„Feitt fólk skortir sjálfsstjórn“

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„„Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig. Þú hefur svo mikinn sjálfsaga í vinnu, ert svo öguð og nærð svo miklum árangri þar.“ Þetta sagði vinnufélagi minn við mig í spjalli okkar á milli fyrir mörgum árum. Ég man ekki alveg um hvað við vorum að ræða en þar sem hann er bæði kurteis og dagfarsprúður grunar mig að þetta hafi komið í kjölfarið á einhverju sem ég sagði, svo sem: „Það er alveg sama hvað ég geri, ég get ekki að grennt mig.“

Þessi athugasemd hans snerti við sálartetrið. Ég vissi alveg upp á mig skömmina. Hvers vegna get ég ekki grennt mig? Það er ekki eins og þetta sé eitthvað flókið. Þú borðar minna en þú þarft og hreyfir þig meira. Basic, kalóríur inn og út og málið er dautt,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli á Smartlandi: 

Þetta er svona svipað og segja við alkólista. Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki hætt að drekka. Þetta er svo einfalt. Þú hættir að kaupa áfengi. Þú hendir öllu áfengi sem þú átt og opnar aldrei aftur flösku og málið er dautt. Basic. Ekkert áfengi = ekkert vandamál. Í dag vita flestir að það þarf meira til að geta hætt að drekka og það þarf oft mikla hjálp. Hins vegar þegar kemur að því að ná tökum á þyngdinni þá er þetta ennþá oft viðhorfið. Þú hefur engan sjálfsaga og ert bara löt.

Auðvelt að létta sig

Ég vissi að það var auðvelt að grenna sig vegna þess að ég las endalausar greinar um fólk sem hætti að drekka gos og borða nammi. Það borðaði aðeins meira grænmeti og á nokkrum mánuðum var það búið að missa 50 kíló. Ég varð alltaf pínu þunglynd þegar ég las svona greinar og brotnaði aðeins inn í mér því ég hugsaði alltaf. „Ef þetta er svona lítið mál, hvers vegna get ég ekki létt mig?“ Hvaða andskotans aumingjaskapur var þetta? Það var ekki eins og ég vissi ekki að ég þyrfti að taka mig á. Ég vissi að ég væri orðin 10 kílóum of þung. Svo vissi ég að væri 20 kílóum of þung, svo 30 kílóum og loks 35 kílóum. Þá var ég 5 kílóum frá því að vera 100 kíló og fékk loksins hvatann til að létta mig þegar ég hitti David Goggins og hann spurði hvaða ævisögu við værum að skrifa.

Ég hafði oft létt mig eitthvað með allskonar tilraunastarfssemi. Það dugði aldrei til lengdar því ég var aldrei búin að finna lífstíl sem hentaði mér til lengdar. Ég fann einhverja tímabundna lausn sem ég var ekki tilbúin að hafa út ævina. Mín skoðun er sú að ef þú finnur ekki eitthvað sem þú getur gert út ævina, þá nærðu aldrei langtímaárangri. Ef þú ert tilbúin að vigta matinn út ævina þá virkar það fyrir þig. Líka ef þú ert tilbúin að drekka shake í kvöldmat út ævina þá virkar það líka. En ef þú ert eins og ég þá er þetta alltaf tímabundin lausn og gallinn við tímabundnar lausnir er að þær taka enda og mín reynsla var að ég var alltaf miklu fljótari að bæta á mig þessum kílóum sem fóru heldur en að missa þau og ekki nóg með það, þau komu alltaf með vini sína með sér. Mín kíló eru nefninlega félagsverur og vita ekkert skemmtilegra en að eignast fleiri vini. Þannig að eftir hvern einasta kúr þá endaði ég alltaf þyngri en áður en ég byrjaði. Öll vinnan og fórnirnar urðu til einskis. Ég var ekki fyrr búin að sjá að ég var byrjuð að þyngjast en það kom enn ein greinin um einhvern sem fór út að ganga og borðaði aðeins meira grænmeti og komst í kjörþyngd á korteri. Það hefur ekki góð áhrif á sálartertrið, ég get vottað það.

Stundum fékk ég líka ábendingu á svona grein. Það var tvöfaldur bömmer. Ekki bara gat ég ekki grennt mig heldur fannst öðrum nauðsynlegt að benda mér á hversu auðvelt þetta er. Hann Siggi tók út brauð og nammi og léttist um 10 kíló á einum mánuði. Basic, bara að passa kalóríur inn og út og hreyfa sig meira. Afhverju ertu ekki með meiri sjálfsaga? Hvers vegna getur þú ekki létt þig?

Ég man hinsvegar aldrei eftir að hafa lesið eftirfylgni grein. Hvernig gekk þessu fólki þremur árum seinna og hvað gerði það í raun og veru? Ég held nefnilega að það missi enginn 50 kíló á einu ári nema með gífurlegri vinnu, gífurlegum fórnum og mikilli sjálfsvinnu. Þetta snýst ekki eingöngu um kalóríur inn og út og hreyfa sig meira en þú borðar.

Fyrsta árið sem ég byrjaði þá gekk allt fáránlega vel. Ég léttist jafnt og þétt og það kom mér á óvart hvað ég átti auðvelt með að breyta um mataræði. Ég fór að bæta við mismunandi hreyfingu og í fyrsta skipti á ævinni fannst mér gaman að hlaupa. Ég gat hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu og á 18 mánuðum var ég búin að missa 25 kíló. Þetta voru engin 50 kíló á nokkrum mánuðum en þetta gerðist jafnt og þétt.

Er hægt að borða of lítið?

Síðasta vor gerðist svo hið óhugsandi. Ég hélt áfram að hreyfa mig mikið og borða svipað en allt í einu hætti vigtin að fara niður og fötin hættu að víkka. Ekki bara hættu þau að víkka, þau fóru aðeins að þrengjast og vigtin varð eins og íslenska krónan á gjaldeyrismarkaði. Í dag fór hún upp, á morgun fór hún niður og ég vissi aldrei alveg hvað olli. Var ég að borða eitthvað vitlaust, ætti ég að borða meira eða minna og öðruvísi. Það er mjög þreytandi að reyna að finna lausnina en vera alveg strand. Það var alveg sama hvað ég gerði, ekkert virkaði almennilega og þetta urðu meira tímabundnar lausnir, fálmað í myrkrinu. Ég fór að sjá oftar og oftar hærri tölu en lægri tölu. Ég skildi núna betur hvers vegna það eru engin eftirfylgniviðtöl við þá sem ná gífurlega góðum árangri. Kannski er óraunhæft að ná langtímaárangri. Kannski er alveg sama hvað þú gerir, þú getur ekki lagað þig til langtíma. Fólk sagði mér að hafa ekki áhyggjur. Vöðvar eru þyngri en fita, hættu að pæla í vigtinni. Þú ert í massaformi og lítur svakalega vel út miðað við aldur. Ég prófaði að borða minna, það virkaði ekki. Ég æfði meira, það virkaði ekki heldur. Það var alveg sama hvað ég gerði. Ekkert virkaði til lengri tíma.

Ég ákvað að trakka allt sem ég borðaði í MyFitnessPal. Þú veist, basic, borða færri kalóríur en þú brennir og ef þú vilt borða meira þá brenna meira. Þegar ég byrjaði á minni lífsstílsbreytingu þá skráði ég ekkert niður hvað ég borðaði. Ég tók út hveiti, sykur og mjólkurvörur til að byrja með en svo fór ég að leyfa mér allt í hófi. Það skrýtna við það er að þó að ég skráði niður hverja kalóríu þá gekk mér ekkert betur að léttast. Ég varð hins vegar gífurlega meðvituð um hvað ég borðaði margar kalóríur og stundum borðaði ég lítinn kvöldmat af því að ég var að verða búin með kvótann og stundum borðaði ég ríflegan eftirrétt afþví að ég var búin að æfa svo mikið yfir daginn. Það er allt í lagi, það verður að leyfa svo stundum. Ég man hins vegar að alltaf þegar ég fór yfir 2.000 kalóríur í Myfitnesspal fékk ég smá hjartsláttartruflanir. Þetta var svo innprentað í mig að borða ekki yfir 2.000 kalóríur. Það eru stillingar í MyFitnessPal hvað þú mátt borða margar kalóríur ef þú vilt léttast um X kíló. Ég ákvað að setja upp plan að léttast um eitt kíló á mánuði væri hóflegt.

MyFitnessPal sagði að ég ætti að borða 1.580 kalóríur og bæta við brennslu á æfingum dagsins og þá átti ég að fá út hvað ég mátti borða margar kalóríur á dag. Það var alveg sama hvað ég æfði mikið, mér fannst erfitt að borða yfir 2.000 kalóríur. Samt segir viðmiðið að konur á mínum aldri eigi að borða í kringum 2.200 kalóríur. Sumum fannst galið að ég vildi missa tíu kíló í viðbót. Ásdís mín ertu ekki orðin nógu mjó? Hvað ætlar þú eiginlega að verða grönn? Það er ekki fallegt fyrir konur á þínum aldri að verða of grönn. Þú verður að passa þig að verða ekki of þetta og of hitt. Alltaf krúttlegt þegar fólk hefur innantómar áhyggjur af minni heilsu. Fæstir vissu hvað ég var þung eða hvað ég var há og enginn hefði getað sagt mér hver mín kjörþyngd ætti að vera. Ég veit það ekki einu sinni sjálf þar sem ég hef aldrei verið grönn og í mjög góðu formi. Ég hef verið mjög grönn en aldrei í mjög góðu formi.

Þegar ég fór í mælinguna hjá Greenfit kom í ljós að ég átti að borða tæplega 2.100 kalóríur þegar ég var ekki að æfa og tæplega 2.600 þegar ég er að æfa. Ég var sem sagt búin að borða ca 500 kalóríum of lítið í heilt ár. Ekki skrýtið þó að það væri allt stopp. Líkaminn var bara í áfalli og hékk á öllu sem kom inn og neitaði að gefa neitt eftir.

Æfa hægar og betur

Í álagsprófinu hjá Greenfit kom líka í ljós að ég var að æfa á of miklu álagi. Hvernig er það nú hægt, það er nú ekki eins og ég sé einhver Speedy Gonzales? Mín fitubrennsla liggur í kringum æfingapúls 130-140. Þegar ég byrjaði að æfa þá var ég í svo lélegu formi að ég var aldrei að fara mjög hratt þannig að ég gerði allt rétt alveg óvart. Ég borðaði hreint fæði og ég æfði á lágum púls. Svo þegar ég fór að komast í betra form þá fór ég að æfa af meiri ákefð því ég var sannfærð að ég myndi ná meiri árangri því meiri ákefð væri í gangi. Það var ekki fyrr en ég pantaði mér ástandsskoðunina hjá Greenfit að ég fékk vísindalegar upplýsingar um hvað væri best fyrir mig að gera.

Það er erfitt að hlaupa hægt en næstu mánuði ætla ég samt að hlaupa hægt. Ég ætla að borða hreint og sjá hverju það skilar. Ef mig langar í Nóakropp (nei þetta er ekki keypt auglýsing) þá mun ég fá mér Nóakropp. Ég veit að það er stöðug vinna að halda mér á réttu striki. Þetta er ekki eins og að skrá sig í Viðskiptafræði og útskrifast sem Viðskiptafræðingur. Allt í einu er gráðan komin. Ég veit að þetta er eilífðarverkefni en ég nýt þess að sinna því. Ég veit að ég má ekki slaka á og fara í gamla gírinn. Í hvert skipti sem ég vel að borða eitthvað sem er vont fyrir mig þá borga ég daginn eftir með hærri tölu á vigtinni eða þrútnum liðum. Það þýðir ekki að ég muni lifa meinlætalífi út ævina. Ég kýs að lifa heilbrigðu lífi og ef mig langar í Nóakropp þá mun ég láta það eftir mér. Ég veit hins vegar að ef ég borða poka af Nóakroppi á hverjum degi þá mun fer ég aftur í gamla farið á núll einni. Þetta er allt val sem við höfum.

Það er dásamlegt að vera laus við helgarbömmerinn. Þú passaðir þig alla vikuna. Borðaðir í raun allt rétt og hreyfðir þig. Svo kom helgin og þá má nú alveg tríta sig smá. Ég gæti ekki verið meira sammála þarna. En hvað þýðir að tríta sig má. Er það smá eða er þetta öll helgin sem liggur undir? Ég er persónulega hrifnari af því að vera ekki með nammidag heldur leyfa sér smá stundum en ekki skilyrða það helgar þar sem hjá mér þá missti ég stundum tökin. Fyrst að ég ætlaði að sjukka um helgina hvers vegna þá ekki að leyfa sér allt sem þú bannaðir þér í vikunni.

Fyrir mánuði síðan byrjaði ég að borða Clean í samráði við Greenfit. Það kom mér á óvart hvað mér fannst auðvelt að breyta um mataræði. Ég tel að ég sé ansi heppin. Ég fór í blóðprufur og ákveðin gildi s.s. blóðsykur og blóðfita komu mjög illa út. Ég þekki muninn á núverandi lífsgæðum og þeim sem ég hafði fyrir 3 árum. Ég get ekki hugsað mér að fara aftur til baka þannig að þá var þetta eina leiðin. Maturinn sem ég er að borða er gífurlega fjölbreyttur, bragðgóður og fallegur. Mitt markmið er að lækka þessi gildi. Ég hugsaði að sem aukabónus gæti verið gaman að sjá vigtina fara niður. Setti niður sem draumatölu að fara úr 75.5 kg í 73.5 og ef þetta gengi vel þá gæti ég mögulega verið komin í 70,0 kg. um áramótin. Fannst það samt ekki raunhæft því mín kíló eru félagsverur og yfirgefa mig ekki svo glatt. Eftir mánuð á Clean sýndi vigtin 71,2 kg. Ég hef aldrei misst svona mörg kíló á einum mánuði. Ekki einu sinni þegar ég var 95 kg. Þetta segir mér að það var kominn tími á innri hreinsun.

Vigtir eru verkfæri Satans

Kunningakona mín sem býr í Bandaríkjunum setti inn smá örvæntingarpóst um daginn sem ég tengdi vel við. Hún var búin að vera dugleg að æfa og vigtin haggaðist ekki neitt. Hún var búin að fá nóg. Hún tekur svona tarnir og gerir eitt og annað stundum í mislangan tíma. Hún fékk gífurlega mikið af góðum ráðum og peppi við þennan póst. Það sem mér fannst áhugaverðast er að engin af þeim sem voru að ráðleggja henni um hennar líf og heilsu hefur einhverja þekkingu á þessu sviði. Ég ákvað að taka saman kommentin og það kemur kannski ekki á óvart að Hentu F... vigtinni og vöðvar eru þyngri en fita standa upp úr. Ef ég ætti þúsund kall fyrir hvert skipti sem ég heyrði þessar setningar þá væri ég sest í helgan stein í dag og lifði af vöxtunum. Það er gott að hafa í huga að það er ábyrgðarlaust að henda fram innantómum frösum ef þú hefur ekki lausnina. Það voru 3 sem spurðu hvað hún væri að borða. Öðrum fannst frábært hvað hún væri dugleg og væri pottþétt að gera allt rétt.

Hentu vigtinni

24

Vöðvar eru þyngri en fita

24

Ég tengi

17

Ertu búin að prófa þennan kúr?

9

Þyngd er ekki allt, ummálið skiptir líka máli

7

Þú lítur vel út, þú hlýtur að vera að gera eitthvað rétt

4

Borðaðu hreinna fæði

3

Fáðu blóðprufur

2

Borðaðu færri kalóríur

1

Ekki gefast upp

1

Minnkaðu stressið

1

Vigtin er verkfæri Satans

1

Samtals

94

Þegar fólk segir þér að þú ert örugglega að gera allt rétt, að vöðvar séu þyngri en fita, að þú sért svo dugleg er verið að gefa þér frítt spjald. Það er verið að gefa þér leið út. Þú þarft ekki að leggja svona mikið á þig. Það er óþarfi að leyfa sér ekkert. Þú ert duglegri en flestir. Þú borðar örugglega allt rétt. Þetta er aldurinn. Þetta er svo miklu erfiðara þegar þú eldist. Eftir því sem við eldumst þá byrjar heilsunni að hraka, það er eðlilegt og óþarfi að fárast of mikið yfir því. Það spá hins vegar fæstir í mataræðið. Hvað þú ert að borða. Hentar mataræðið þitt þér? Ég held að við séum öll mismunandi. Það sem hentar mér er kannski vont fyrir þig og öfugt. Að einhverju leiti er þetta genatískt en þetta er held ég flóknara en svo. Þetta snýst um að finna leiðina hvað er best fyrir þig. Ég finn að þegar ég borða hreint þá líður mér betur og ég er í betra jafnvægi. Ég borða meira og er aldrei aðframkomin af hungri. Ég þarf ekki að narta á kvöldin. Ég þarf ekki að telja kalóríur. Með því að borða hreint get ég svo prófað að bæta við mat og fundið hvað fer illa í mig og hvað vel. Ég losna við að giska hvað ég á að borða. Ég borða nokkuð hollt, það er bara eitthvað sem ég borða sem hentar mér verr en annað og ég þarf að finna útúr því hvað það er.

Greenfit segir þetta svo vel. Normal er ekki optimal. Með aðstoð Greenfit ætla ég að besta heilsuna mína. Ég á bara einn líkama og eitt líf og ég lít á það sem skyldu mína að líta eins vel eftir honum og ég get.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram:

 

View this post on Instagram

Ég fæ mikið af spurningum hvort það sé ekki mikið mál að borða hreint fæði og hvort það sé ekki leiðinlegt til lengdar. Til að koma í veg fyrir einhæfan mat þá geri ég vikulegan matseðil. Til að spara tíma þá nota ég yfirleitt afgang frá kvöldmatnum í hádegismat daginn eftir. Mér finnst skemmtilegast að borða fallegan og litríkan mat þannig að ég nota mikið ber og hnetur. Svo er ég nýbúin að uppgvöta spírurnar frá @vaxa_iceland og toppa öll salöt með þeim í dag. Er að hugsa um að skella inn mínum matseðlum og uppskriftum á vef fyrir aðra að nýta sér. Myndir þú hafa áhuga á því? #miðaldrakonan #afþvíéggetþað #baraeittlif

A post shared by Ásdís Ósk Valsdóttir (@asdisoskvals) on Sep 28, 2020 at 5:27am PDT

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda