Hættu að segja „skíttmeðða“ og veldu rétt

Ágústa Johnson lumar á góðum ráðum.
Ágústa Johnson lumar á góðum ráðum.

„Er erfitt verk­efni að setja holl­ust­una í for­gang í okk­ar sam­fé­lagi? Það er ekki úr vegi að velta því fyr­ir sér því við eig­um jú okk­ar Norður­landa­met í syk­ur­neyslu og erum ein feit­asta þjóð í heimi,“ skrif­ar Ágústa John­son í sinn nýj­asta pist­il áður en hún gef­ur les­end­um góð ráð um hvernig má stand­ast freist­ing­ar.

„Flest­um finnst okk­ur gott að borða og allt í kring­um okk­ur alla daga er eitt­hvað mat­arkyns sem freist­ar okk­ar. Á næsta borði í vinn­unni er ein­hver að maula bland úr poka og á kaffi­stof­unni er rjóma­terta í boði af­mæl­is­barns dags­ins.  Í há­deg­inu þegar vinnu­fé­lag­arn­ir slá sam­an í risa­fötu af djúp­steikt­um kjúk­linga­bit­um, sit­ur þú e.t.v. með þín góðu áform um holl­ustu­líferni, og star­ir niður­dreg­inn á lit­ríka sal­atið þitt og finnst þú vera að missa af.“

„Kann­astu við þetta?  Sum­ir segja ein­fald­lega „skíttmeðða“ og ákveða að sukka með hinum en aðrir stand­ast freist­ing­una, byggja þannig upp sjálf­sag­ann og móta smám sam­an nýj­ar venj­ur sem skila þeim heil­brigðara lífi og betri líðan.“

„Lík­am­inn, þessi eini sem þarf að duga okk­ur allt lífið, er musterið okk­ar,  og okk­ur ber skylda til að hugsa vel um hann. Það er vinna að rækta hann eins og flestallt það sem skipt­ir máli í líf­inu.“

„Það er í eðli okk­ar mann­anna að sækja í sætt bragð ef það er í boði.  Og sann­ar­lega er það í boði!  Nokk­urn veg­inn hvar sem þú kem­ur get­urðu fljót­lega og auðveld­lega nálg­ast eitt­hvað sætt í munn­inn.  Lát­ir þú eft­ir þér dag­lega súkkulaði, bland í poka og annað sæl­gæti, snakk, ís, gos­drykki og/​eða lé­legt skyndi­bita­fæði má segja að lík­am­inn þinn sé svo­lítið eins og rusla­tunna. Inni­hald þess­ar­ar fæðu er ekk­ert annað en nær­ing­arsnautt rusl sem lík­ami þinn þarf alls ekki á að halda.“

En hvernig stenst maður freist­ing­arn­ar? 

1. Til­tekt

„Fyrsta skrefið er að taka til í hausn­um á sér því þar eru jú all­ar ákv­arðanir tekn­ar.  Málið snýst um að velja það rétta, það sem er þér fyr­ir bestu.  Þú get­ur ef þú vilt, staðist freist­ing­arn­ar og upp­skorið heil­brigðari lífs­stíl, bætta líðan og betra út­lit.  Alla daga, oft á dag, tek­urðu meðvitaða, eða ómeðvitaða ákvörðun um allt milli him­ins og jarðar og margt sem hef­ur áhrif á líf þitt og líðan. Tek­urðu stig­ann eða lyft­una, hvað vel­urðu í inn­kaupa­körf­una? Er alltaf eitt­hvað sætt með kaff­inu?  Reyk eða reyk­laus? Hreyf­irðu þig eða ertu sófa­dýr? Læt­urðu eft­ir þér allt sem þig lang­ar í eða vel­urðu og hafn­ar með heils­una í for­gangi?“

2. Vatn er mik­il­vægt

„Góð leið til að hafa stjórn á mataræðinu er að koma þér ekki í þá stöðu að hungrið taki yfir stjórn­ina.  Drekktu vatn reglu­lega yfir dag­inn til að halda vatns­bú­skapn­um í góðu jafn­vægi, það skipt­ir máli því þorsti veld­ur því gjarn­an að við leit­um í mat.  Til­valið er að blanda ávöxt­um í vatnið til að fá bragð,“ skrif­ar Ágústa sem mæl­ir einnig með jurta­tei.

3. Not­arðu mat sem hugg­un eða slök­un?

„Þegar þú finn­ur löng­un í mat hell­ast yfir þig skaltu áður en þú set­ur eitt­hvað upp í þig, átta þig á hvernig þér líður. Streita og áhyggj­ur leiða oft á tíðum til þess að okk­ur lang­ar í ein­hvers­kon­ar „hugg­un­ar­mat“. Hugg­un­ar­mat­ur er sú fæða, oft­ast sæt eða sölt, sem er í upp­á­haldi hjá þér. Um leið og þú sekk­ur tönn­un­um í rjóma­tertusneiðina, súkkulaðikök­una, kart­öflu­f­lög­urn­ar eða hvern þann mat sem kall­ar fram þessi streitu­los­andi áhrif þá slakn­ar á streit­unni og þér líður bet­ur... en aðeins rétt á meðan í þær ör­fáu mín­út­ur sem tek­ur að tyggja og kyngja súkkulaðibita­kök­unni og streit­an bíður þín á ný.  Þú þarft að fjar­lægja þig frá aðstæðunum sem valda streit­unni, fara frá í smá tíma og hreinsa hug­ann.“

4. Hvað vilt þú?

„Aft­ur kom­um við að kjarna máls­ins sem er stjórn á aðstæðum.  Ef við gef­um okk­ur tíma til að staldra við og hugsa, vil ég setja þessa fæðu í munn­inn, er það hollt fyr­ir mig, sam­ræm­ist það mín­um heil­su­mark­miðum?  Vil ég frek­ar hinkra aðeins, velja annað sem gef­ur nær­ingu, víta­mín, holl­ustu og vellíðan?“

„Þegar allt kem­ur til alls þá er það staðreynd að okk­ar er valið alla daga oft á dag.  Ef við vilj­um gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til að stuðla að góðri heilsu og hraust­um lík­ama velj­um við rétt.  Gott er að hafa í huga 80/​20 regl­una.  Ef við fóðrum skrokk­inn í 80% til­vika með fjöl­breyttri nær­ing­ar­ríkri fæðu sem er óunn­in, ætti að vera í góðu lagi ef hin 20% falli út fyr­ir þau viðmið.“

„Þetta er ein­fald­lega und­ir okk­ur sjálf­um komið hvort við erum eins og gang­andi rusla­fata með öll­um þeim nei­kvæðu af­leiðing­um sem því fylg­ir eða hvort við vönd­um valið okk­ur sjálf­um til allra heilla.  Mundu...ÞITT ER VALIÐ!“

Hafðu stjórn á mataræðinu með því að drekka nóg vatn.
Hafðu stjórn á mataræðinu með því að drekka nóg vatn. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda