Komst niður í 116 kg en fitnaði aftur

Stefán Ásgrímur Sverrisson.
Stefán Ásgrímur Sverrisson.

Stefán Ásgrímur Sverrisson er 35 ára pökkunarmaður í Steinullarverksmiðjunni á Sauðárkróki. Hann er einn af þeim sem taka þátt í Biggest Loser Ísland tvö sem byrjar á SkjáEinum í janúar. Hann er 153,1 kg.

Hefur þú alltaf verið svona þungur? Ég hef alltaf verið í þyngri kantinum og leiðin legið upp á við síðan ég var 18 ára. Árið 2010 tók ég mig á og komst niður í 116 kg en það entist ekki.

Hefurðu fundið fyrir fordómum vegna þyngdar þinnar? Ég hef sennilega ekki fundið fyrir beinum fitufordómum enda ávallt fyrstur til að gera grín að sjálfum mér. En hef aftur á móti fundið fyrir miklum áhyggjum vina og vandamanna vegna þess ástands sem ég var kominn í.

Hvað var erfiðast í Biggest Loser-ferlinu? Erfiðast var að þurfa að horfast í augu við sjálfan sig og segja: þú ert feitur og veikur og þarft hjálp.

Hvað viltu segja við þá sem þrá að léttast en komast ekki úr sporunum? Leitið ykkur hjálpar. Það er hellingur af góðu fólki þarna úti sem vill hjálpa ykkur. Þetta er maraþon sem ekki er hægt að fara hjálparlaust. Takið til í mataræðinu og skiptið út, hægt og rólega, óhollustu fyrir hollustu. Byrjið að nota líkamann rólega. Ekki æða af stað með látum og springa svo. Fáið ykkur góðan þjálfara; þótt það sé dýrt borgar það sig. Og svo þegar þið hrasið og dettið, sem þið munið gera, þá standið upp aftur dustið af ykkur rykið og haldið áfram. Það er eðlilegt að hrasa en það er ekki eðlilegt að liggja eftir veinandi.

Hefur þyngdin gert það að verkum að þú hefur ekki látið drauma þína rætast? Já, þyngdin hefur haldið aftur af mér í mörgu. Maður var hættur að vilja taka þátt í flestu vegna þyngdarinnar.

Hvað myndir þú vilja vera þungur? Er ekki með ákveðna tölu í huga en setjum markið á 80-85 kg. Annars er það líkaminn sem ræður því, hann mun stoppa þar sem honum líður vel.

Hvað veitir þér mesta lífsfyllingu? Það besta sem ég veit er að horfa stoltur á börnin mín dafna og vaxa mér við hlið. Ég er að þessu til að vera viss um að geta fylgt þeim út í lífið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda