Þótt flestar líkamsræktarstöðvar séu opnar meðan á samkomubanni stendur eru ekki allir sem vilja stíga inn í ræktina á tímum veirunnar. Það þarf þó ekki að láta veiruna stoppa sig í að hreyfa sig.
Áhrifavaldurinn og nýútskrifaði einkaþjálfarinn Sunneva Eir Einarsdóttir er dugleg að deila æfingum með fylgjendum sínum á Instagram. Í gær deildi Sunneva þessari heimaæfingu með fylgjendum sínum en til þess að taka æfinguna þarf að eiga eitt stykki ketilbjöllu.
Ketilbjöllur og lóð hafa selst í bílförmum hér á Íslandi síðastliðna viku svo kannski áttu eina slíka á heimilinu.
Í æfingu Sunnevu er að finna ketilbjöllusveiflur, mjaðmalyftur og réttstöðulyftur auk æfinga með eigin líkamsþyngd. Flestar æfingarnar er einnig hægt að finna á YouTube en mikilvægt er að bera sig rétt að til að forðast meiðsli.
Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.