Þyngdist um 30 kg á sex árum

Gunnar Lárus Hjálmarsson fyrir og eftir. Myndin til vinstri er …
Gunnar Lárus Hjálmarsson fyrir og eftir. Myndin til vinstri er tekin fyrir 6 árum en hin var tekin á dögunum.

Einn skemmtilegasti maður landsins, Gunnar Lárus Hjálmarsson eða Dr. Gunni eins og hann er kallaður henti í einn grjótharðan status á facebook á dögunum sem hljómaði svona:

Montstatus. 30 kíló á 6 árum. Hvernig: Ofát, kvöldnasl. Hvað fæ ég mörg læk?

Þegar ég hafði samband við Dr. Gunna var hann nú ekki á því að ræða þetta opinberlega en eftir að hafa suðað nokkuð lengi í honum lét hann til leiðast. Þegar Dr. Gunni var sem léttastur fyrir sex árum hafði hann verið í miklu aðhaldi, æft að kappi og borðað töluvert minna en venjulega. Þegar ég spyr hann út í þetta játar hann að hann hafi haft töluvert fyrir því að losna við þessi 30 kg.

„Ég var jú búinn að vera að saxa af mér þessi 30 kíló með því að hlaupa upp á fjöll, mæta eins og andsetinn í spinning og reyna að hemja mig í átinu. Vigtaði mig reglulega, skráði í Almanak Háskólans og verðlaunaði mig með ís og sérinnfluttum rótarbjór. Það tók svona 2 ár að ná af sér 30 kg,“ segir Dr. Gunni.

Þessi mynd var tekin af Dr. Gunna fyrir þremur árum.
Þessi mynd var tekin af Dr. Gunna fyrir þremur árum. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Aðspurður að því hvað hafi valdið því að hann hafi ákveðið að létta sig segir hann að sjokkið hafi komið í Hagkaup þarna fyrir átta árum.

„Sparkið í rassinn var þegar ég fékk ekkert á mig í Hagkaupum og þurfti að fara í einhverja fitubollubúð í Smáranum. Það var dropinn sem fyllti mælinn. Að fara í fitubollubúðina, ekki í Smárann sem sé.“

Hvernig hefur mataræði þitt breyst á síðustu sex árum?

„Það hefur ekkert breyst, þannig. Ég borða bara meira!“

Hvað ertu búinn að vera að borða sem þú borðaðir ekki á þessum tíma fyrir sex árum?

„Ekki neitt, kannski matarrjóma í kaffið. Það er bara svo helvíti gott!“

Skiptir líkamsþyngd einhverju máli?

„Nei, allavega ekki ef það skiptir sig sjálfan engu máli. Það er fátt leiðinlegra en að vera með þetta á heilanum, eins og mér sýnist meirihluti nútímafólks vera. Endalausir kúrar og kjaftæði þegar málið er svo einfalt: Hreyfa sig og éta minna. Ef þú nennir.“

Líður þér eitthvað öðruvísi hvort sem þú ert 30 kg þyngri eða léttari?

„Nei hvorki líkamlega né andlega. Fúlast er að það er ekki allt til í XL eða XXL sem manni langar að í.“

Dr. Gunni fyrir tveimur árum.
Dr. Gunni fyrir tveimur árum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Ertu eitthvað að æfa núna?

„Nei ég sagði upp í World Class þegar ég fór í fasta vinnu í Fjallakofanum nú í vor. Áður réði ég tíma mínum sjálfur. En ég hef verið að ganga á fjöll og svo hjóla ég í vinnuna og stend þar meirihluta dagsins og þeysist um búðina. Ákveðin líkamsrækt í því.“

Hvað hefur þú lært af þessu ferli?

„Að það er mikið mál að létta sig en ekkert mál að þyngjast!“

Ætlar þú að gera einhverjar breytingar eða ertu að hugsa um að þyngjast um önnur 30 kg næstu sex árin?

„Nei, ég hef nú engan áhuga á 30 kg í viðbót! Maður bara heldur sínum dampi, reynir kannski að éta minna á kvöldin og svona. Ég nenni allavega ekki á fleiri kúra og að fylgja einhverju matarræði. Allir springa á svoleiðis kjaftæði,“ segir Dr. Gunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda