínuna fyrir Chanel. Förðunarlínan er samsett af fjórum litum sem paraðir eru saman til að draga fram það besta.
Augnskuggalínan Ombre Essentielle býður upp á hæfilegt magn af augnskugga. Liturinn Menthe Á L'Eau er grængrár og fer vel á augnloki. Hann gefur hálfgerða perluáferð en þegar vatnsheldur blýantur í grænum lit er notaður með virkar liturinn sterkari. Það mætti til dæmis setja græna vatnshelda blýantinn á augnlokið og blanda honum þannig að hann myndi ákveðið form á augnlokinu og setja svo augnskuggann sjálfan yfir.
Það er aðeins misjafnt eftir formi augnlokanna hvað fer hverjum best en flestir þrá að láta augun virka stærri og vígalegri. Ferskjulitaði augnskugginn Péche Glacée er fyrir þær sem eru alltaf svolítið sólbrúnar og seiðandi á meðan fjólublái liturinn Mauve Sucré ýtir undir fegurð föla fólksins. Þeir sem vilja fara öruggu leiðina velja Latte Frappé sem er mildur brúnbleikur litur. Vatnsheldu blýantarnir koma í fjórum litum; rauðbleikum, fjólubláum, brúnfjólubláum og grænum. Vatnsheldur augnblýantur í einhverjum af þessum litum gefur mýkra yfirbragð en ef svartur eða brúnn er notaður. Þessi lína býður upp á meiri leik og meira fjör.
Í línunni eru tveir naglalakkslitir, ferskjulitur og grágrænn, sem fara vel við öll ljósu fötin sem við förum að klæðast fyrr en ykkur grunar.