Vigtar ekki matinn og telur ekki hitaeiningar

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum um mína vegferð. Hvernig ég byrjaði og á hverju á að byrja, er það mataræðið eða er það hreyfingin?

Ef ég hefði svarað þessu fyrir 3 árum þá hefði ég sagt: „gerðu smá breytingar á mataræðinu og settu forgang á hreyfinguna.“ Ég er síðan búin að læra að það er alls ekki rétt. Mataræðið er líklega 90% af árangrinum og rólegar æfingar á lágu álagi skila betri langtíma árangri og minnka líkurnar á meiðslum. Ég ákvað því að skella í smá pistil hvað stendur upp úr hjá mér. Ég minni á að þetta er allt byggt á minni reynslu og það sem virkar fyrir mig virkar ekki endilega fyrir þig,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Taktu ákvörðun

Fyrsta skrefið er að taka ákvörðun. Taka ákvörðun að núverandi lífsgæði séu óásættanleg og þú vilt fá meira út úr lífinu og geta meira. Ég var á ráðstefnu erlendis og hlustaði á David Goggins halda fyrirlestur og þessi setning festist í hausnum á mér. „Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig.“ Á þessari stundu var ég 95 kg. Ég var orkulaus, uppgefin á sál og líkama og stútfull af pirringi og reiði. Ég fann að ég vildi ekki vera þessi manneskja lengur. Ég vildi ekki halda áfram að skrifa þessa ævisögu. Ég hugsaði hvar verð ég eftir 10 ár ef ég held áfram á þessari braut. Ég var að þyngjast um svona tæp 2 kg á ári að meðaltali. Ekkert hættulegt ef þú horfir á 1 ár en þegar þú margfaldar þetta með 20 árum þá eru allt í einu komin 35 aukakíló. Ef ég héldi áfram á þessari braut og myndi þyngjast um 2 kg á ári þá væru komin viðbótar 20 kíló eftir 10 ár og ég væri orðin 115 kg. Þarna átti ég erfitt með að finna föt sem pössuðu á mig, fæturnir voru þrútnir og liðirnir stífir. Ég sá ekki að 20 kg í viðbót myndu bæta lífið neitt. Mig langaði ekki lengra. Ég fékk nóg.

Hreinsaðu út fortíðardraugana

Af öllu sem ég gerði þá myndi ég segja að þetta væri það mikilvægasta. Það er erfitt að horfa fram á veginn ef þú ert stútfull af fortíðarþráhyggju. Ég var mjög góð í þessu og var stöðugt að rifja upp eitthvað sem gerðist jafnvel fyrir áratugum. Þegar ég kom heim af ráðstefnunni þá breytti ég um mataræði og fékk mér einkaþjálfara en þessi reiði og pirringur var alltaf undirliggjandi. Ég jók orkuna og ég léttist helling en nokkrum mánuðum seinna krassaði ég í kvíðakasti því ég var ekki í neinu jafnvægi. Það var ekki fyrr en ég fór til sálfræðings og gerði upp þessa fortíðardrauga að ég komst í betra jafnvægi. Ég fór í lunch með vinkonum í sumar og við fórum að ræða allskonar mál. Ein umræðan gerði mig pirraða og ég áttaði mig á því að ég átti ennþá eftir að losa út þennan fortíðardraug. Ég greip í tækni sem ég lærði sem gengur út á það að sjá fyrir sér þræði sem eru fastir á þér. Síðan fór ég í göngu og á göngunni klippti ég alla þræðina burt og losaði mig við fortíðardrauginn. Ef þú ert að glíma við stóra fortíðardrauga eða nýlega mæli ég alltaf með því að leita sér aðstoðar. Það er mannskemmandi að burðast með þetta ein.

Gerðu ráð fyrir bakslögum

Róm var ekki byggð á einum degi og það hafa fáir óendanlegan járnvilja. Það koma tímabil þar sem þú nennir ekki út að hreyfa þig. Það koma tímabil þar sem þú vilt bara liggja upp í sófa, hámhorfa Netflix og snarla. Þegar það gerist er gífurlega mikilvægt að muna að þetta er langhlaup, ekki spretthlaup. Þetta er í alvörunni lífshlaupið. Hvíld er líka æfing og stundum þarf að taka sér pásu. Einn ömurlegur dagur skiptir engu í heildarmyndinni. Við getum aldrei alltaf verið í fullkomnu standi. Þó að ég eigi off dag þá skiptir það engu máli. Á morgun geri ég aftur mitt besta. Það sem þarf að passa að offdagarnir verði ekki 30 í röð eða 90. Ég þekki það svo vel á eigin skinni hvað er erfitt að fara aftur í gang ef pásan er löng. Stundum getur verið gott að fara þá í stutta göngu frekar en að gera ekki neitt.

Hreyfing

Það skiptir höfuðmáli að finna hreyfingu sem þér finnst skemmtilegt. Ég fór í einkaþjálfun og það var fínt en mér hefur hins vegar aldrei fundist rosalega gaman í tækjasal. Mig hefur alltaf langað að vera hlaupari en ég vissi alltaf innst inni að ég gæti það ekki. Ég vissi það af því að ég hafði byrjað óendanlega oft og aldrei haldið það út. 2018 ákvað ég að skrá mig í 10 km hlaup í Reykjavíkurmaraþoninu. Keypti mér app sem heitir 10 km runner. Þegar ég byrjaði að hlaupa gat ég varla hlaupið á milli ljósastaura. Um sumarið kláraði ég 5 km í Suzuki hlaupinu og svo í ágúst kláraði ég 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég man ennþá tilfinninguna að koma í mark. Ég hefði alveg eins getað verið að vinna heimsmeistaramót. Eftir að hafa selt mér í áratugi að ég gæti ekki hlaupið þá gat ég það víst. 2 árum seinna hleyp ég reglulega 10 km á morgnana og um helgar tek ég lengri hlaup. Fyndið hvað viðmiðin breytast á 2 árum.

Mataræði

Ég byrjaði á því að taka út allan sykur, hveiti og þar með kökur, kex og þess háttar. Ég léttist helling en mér fannst samt alltaf að ég væri að fórna svo miklu. Ég væri smá fórnarlamb að geta ekki hitt og þetta. Smátt og smátt jók ég æfingaálagið og fannst þá allt í lagi að tríta mig í samræmi við meiri hreyfingu. Kvöldsnarlið datt aftur inn og á 18 mánuðum þyngdist ég um rúm 5 kg. Virkar kannski ekki mikið en miðað við mína sögu þá vildi ég grípa í taumana áður en allt færi í óefni. Okkar á milli þá fannst mér mjög ósanngjarnt að kona sem æfir 7-10 sinnum í viku gæti ekki borðar allt sem hún vildi þegar hún vildi það. Við erum hins vegar öll mismunandi og það sem er vont fyrir mig getur verið frábært fyrir þig. Það var ekki fyrr en ég fór í mælingar hjá Greenfit í sumar að ég fór virkilega að tengja hvað hentar mér.

Greenfit

Í dag myndi ég mæla með því að byrja á ástandssmælingu hjá Greenfit. Þú færð flottar (eða ekki eins og í mínu tilfelli) niðurstöður og þú getur nýtt þér þetta sem leiðbeiningar hvað er best fyrir þig. Ég var með of hátt kólesterol, of háan blóðsykur, of miklar bólgur í líkamanum svo fátt eitt sé nefnt. Samt var ég búin að vera með mjög heilbrigðan lífstíl í tæp 3 ár. Mér hrýs hugur við að hugsa til þess hvernig gildin hefðu verið ef ég hefði ekki verið búin að gera neinar breytingar. Ég fór á hreint mataræði. Eins og Lukka orðar þetta, ef þetta vex, hleypur eða syndir þá er það gott. Allt í einu fór líkaminn í miklu betra jafnvægi. Kvöldsnarlið datt út, ekki af því að ég neyddist til að taka það út heldur afþví að ég mig langaði ekki í neitt. Ég vigta ekki matinn minn, ég tel ekki kalóríur og ég hef ekki hugmynd um hvert hlutfall próteina, fitu og kolvetna er í matnum, ég veit ekki einu sinni hvað Macros er. Mér líður eins og ég sé að svindla. Á tæpum 3 mánuðum hef ég meiri orku og í betra jafnvægi og það eina sem ég geri er að hreyfa mig hægar og borða rosalega góðan og fallegan mat. Sem aukabónus er ég búin að missa 8 kg og kominn tími á að endurnýja fataskápinn. Ég fór m.a.s. og keypti mér buxur í stærð 26. Það bætti alveg upp öll skiptin sem ég fór í búðir og fékk ekki máta af því að þau áttu ekkert í minni stærð. Ég veit hins vegar ekki hvort að ég hefði verið tilbúin í að gera þessar breytingar daginn sem ég ákvað að skipta um lífstíl. Stundum þarf að gera þetta í minni skömmtum. Ég veit hins vegar að mér líður betur og ég er í fyrsta skipti á ævinni í fullkomnu jafnvægi. Ég hlustaði á frábært viðtal við Lukku hjá Rafni Franklin í vikunni. Þau ræddu skilgreininguna á heilsu: „The word health refers to a state of complete emotional and physical well-being. Healthcare exists to help people maintain this optimal state of health.“ Í fyrsta skipti á ævinni finnst mér ég fullkomlega heilbrigð. Mæli eindregið með að hlusta á þetta viðtal, smelltu hér

Hlauptu hægar til að fara hraðar og andaðu með nefinu

Annað sem kom í ljós hjá Greenfit var hver fitubrennslupúlsinn minn er. Ég var að hlaupa allt of hratt. Líkaminn brenndi kolvetnum en ekki fitu. Þegar ég hugsa til baka þegar ég byrjaði að hlaupa þá léttist ég helling. Það hefur væntanlega tengst því að ég hljóp mjög hægt, líklega á fullkomnum fitubrennslupúls.

Mér fannst þetta öfugmæli og erfitt að hægja á mér. Ég vil hlaupa hraðar ekki hægar. Eftir nokkrar vikur á hæghlaupum og með neföndun fór ég í 5 km til að kanna hvar ég stóð og náði mínu hraðasta 5 km hlaupi á ævinni. Líklega er þetta óvitlaust.

Ég fæ líka mikið af spurningum hvað með þessa neföndun. Ég er nú ekki besta manneskjan í að útskýra hana. Komast að því í vikunni að ég er búin að vera að gera hana rangt allan tímann. Þegar ég byrjaði þá andaði ég inn um nefið og út um munninn. Mér fannst það nógu erfitt. Smátt og smátt fór ég að anda meira með nefinu, sem sagt alltaf inn og út. Það var samt ekki af ásetningi heldur einhvern veginn gerðist. Ég var svo að hlusta á bókina „the Oxygen Advantage“ þegar ég hnýt um þessa setningu. Þú átt að anda inn og út um nefið og borða með munninum. Já einmitt, alltaf ekki bara stundum. Ég sendi póst á Sigga hjá Greenfit og spurði hvort að þetta væri málið. Fékk til baka Hahahaha já, inn OG út um nefið er málið.  Gott að vera komin með það á hreint.

Þannig að ég myndi mæla með þessum 3 bókum: Breath, The Oxygen Advantage og Obesity Code.

Ég fór síðan út að ganga næsta morgun í 10 stiga frosti, notaði eingöngu neföndun og það var ekkert mál. Reyndi svo að nota munnöndun og það var hræðilega vont að fá kalda loftið í hálsinn á meðan ég fann ekkert fyrir því í gegnum nefið.

Ég kýs að laga mig núna

Þetta er allt ákvörðun. Það er erfitt að byrja að hreyfa sig. Það er erfitt að breyta um mataræði. Ég held hins vegar að það sé auðveldara að breyta á meðan þú getur það í staðinn fyrir að bíða þar til allt er komið í óefni og þú verður að gera það. Þá er það kannski of seint. Ég lít á mig sem gífurlega heppna konu. Ég hef ennþá tækifæri til að bæta mig og besta mig. Ég verð 52 ára í febrúar á næsta ári. Ég er í betra formi en þegar ég var 30 ára, miklu betra formi en ég þegar ég var 40 ára og ég veit að það er í mínum höndum að líta til baka eftir 10 ár og segja ég er í betra formi núna en þegar ég var 52 ára. Það eru forréttindi að setja heilsuna í forgang. Að horfa fram á veginn og vita að ég er að gera mitt til að eiga betri ár framundan. Ég vil vera amman sem fer með barnabörnin í fjallgöngur eða á fjallahjól. Amman sem er upptekin við að njóta lífsins og hlaupa maraþon af því að ég get það. Eftir tæp 20 ár verð ég komin á áttræðisaldur. Það er ekki meitlað í stein að þú þurfir að minnka lífsgæðin bara af því að þú eldist. Þetta liggur hjá þér. Hver er þín framtíðarsýn og hvaða sögu viltu skrifa?

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram:

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda