Léttist um 20 kíló með kraftlyftingum

Agnes Kristjónsdóttir léttist um 20 kíló.
Agnes Kristjónsdóttir léttist um 20 kíló. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Agnes Kristjónsdóttir, skrifstofustjóri hjá Remax Borg, söngkona og STOTT PILATES-kennari, léttist um 20 kíló með því að fara að æfa kraftlyftingar og taka mataræði sitt föstum tökum. Hún segist hafa byrjað að æfa kraftlyftingar undir stjórn Ingimundar Björgvinssonar því hana langaði að læra að lyfta og gera það rétt. 

„Mig langaði að freista þess að hrökkva í stuð og ná af mér aukakílóunum sem höfðu safnast saman á síðustu árum og rífa upp sjálfstraustið. Vinkona mín vissi af áhuga mínum en ég hafði fylgst með henni ná góðum árangri í lyftingum. Þegar pláss losnaði í hennar hópi hjá Ingimundi Björgvinssyni, styrktar-og kraftþjálfara í World Class úti á Seltjarnarnesi, fékk ég að koma og það er eitt það besta sem hefur komið fyrir mig. Ingimundur er þjálfari í sérflokki; það er allt svo vandað hjá honum; æfingarnar góðar og ekkert gefið eftir. Hann er sjálfur keppnismaður í kraftlyftingum; góð fyrirmynd, agaður, skemmtilegur og veit hvað hann syngur í þessu og öðru tengdu þjálfun og mataræði,“ segir Agnes sem byrjaði að taka á sínum stóra haustið 2012. 

„Ég byrjaði að æfa með vinkonu minni, Ingunni Gylfadóttur kennara og söngkonu, sem er uppáhaldsæfingafélaginn minn. Smátt og smátt fór ég svo að verða duglegri að mæta oftar,“ segir Agnes. Hún segir að það hafi skapast góð stemning í kringum æfingarnar og myndast hafi hópur vina og kunningja sem einnig æfa hjá Ingimundi og lyfta saman um helgar, fara í gufu eftir æfingar og heita pottinn. Oftar en ekki fer hópurinn á Gló á eftir að borða. „Svona eins og sumir sem eru í golfhópi þá erum við í lyftingahópi,“ segir hún og hlær. 

Í dag er Agnes komin í kjörþyngd enda búin að losa sig við 20 kílóa farangur. Hún segist aldrei hafa verið í jafngóðu formi og núna og hafi aldrei verið eins sterk. Til þess að ná hámarksárangri tók hún mataræðið mjög föstum tökum.  

„Þegar ég tók mataræðið alla leið og gerði allt eins og þjálfi sagði mér þá fóru hlutirnir að gerast. Ég hélt matardagbók í marga mánuði sem hann fór yfir, en var nú doldið að gleyma að skrifa sumt til að byrja með. Viðurkenndi það svo og hætti að ljúga með súkkulaðirúsínurnar og frönskurnar. Með því að skrifa allt í bókina fundum við til dæmis út að ég borðaði allt of sjaldan og allt of lítið fyrri part dagsins. Ég tók út allan sykur og ger og hætti að borða á kvöldin. Ég hef alltaf borðað mikið á Gló og verið meira og minna grænmetisæta frá tvítugu þannig að í grunninn var ég alltaf að borða hollt. En bara of mikið í einu, of sjaldan yfir daginn og allt of mikið af sætindum. Ég tók græna safann frá Gló með í dæmið frá upphafi en Solla vinkona mín á Gló mælti með honum í átakinu og ég er alveg háð honum. Það er eins og að hann slái á sykurlöngunina og er bara svo góður. Svo mætti ég alltaf í tímana hjá honum alveg sama hvernig ég var fyrirkölluð og gerði mitt besta. Fyrir utan tímana hjá Ingimundi mætti ég svo á milli til að brenna eða lyfta eftir hans ráðleggingum og hvíldi alltaf einn dag í viku. Ég tamdi mér nýja siði eins og að vera alltaf með hnetur og epli á mér og að vera með nesti og allskonar sem ég hafði ekki gert  áður,“ segir hún. 

Nú hefur þú verið í mikilli hreyfingu í gegnum árin bæði í dansi og sem leikfimiskennari, hvað var það í einkaþjálfuninni sem gerði það að verkum að þú náðir svona miklum árangri?

„Ég er í grunninn ekki sterk en mjög liðug og það voru mikil átök fyrir mig að lyfta minnstu þyngdum. Ég hef vitanlega verið að nota lóð í gegnum tíðina en hér er um miklu meiri þyngdir um að ræða og erfiðari æfingar. Ég rétt loftaði stönginni í bekkpressunni til að byrja með en það hefur heldur betur breyst. Fyrstu mánuðina var ég aðallega í styrktarþjálfun og að vinna með eigin þyngd. Í dag er ég í kraftþjálfun líka og geri þá réttstöðulyftur, hnébeygjur, bekkbressu, Good morning og Stiff og hvað þær nú heita þessar alvöru æfingar sem taka rosalega á og ég elska. Þetta gerist allt hægt og rólega og maður bætir sig smátt og smátt. En síðast en ekki síst þá gerðist það að ég var allt í einu tilbúin til að ganga alla leið. Mig langaði nógu mikið til þess að sjá þennan árangur til að hann yrði að veruleika. Það gerðist ekki alveg strax en eftir svona þrjá eða fjóra mánuði hrökk ég af stað. Sem líkamsræktarkennari í bráðum þrjátíu ár vissi ég auðvitað mjög margt varðandi mataræðið, hreyfingu og það allt en ég var bara ekki að fara eftir þessu með mataræðið. Minn tími var bara ekki kominn fyrr en þarna.“

Agnes segir að það hafi verið langerfiðast fyrir hana að hætta að borða á kvöldin.                                   

„Ég segi stundum að ég hafi farið svöng að sofa í nokkrar vikur, en svo vandi ég mig á að fá mér epli og hnetusmjör að narta í og þetta kom á endanum. Þetta var þrælerfitt til að byrja með, en þegar svo árangurinn fór að koma í ljós varð gleðin yfirsterkari sjálfsvorkuninni yfir að geta ekki dottið ofan í snakkpokann á kvöldin. Svo er gaman að vera núna komin í kjörþyngd og á góðan stað og geta leyft sér að fá sér súkkulaðikökusneiðina i saumó með bros á vör og lifað lífinu án þess að detta í neinar öfgar.“

Kom aldrei upp sú staða að þú værir við það að bugast? „Nei, ég ætlaði aldrei að gefast upp. Ég er rosalega þrjósk og fylgin mér þegar ég kemst á þann stað (tók bara tíu ár í þessu tilfelli) þannig að uppgjöf var ekki inni í myndinni. Ég var búin að láta mig dreyma svo oft um að taka á mínum málum að þegar ég var komin í gang tók ég þetta alla leið. Hugsaði mér mér hve gott væri að losna við óánægjuröddina inn í hausnum á mér og hve mikil lífsgæði það yrðu fyrir mig að vera í kjörþyngd, sterk og sátt. Sem er raunin. Mér fannst þetta líka svakalega skemmtilegt mjög fljótlega. Það er fjör á æfingum hjá okkur, mikið hlegið og fíflast inn á milli og ég hlakka til að mæta í hvert skipti - það er aldrei leiðinlegt. Það sem þessar æfingar hafa gert fyrir mig líka er að ég efldist andlega með hverri nýrri lóðaþyngd og svo uppgötvaði ég áður óþekktan metnað hjá minni. Ég hef aldrei verið hraustari og hef til dæmis ekki verið frá vinnu vegna veikinda síðan ég byrjaði.“

Hvernig hefur líf þitt breyst eftir að þú breyttir um lífsstíl?

„Ég er bara mátuleg og þannig  finnst mér best að vera. Það er vissulega gott að komast í öll föt og vera léttur á fæti og finna ekki fyrir verkjum í hnjám og slíku sem er jú fylgifiskur ofþyngdar. En aðallega er ég ánægð að vera andlega og líkamlega hraust og er ánægð að hafa náð þessum árangri. Ég finn fyrir þakklæti yfir að hafa rambað á svona flinkan þjálfara og að hafa eignast góða vini í kringum allt þetta og er ég er búin að finna minn stað í líkamsræktinni.  Heilsan er eitt það dýrmætasta og mér finnst ég vera í besta formi lífs míns. Að vera sátt í eigin skinni - það er það albesta.“ 

Agnes Kristjónsdóttir léttist um 20 kíló með því að hefja …
Agnes Kristjónsdóttir léttist um 20 kíló með því að hefja kraftlyftingaæfingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda