Miklu léttari á sér núna en síðast

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Hvað er málið með það? Er ekki nóg að taka þessa Landvætti einu sinni?, jú fyrir flesta. Ég á reyndar vini sem hafa tekið Landvættina 4-5 sinnum en flestir gera þetta einu sinni. Ég skráði mig í Landvættina 2018 og markmiðið var skýrt. Klára Landvættina 2019 og finna mér svo kærasta. Einfalt og þægilegt. Eins og mörg frábær plön þá gekk þetta plan ekki alveg upp og viku fyrir aðra þrautina sem er 60 km fjallahjólakeppni kennd við Bláalónið datt ég á hjóli, lenti í gifsi og gat því ekki tekið þátt í Bláalónsþrautinni. Ég sleppti svo sundinu þar sem sundið var mín langversta grein og þegar ég losnaði við gifsið þá var komin smá villisundsótti í mig og ég hreinlega treysti mér ekki í sundið. Mér fannst líka að ég gæti alveg eins tekið sundið og fjallahjólið 2020. Skipti kannski ekki öllu máli hvort að ég myndi klára Landvættina í Bláalónsþrautinni eða Urriðavatnssundinu. Ég sá líka einn stóran kost við að klára Urriðavatnið seinast. Ég myndi fá heilt ár í viðbót til að æfa mig og okkar á milli þá veitti mér ekkert af því. Sund hefur alltaf verið mitt akkilesarhæll og ég var ennþá að leita að sundgleðinni þegar þarna var komið við sögu,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Planið endurskrifað

Ég ákvað því að endurskrifa planið. Þegar ég skráði mig í Landvættina vissi ég að ég þyrfti að setja  allan fókus á æfingar fyrir Landvættina þar sem það eina sem ég kunni þegar ég skráði mig var að hlaupa. Ég hafði hlaupið einu sinni 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu en annað var óskrifað blað. Ég skráði mig í Fossavatnsgönguna sem er 50 km gönguskíðakeppni án þess að hafa nokkurn tímann stigið á gönguskíði. Ég skráði mig í Bláalónskeppnina sem er 60 km fjallahjólakeppni án þess svo mikið sem hafa séð fjallahjól og það voru svona ca 20 ár síðan ég hafði síðast farið út að hjóla. Ég skráði mig í Urriðavatnssundið sem er 2.5 km villisund án þess að kunna skriðsund og geta að hámarki synt ca 1.000 metra bringusund á góðum degi og ég skráði mig í Jökulsárhlaupið sem er 33 km utanvegahlaup þegar ég átti ekki einu sinni utanvegaskó hvað þá að hafa hlaupið einhvern tímann utanvegahlaup.

Masterplanið var sem sagt að klára Landvættina og finna mér svo kærasta. Ég var búin að vera einhleyp í nokkur ár og búin að nýta tímann í að finna sjálfa mig og vinna í sjálfri mér. Þegar ég datt út úr Bláalóninu sá ég strax að ég myndi ekki klára Landvættina fyrr en 2020 og mér fannst það fulllangur tími til að setja kærastamálin á ís. Ég ákvað því að finna mér fyrst kærasta og svo klára Landvættina. 

Ertu ekki full manísk?

Þessi ákvörðun mín að skrá mig í Landvættina vakti ekki mikla lukku svona yfir heildina. Ansi margir fundu sig knúna til að benda mér á allt sem mig skorti til að verða Landvættur. Sem sagt þekkingu á þessum 4 íþróttagreinum og getuna til að stunda þær. Ég ákvað að hunsa allar þessar ráðleggingar þar sem innst inni var ég algjörlega sannfærð að ég gæti þetta. Ég þyrfti bara að leggja meira á mig en margir sem hafa klárað Landvættina. Ég setti mér líka hófleg markmið strax í upphafi. Ég væri að keppa við sjálfa mig og engan annan og það væri dásamlegur bónus að vera í topp 90% af þátttakendum, s.s, í neðstu 10% og klára þrautirnar. Það gekk næstum því eftir. Ég kláraði 2 þrautir af 4 og náði mínum markmiðum í þeim báðum.

Að vera byrjandi

Auðvitað er krefjandi að fara að æfa 4 nýjar greinar á sama tíma. Ég þurfti að setja mín æfingaplön í excel og ég þurfti að vera gífurlega skipulögð. Sem betur fer elska ég bæði excel og að skipuleggja. Ég var svo heppin að Hilda vinkona ákvað að skella sér í þessa vegferð með mér og ég hefði líklega ekki klárað þetta án hennar. Utanumhaldið í Landvættunum sjálfum er síðan algjörlega til fyrirmyndar. Ég veit að það var mikið gæfuspor að fara í Landvættina. Þau halda utan um alla, alveg sama á hvaða getustigi þeir eru. Reyndar eru grunnkröfur sem þú þarft að uppfylla til að mega taka þátt í Landvættunum og ég uppfyllti þær. Þjálfarateymið er frábært og með þeim náði ég að brjóta hvern þægindarammann á fætur öðrum. Ég hefði ekki sigrast á lofthræðslunni nema með þeirra aðstoð. Ég gæti talið endalaust upp hvað ég er þakklát fyrir en fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að þetta prógramm er til þar sem ég hefði aldrei getað klárað þetta ein og óstudd.

Planið breytist aftur

Fyrst að ég kláraði ekki 2019 þá ákvað ég að klára 2020 með því að skrá mig í þrautirnar sjálf. Síðan var þríþrautadeildin með æfingaferð til Þýskalands í júní þannig að ég skráði mig í Ólympíska þríþraut og svo voru einhvern veginn allir á leiðinni í hálfan járnkarl á Norður Ítalíu í september þannig að ég skráði mig líka í hann.  Ég byrjaði að æfa með þríþrautadeild Breiðabliks um haustið þannig að sundið, hjólið og hlaupið voru í góðu lagi. Ég þurfti svo að passa að fara reglulega á gönguskíði þannig að til að bæta mig skráði ég mig á gönguskíðanámskeið á Ísafirði í lok febrúar.  Fyrsti skellurinn kom í febrúar. Það var ófært á Ísafjörð þannig að ég missti af námskeiðinu. Svo kom Covid og þríþrautin var felld niður og svo járnkarlinn. Svo var Fossavatnið blásið af, svo var Bláalónshjólið blásið af, svo var Urriðavatnssundið blásið af. Ég man ekkert hvort að Jökulsárhlaupið var blásið af en þegar Fossavatnið og þríþrautin í júní voru blásin var, var ég komin í keppnisbugun. Ég ákvað því að nota 2020 til að bæta mig og æfa eingöngu gleðinnar vegna. Það reyndist vera ágætisákvörðun og hefur í raun verið mjög gaman og enginn pressa. Ég ákvað hins vegar að 2021 myndi ég klára Landvættinn og þannig loka upphaflegu plani og var því örugglega fyrst á skrá mig í prógrammið fyrir 2021.

Beinþéttnimæling

Ég byrjaði að hjóla 2019 og eftir nokkrar vikur á racer ákvað ég að fjárfesta í hjólaskóm. Í annað eða þriðja skiptið á hjólaskónum datt ég og endaði upp á slysó í gifsi. Ári seinni fór ég aftur á útiæfingar á racer, eftir nokkrar vikur fékk ég loksins kjarkinn að fara í hjólaskóna. Í annað eða þriðja skiptið á hjólaskónum datt ég og endaði upp á slysó í gifsi. Þegar fólk heyrir þetta þá er það alltaf fyrsta ráðlegging að ég þurfi að skella mér í beinþéttnimælingu. Ég er ekki viss um að vandamálið sé beinþéttnin þar sem í bæði skiptin þegar ég hef endað í gifsi er ég óbrotin. Í fyrra skiptið gleymdist nú bara að láta mig vita að ég væri óbrotin og mætti láta taka gifsið daginn eftir að ég datt þannig að ég var óvart í gifsi í 12 daga. Í seinna skiptið var ekki skýrt hvort að þetta væri brot eða ekki þannig að til öryggis var ég sett í gifs í 10 daga.

Ósamvinnuþýð þvagblaðra

Þegar kona er orðin fimmtug og á því fimmtuga þvagblöðru sem að auki hefur þurft að deila heimili sínum með þremur börnum í 9 mánuði þá er þvagblaðran ekki alltaf sú samvinnuþýðasta. Ég man að minn helsti ótti við Fossavatnið var ekki að þetta væri 50 km skíðaganga eða að ég yrði svöng eða að ég myndi frjósa í hel á heiðinni heldur að þvagblaðran færi í óumbeðna yfirvinnu. Hún hefur reyndar verið nokkuð samvinnuþýð þegar ég er að keppa en á öðrum tímum fer hún í staðinn stundum á yfirsnúning. Ég ákvað að gera tilraun með hana í sumar hvort að ég gæti tjónkað eitthvað við hana. Alltaf þegar ég man eftir því geri ég 20 grindarbotnsæfingar. Hversu oft man ég eftir því, svona 10* á dag þannig að ég fór úr því að gera engar grindabotnsæfingar á dag í svona 200. Munurinn sem ég finn er gífurlegur. Í staðinn fyrir að fara út að hlaupa og þurfa að henda mér beint á salernið þá get ég farið inn, fengið mér vatn, hent í þvottavél, tekið úr þurrkaranum, brotið saman og skrifað á Strava númer hvað þessi æfing var á árinu. Allt í einu er hún samvinnuþýð þessi elska og ekkert vesen á henni. Það er því eins gott að gleyma þessu ekki að gera grindarbotnsæfingarnar.

Kynningarfundur Landvætta

Kynningarfundur Landvætta var haldinn fyrir nokkrum dögum. Hann fór fram á Zoom í staðinn fyrir þéttsetnum sal eins og síðast, útafdottlu.

Það var farið yfir æfingaprógram, æfingaferðir og skipulag. Síðast þegar ég sat á þessum fundi fékk ég töluvert af nettum kvíðaköstum. Mér fannst æfingaálagið gífurlega mikið og ég kveið mikið fyrir því að fara á gönguskíðum í Landmannalaugar sem og að hlaupa Fimmvörðuhálsinn og svo var allkonar annað sem var að stressa mig.

Tveimur árum seinna er eingöngu tilhlökkun í mér. Ég veit hvað ég er að fara út í og ég er í miklu betra formi þannig að ég neyðist víst til að hækka markmiðin mín. Að vera í topp 90% er kannski ekki ásættanlegt lengur. Sundið var alltaf minn akkelsarhæll. Það tók mig 2 mánuði að geta synt skriðsund 50 m í einu. Ég hélt grínlaust að ég myndi aldrei ná því. Samkvæmt plani þá er gert ráð fyrir því að fólk syndi alltaf 500 m einu sinni í viku til að byrja með. Þetta er til að fólk komi sér í sundgírinn. Sundið er yfirleitt sú grein sem flestir eiga erfiðast með. Svo eykst æfingaálagið eftir því sem nær dregur keppnunum. Mér fannst þetta gífurlega mikið átak að synda 500 m. einu sinni í viku og miklaði þetta mikið fyrir mér. Um helgina skellti ég mér á Garpasundæfingu og synti 1.500 m og þar sem hjólaæfingin féll niður útafdottlu þá skellti ég mér í morgunsund og synti 2.000 m skriðsund.

Þegar ég var í sunduppreisninni, vildi að ég yrði massagóð í skriðsundi án þess að mæta mjög oft þá ræddi ég þetta við nokkra sem voru miklu betri en ég í sundi, s.s. sundþjálfara og þríþrautafólk. Það var samdóma álit allra að hæfni mín í sundi væri beintengd mætinu á æfingar, eins skrýtið og það nú er.

Allt hægt ef viljinn er fyrir hendi

Þegar ég hugsa til baka þá finnst mér ótrúlegt að ég hafi fundið sundgleðina og ég að fari sjálfviljug í sund og syndi 2.000 m skriðsund þegar ég gat ekki synt 50 m á sama tíma fyrir tveimur árum.

Ég hlakka gífurlega til að fara aftur í Landvættina og ég hlakka einna mest til að klára Villisundið af því að í fyrsta skipti á ævinni er ég sannfærð um að þetta sund verði skemmtilegt.

Það skiptir í raun engu máli hvaða árangri þú vilt ná. Þú getur það ef þú virkilega virkilega vilt það, það tekur bara mislangan tíma. Hjá mér tók það 2 ár að læra að elska skriðsund og hlakka til að mæta á æfingar. Hjá öðrum tekur það viku.

Það er allt önnur Ásdís sem er að mæta í Landvættina núna en fyrir tveimur árum. Þessi sem skráði sig 2018 var í mun verra formi og þyngri. Hvað kemur þyngd málinu við? Þegar þú tekur með þér auka 5 eða 10 kíló í hlaup, hjól eða hvaðeina þá ertu bæði að reyna meira á liðina sem og þú ert einfaldlega hægari. Ég er loksins búin að finna hvaða mataræði hentar mér með aðstoð Greenfit.is og þar fékk ég líka leiðbeiningar um æskilegt æfingaálag. Ég ætla að halda áfram að finna leiðir til að besta mig.

Eftir að ég áttaði mig á því að ég er ekki í samkeppni við neinn annan en sjálfa mig þá varð lífið miklu auðveldara. Það skiptir engu máli þó að Jón syndi hraðar eða Gunna hlaupi hraðar. Það sem skiptir máli að ég sé heilbrigðari og ánægðri með lífið og ég viti að mín heilsa er undir mér komin og engum öðrum

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda