Leikarinn Mark Wahlberg borðar um 7 þúsund hitaeiningar á dag þessa dagana til að bæta á sig kílóum fyrir hlutverk sitt í kvikmyndinni Stu. Næringarfræðingurinn Lawrence Duran hefur aðstoðað leikarann við að bæta á sig og segir það ekkert grín að ná að torga svo mörgum hitaeiningum á dag.
„Við reynum að ná inn 7 þúsund hitaeiningum á dag, en það er ekki auðvelt fyrir neinn að borða svo mikinn mat, jafnvel þótt við brjótum þetta upp í minni máltíðir,“ sagði Duran í viðtali við E Online.
Wahlberg hefur nú þegar þyngst um 9 kíló og á að bæta um 4,5 kílóum í viðbót á sig. „Hann borðar á þriggja tíma fresti. Við einblínum á góð kolvetni, dökkgrænt grænmeti og síðan skiptumst við á prótíngjafa yfir daginn, og hann borðar að minnsta kosti 12 egg á dag,“ sagði Duran.
Formorgunverður er klukkan 3 á nóttunni. Þá borðar hann fjögur egg. Síðan fer hann á æfingu og borðar svo átta egg, fjórar sneiðar af beikoni, bolla af hrísgrjónum, tvær matskeiðar af ólífuolíu og prótínsjeik.
Duran segir að þeir séu að einbeita sér að því að byggja líka upp vöðvamassa. Yfir daginn borðar hann svo kálf, svín, naut eða fisk ásamt korni á þriggja tíma fresti. Í lok dags borðar hann svo hafragraut, tvær matskeiðar af eplamauki, tvær matskeiðar af sultu, tvær matskeiðar af möndlusmjöri og tvær matskeiðar af melassa.
Duran hefur mikla tú á því að Walhberg geti náð þessari þyngd aftur niður á stuttum tíma. „Hann getur tapað þyngd frekar auðveldlega. Eftir nokkrar vikur eigið þið örugglega eftir að sjá miklar breytingar. Hann hefur gert þetta allt sitt líf en það myndi taka venjulega manneskju marga mánuði. Það eru ekki allir líkamar eins og hans og ekki víst að hans næringarplan virki fyrir hvern sem er,“ sagði Duran.