Æskubrunnur eða nýtt æði? Pistill nr. 2

Lára G. Sigurðardóttir læknir.
Lára G. Sigurðardóttir læknir.

„Hefur þú smakkað fiskihlaup - þetta sem var vinsælt á veisluborðum áttunda áratugsins? Þá varstu mögulega að borða kollagen óafvitandi því hlaupið sem heldur réttinum saman og kallast venjulega matarlím eða gelatín er unnið úr kollageni. Orðið kollagen (e. collagen) er tekið úr grísku þar sem kolla þýðir lím og viðskeytið -gen þýðir afurð og vísar til þess að áður fyrr var lím búið til með því að sjóða húð, sinar og bein af spendýrum. Matarlím eins og við þekkjum það er m.a. vinsælt í sultugerð og ísframleiðslu en sykur sem er búið að bæta í margar af þessum vörum gerir þær slæmar fyrir húðina. Kollagen leynist því víða og ef til vill hugsar maður sig tvisvar um áður en maður sniðgengur næst fiskihlaupið á veisluborðinu,“ segir Lára G. Sigurðardóttir læknir í sínum nýjasta pistli

Það sem heldur þér saman

Í þessu samhengi er því oft talað um kollagen sem lím líkamans en mér finnst betra að hugsa um kollagen sem eitt af byggingarefnum líkamans. Líkt og við getum notað timbur til að byggja hús þá notar líkaminn kollagen til að byggja t.d. æðar, þarma, lungu, bein, brjósk, sinar, liðbönd og að sjálfsögðu húðina okkar. Við getum venjulega valið mismunandir viðartegundir og það sama gildir um kollagen. Líkaminn notar mest kollagen I sem finnst í sinum, beinum, æðum og húð. Aðrar algengar tegundir eru kollagen II í brjóski, kollagen III í fituvef og öðrum bandvef, kollagen IV í ysta lagi húðarinnar (e. basal lamina) og kollagen V í hári og fylgju. Kollagen getur einnig tengst öðrum efnum í líkamanum og fær þannig sérstaka eiginleika. Til dæmis binst kollagen við kalsíum í beinum sem gerir þau hörð en jafnframt nægilega sveigjanleg til að þola mikið álag. Ef við segjum að húðin sé eins og þriggja hæða hús þar sem risið er yfirhúð, miðhæðin leðurhúð og jarðhæðin undirhúð, þá er kollagen m.a. stillansarnir á miðhæðinni og undirstaðan sem heldur uppi gólfinu á risinu. Kollagen er þannig meginuppistaða húðarinnar og ef við þurrkum húðina eins og harðfisk þá vegur kollagen um 75% af þyngd hennar.

Kollagen er þannig mikilvægt prótein, ekki bara vegna þess að það er um 30% af öllum próteinum í líkamanum, heldur af því að það gefur okkur mikinn styrk og burðarþol. Ef það færi í sjómann við stál þá myndi kollagen bera sigur - það er sterkara en stál!

Er kollagen fæðubótarefni þá bara matarlím?

Það sem að ofan er ritað er svolítil einföldun því heil kollagenprótein ættu enga von um að komast óhindrað úr dýraafurðum, gegnum meltingarveginn og inn í kroppinn okkar. Þarmarnir geta t.d. ekki flutt svona stór prótein inn í blóðrásina.

Kollagenfæðubótarefni er oftast framleitt úr fæðu sem var áður hent því við borðum venjulega lítið eða ekkert af henni, t.d. húð, beinum og brjóski af svínum eða nautum. Einnig er vinsælt að framleiða kollagen úr fiskroði. Þar sem þessar afurðir geta verið svampar fyrir málma og önnur efni sem við viljum forðast er mikilvægt að vita hvaðan þær koma og að velja vörur frá framleiðslufyrirtækjum sem hafa gæðavottun.

Þegar þessar afurðir eru hitaðar í vatni brotnar kollagenið niður í smærri einingar sem synda út í vatnið og kallast þá matarlím eða gelatín. 

Þá er bara hálf sagan sögð. Til að framleiða kollagen í fæðubótarefni er gelatín leyst upp í enn smærri einingar með svokölluðu vatnsrofi (e. hydrolized) þannig að nú hanga saman tvær eða þrjár aminósýrur. Til að setja það í samhengi þá þarf um 3.000 aminósýrur til að framleiða eitt kollagenprótein. Það sem okkur er selt sem kollagen er því í raun ekki kollagenprótein heldur lítil peptíð sem eitt sinn voru kollagenprótein. Það sem er jákvætt við að fá kollagenið í þessum litlu einingum er að kroppurinn okkar á auðveldara aðgengi að þeim.

Þegar við kyngjum kollageni ferðast þessi litlu peptíð úr görninni í blóðið og þaðan í húðina, liðina og víðar (samkvæmt dýrarannsóknum). Sumir halda því fram að kollagen úr fiski eigi greiðari leið inn í líkamann því þau eru smærri en úr nautum eða svínum. En hvað gera þessi kollagen peptíð í húðinni? Nú eru vísbendingar um að þau geti ýtt við smiðunum (frumunum) í húsinu (húðinni) sem fara að byggja meira kollagen. Í næsta pistli ætla ég að tala um af hverju smiðirnir þreytast með aldrinum og verkfærið sem þeir þurfa til þess að byggja kollagen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda