Í Dagmálum á dögunum opnaði söngkonan Alda Björk Ólafsdóttir sig um ofbeldi sem hún varð fyrir af hálfu fyrrverandi kærasta síns. Ofbeldið átti sér stað á sama tíma og hún var á hápunkti tónlistarferilsins og hafði það mikil áhrif á hana. Enda var hún bæði ung að árum og að reyna máta sig inn í nýjan veruleika þar sem frægð og frami blöstu við henni. Segir hún ofbeldið hafa verið sér mikið áfall sem erfitt hafi verið að vinna sig úr.
Alda segir þessa slæmu lífsreynslu hafa litað tilfinningalíf hennar dökkum litum. Þó hafi hún reynt að vera opin með það sem hafði gerst. Til dæmis með því að leyfa sögu sinni og upplifunum að hljóma í gegnum lög sín.
„Þetta er smá byggt á minni eigin sögu. Það er til dæmis eitt lag sem heitir Stop sem mér finnst ofsalega erfitt að hlusta á. Ég get eiginlega ekki hlustað á það vegna þess að ég fer alltaf að gráta þegar ég heyri það,“ segir Alda. „Þegar ég er að syngja þetta lag þá er ég að gráta á meðan.“
Um hvað er lagið?
„Þetta snýst um ofbeldi í sambandi. Ég lenti í svoleiðis,“ segir hún og segist hafa verið auðveldara fórnarlamb á þeim tímapunkti vegna ungs aldurs, aðstæðna og reynsluleysis.
„Ég var svo ung og ég var ekki orðin þessi manneskja sem ég er í dag,“ segir Alda með áherslu. „Þegar ég reyndi að segja honum að þetta væri búið og að ég vildi ekki halda þessu áfram og var að reyna að hætta með honum þá bara brosti hann og sagði bara: „Ég veit þú elskar mig, hættu þessu greyið mitt.“ Þetta var svona sálfræðilegt ofbeldi,“ útskýrir Alda sem segist jafnframt hafa verið beitt líkamlegu og andlegu ofbeldi.
„Þó svo að heilinn í mér hafi aðeins útilokað þetta ofbeldi frá honum þá urðu systkini mín vitni að því líka.“
Alda segist hvað eftir annað hafa reynt að komast undan ofbeldissambandinu. Það hafi henni ekki tekist svo glatt því ofbeldismaðurinn hafði tangarhöld á henni.
„Ég vissi að eina leiðin fyrir mig til að brjótast út úr þessu væri sú að eignast annan kærasta. Ég var búin að kynnast öðrum manni í gegnum vinnuna og vissi að hann væri hrifinn af mér svo ég ákvað í rauninni bara að fara að vera með honum og fá að flytja heim til hans af því að hinn vissi ekkert hvað hann ætti heima og það veitti mér öryggistilfinningu,“ segir Alda og var með þann eina ásetning að losna undan ofbeldismanninum.
„Það tókst. Þangað til að hann fór aftur að reyna að hafa uppi á mér og leita að mér,“ segir hún og rifjar upp atvik sem mun aldrei falla henni úr minni svo lengi sem hún lifir.
„Í síðasta skipti sem ég sá hann þá reyndi hann að ræna mér. Við vorum á bensínstöð, ég og nýi kærastinn minn. Hann fer inn að borga og ég sit úti í bíl á meðan. Þá kemur hann, ofbeldismaðurinn, á þessum græna ógeðslega bíl sem hann átti, og bað mig um að koma inn í bíl til sín því hann langaði svo til að biðja mig afsökunar á hinu og þessu. Og ég fer út úr bílnum og inn í hans og spyr hvað hann vilji,“ útskýrir Alda og rekur alla söguna.
„Það sem bjargaði mér var að ég var með annan fótinn út fyrir þannig að bílhurðin lokaðist ekki. Vegna þess að þegar ég er komin inn í bíl þá ýtti hann á læsinguna sem læsir öllum hurðum og brunaði af stað. En af því að ég var með annan fótinn út fyrir hurðina þannig að hún læstist ekki þá gat ég hent mér út. Ég henti mér út úr bílnum.“
Mér þykir leitt að heyra að þú hafir lent í þessu.
„Já, og ég veit það, eftir að hafa horft mikið á sakamálaþætti í gegnum tíðina, að þetta er alveg 100% týpan sem hefði farið með mig eitthvert og hann hefði drepið mig.“
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að hlusta eða horfa á viðtalið í heild.