Þegar breytingaskeiðið tekur völdin

Ásdís Ósk Valsdóttir.
Ásdís Ósk Valsdóttir.

„Þann 12. júní 2021 tók ég þátt í mínu fyrsta hjólamóti. Þetta var ekki hvaða mót sem er, nei þetta var 60 km fjallahjólamót eða svokallað Bláalónsmót. Keppnin hefst í Hafnarfirði og lýkur á bílaplaninu hjá Bláa lóninu þar sem þátttakendur fá að fara í lónið til að endurhlaða batteríin,“ segir Ásdís Ósk Valsdóttir, fasteignasali og miðaldra kona í sínum nýjasta pistli: 

Eru öll hjól eins?

Hvers vegna skyldi nú miðaldra kona skella sér í Spandex og fara í 60 km fjallahjólakeppni, sérstaklega þar sem hún þjáist af smá brekkuótta og lofthræðslu? Jú, fyrir 3 árum fékk ég þá frábæru hugmynd að skella mér í Landvættinn. Þetta eru fjórar þrautir og þegar ég skráði mig þá hafði ég mest hlaupið 10 km í Reykjavíkurmaraþoninu. Ég hafði ekki hjólað úti á þessari öld og ekki svo mikið sem séð fjallahjól. Ég vissi á þessum tímapunkti ekki að það væru til margar tegundir af hjólum. Ég hélt að þetta væru bara mismunandi litir. Ef ég hefði ekki verið svo forsjál að heyra í Hákoni Hrafni hjólaþjálfara hjá Breiðablik rétt áður en ég straujaði visakortið þá hefði ég mætt á þessu forláta Gravel-hjóli á mína fyrstu götuhjólaæfingu. Ég hafði aldrei hlaupið utan malbiks en ein þrautin er 32 km utanvegahlaup. Ég kunni bara bringusund og fannst afrek að synda 1 km svona einu sinni í mánuði og ein þrautin er 2,5 km vatnasund. Ég hafði ekki hugmyndaflug í að fólk synti í vötnum á Íslandi, það virkar rosalega kalt. Rúsínan í pylsuendanum var síðan 50 km gönguskíðakeppni. Ég hafði hvorki séð gönguskíði né gönguskíðakeppni. Mig vantaði bara eitthvað hressilegt markmið og Landvætturinn virkaði nógu skelfilegur til að láta vaða.

Blessuð lofthræðslan!

Þar sem mig vantaði alla þekkingu skráði ég mig á hjólaæfingar hjá Breiðabliki sem ég hef alltaf sagt að hafi verið mín mesta gæfa. Ég fór að æfa sund með Garpadeild Breiðabliks og fann mér hlaupaprógramm á netinu. Skráði mig svo á gönguskíðanámskeið sama daginn og ég skráði mig í Fossavatnið 2019. Það varð mér til happs að Hilda vinkona ákvað að skella sér líka í Landvættinn og við tókum ófáar æfingar saman um veturinn og fórum saman í Fossavatnið. Hún er reyndar miklu betri íþróttakona en ég og kláraði Fossavatnið langt á undan mér en ég kláraði og ég var ekki einu sinni síðust. Eftir Fossavatnið tóku við stífar hjólaæfingar, bæði á götuhjóli og fjallahjóli. Ég fór í brautaskoðun með Landvættum fyrir Bláa lónið og þá kom „smá vandamál“ í ljós. Ég varð sjúklega loft- og hraðahrædd í Ísólfsskálabrekkunni. Ég eiginlega fríkaði út og fór af hjólinu og labbaði niður alla brekkuna fyrir miðju. Brynhildi Ólafs sem sér um Landvættina varð að orði að það væri nú ekki skynsamlegt að ganga á miðjum veginum í hjólakeppni sem væri að auki opin fyrir umferð. Ég var engan veginn að höndla þessa lofthræðslu og Brynhildur sendi mig í dáleiðslumeðferð gegn lofthræðslu. Þér að segja þá hafði ég nú ekki mikla trú á því fyrir fram en ég get staðfest að þetta svínvirkaði. Ég var því í ágætisgír fyrir keppnina þegar ég datt af hjóli nokkrum dögum fyrir keppni og endaði í gifsi frá úlnlið og upp í öxl og missti því af keppninni. 12 dögum seinna kom í ljós að ég var ekki brotin og það gleymdist bara að segja mér það, en það er önnur saga.

Ég ákvað því að klára Landvættinn 2020 í staðinn en það gekk nú ekki alveg nógu vel þar sem engar keppnir voru haldnar það árið vegna Covid.

Allt er þegar þrennt er ekki satt og ég skráði mig aftur í FÍ landvættinn síðastliðið haust. Það verður að segjast að þau hafa verið ansi útsjónarsöm að halda úti þessu prógrammi í alls konar fjöldatakmörkunum.

Blessað breytingaskeiðið tekur völdin

Ég tók þátt í Strandamótinu sem er gönguskíðamót og fann að ég var ekki alveg upp á mitt besta. Svo kom Fossavatnið og ég fann enga keppnisgleði þar heldur kláraði það á þrjóskunni einni saman. Eitt erfiðasta mót í manna minnum og ég var rúma átta klukkutíma að klára. Ég man þegar ég kom í mark var ég alveg laus við gleðina og urraði á Kjartan Long þjálfara hjá Landvættum þegar hann samgladdist mér að vera komin í mark. Þá grunaði mig að ég væri komin í eitthvað ólag og bað heimilislækninn að panta fyrir mig blóðprufur. Niðurstaðan var að ég væri komin í bullandi tíðahvörf og vantaði kvenhormón. Til að bæta gráu ofan á svart þá mælti hann alls ekki með því að ég fengi hormón þar sem kolesterólið mitt væri allt of hátt. Tíðahvörf eru mjög mismunandi á milli kvenna. Mín lýsa sér í orkuleysi og andlegri bugun. Það er ekki alltaf besta blandan, sérstaklega ekki þegar þú ert á leiðinni í Fjallahjólamót. Ég var því farin að sleppa hjólaæfingum þar sem ég vissi aldrei hvernig stemmingin yrði. Hvort ég myndi hreinlega drífa upp brekkurnar eða urra of mikið á æfingafélagana.

Ég hef gert miklar breytingar á mataræðinu síðast liðið ár í gegnum Greenfit. Ég var í besta jafnvæginu bæði orkulega séð sem og andlega þegar ég borðaði hreint mataræði. Mér fannst fullmikið að verða alveg Clean út ævina og í samráði við Lukku ákvað ég að byrja á því að taka eingöngu út sykur. Það tók ekki nema nokkra daga að fara heilmikið upp í orku og andlega bugunin hvarf að mestu. Einnig minnkaði notkun á orðum (meira í hugsun en talmáli) sem byrja á H, F og A um mörg hundruð prósent.

Bláalónsundirbúningur

Ég fór í tvær brautarskoðanir með Landvættum og það kom mér skemmtilega á óvart hvað mér fannst gaman í brautinni. Ég stóð niður brekkurnar og náði m.a.s. stundum að hjóla upp líka. Ég kláraði reyndar ekki alla brautina. Ég fór ekki síðasta legginn. Það vill svo „skemmtilega“ til að þar er einmitt Ísólfsskálabrekkan.

Eftir seinni brautarskoðun var ég orðin mjög peppuð fyrir mótið. Mitt helsta áhyggjuefni eins og alltaf er að mér verði kalt. Ég tók því til alls konar föt til að græja mig. Ég tók með vatn og orkustykki og svo fékk ég lánaða hjólatösku hjá Gumma Sveins. Ég vonaði innst inni að hann myndi setja nokkur auka wött í hana en það virðist hafa gleymst. Ég var líka með tvö gashylki og slöngu ef það skildi springa og eina létta pumpu í viðbót. Ég kann reyndar ekki að græja þetta en treysti á að einhver myndi redda mér ef þyrfti.

Viktor Logi sonur minn pumpaði óumbeðinn í dekkin fyrir mótið. Það var eins og hann treysti móður sinni ekki fyrir þessu verkefni. Kannski tengist það því að ég bað hann að hjálpa mér að pumpa í Racerinn þar sem þessi h”#$%” pumpa virkaði ekki. Þá komu í ljós tvenn örlítil mistök hjá mér. Ég gleymdi að taka opna fyrir ventilinn og ég festi pumpuna ekki rétt á, annars var þetta allt hárrétt hjá mér.

Þrátt fyrir að vera orðin peppuð fyrir mótinu var ég samt alltaf með þennan undirliggjandi kvíðahnút yfir Ísólfsskálabrekkunni. Hvernig myndi mér ganga að tækla hana? Síðast þegar ég fór hana þá bugaði hún mig. Mér hefur sjaldan liðið eins illa og þegar ég þurfti að ganga niður hana. Mér fannst vera þverhnípt báðum megin og ég skildi hreinlega ekki hverjum dettur í hug að láta hjóla svona hættulega leið. Ég hefði alveg eins getað staðið á brúninni á Everest. Ég skildi ekki heldur hvers vegna það eru ekki vegrið á svona háum og hættulegum vegum. Ég hef talað við marga sem skilja ekkert hvað ég er að tala um. Þessi brekka er ekkert svo brött og margir hafa ráðlagt mér að hugsa ekkert út í þetta, bara láta vaða. Já einmitt, það virkar. Nei, það virkar ekki, lofa.

Mótið hefst

Það var ræst í þremur hollum og Landvættir voru í síðasta holli. Ég ætlaði að hjóla með Sigrúnu Rósu vinkonu þar sem hún var rifbeinsbrotin en þar sem hún byrjaði keppnina á vinnusímafundi þá hjólaði ég aðeins áfram. Vissi sem var að hún er mun hraðari hjólari og myndi ná mér. Það var gífurlegur mótvindur á Suðurstrandarveginum og planið var að fólk væri í hópum og myndi drafta hvert annað og létta sér þannig lífið. Ég lenti á milli hópa og hjólaði því ein. Mæli ekki með því en þetta hafðist. Fínt veganesti inn í næstu keppi. Á Vigdísarvöllum náði Sigrún mér og svo stakk hún mig af, rifbeinsbrotin eða ekki, þá hjólar hún af ákefð. Hún ákvað samt að bíða eftir mér í brekkunni. Ég hjólaði í góðum gír, náði að standa niður allar brekkurnar og hjóla upp allar brekkurnar. Þér að segja, þá var ég mjög sátt við mig. Svo fór ég að nálgast H”#$”# brekkuna.  

Ég fann kvíðahnútinn stækka og andardrátturinn varð örari, jú líka af því að ég var að hjóla upp brekku en þessi var öðruvísi. Ég reyndi að horfa beint áfram en stundum er það þannig að ef þú virkilega reynir að horfa ekki á eitthvað þá leita augun þangað. Eftir smá tíma fór hausinn og ég komst ekki lengra á hjólinu. Hún hafði sigrað mig aftur. Ég hafði verið viss um að ég myndi geta brekkuna en ég fór af hjólinu og byrjaði að labba með það upp. Það fóru allskonar hugsanir í gegnum kollinn á mér.

Ásdís, manstu þegar þú varst ekkert viss um að það væri góð hugmynd að hjóla Bláa lónið og þú varst með alls konar leiðir til að losna við það. Hefði ekki verið sniðugt að útfæra eina af þeim. Það voru svo margar leiðir til að fara ekki. Topp þrjú var:

  1. Detta á hjóli og feika meiðsl til að fá gifs. Það er skotheld leið. Þú ert búin að detta tvö ár í röð og verið sett í gifs bæði skiptin án þess að vera brotin. Þú veist sko alveg hvað þarf að gera og segja til að fá gifs.
  2. Skella þér í seinni Pfizer-bólusetninguna á réttum tíma og vonast eftir massífum aukaverkunum og ef þær kæmu ekki þá bara hringja í Hr. Google sem veit allt og feika þær. Verða rosalega rosalega lasin.
  3. Hætta í Landvættinum. Það þurfa ekkert allir að vera Landvættir sko.

Allt í einu byrjaði síminn minn að hringja á fullu. Þegar ég kíkti loksins á símann sá ég að Sigrún Rósa hafði verið að reyna að ná í mig. Þetta yndi vildi kanna hvort að hún ætti að bíða eftir mér við brekkuna. Hún var samt svo langt á undan mér að þegar hún var búin að bíða í 20 mínútur var hún við það að ofkælast og var skikkuð af stað.

Ertu hrædd við hákarl?

Margir hafa ráðlagt mér að ofhugsa ekki þessa lofthræðslu. Ef það væri lausnin þá væru engar fóbíur til. Þetta minnir mig alltaf á þegar ég lærði köfun í Honduras. Það er tvennt sem ég man úr námsefninu. „Ef þú ert fastur inni í helli og loftið að verða búið DONOTPANIC. Ef þú hittir hákarl DONOTPANIK“. Þetta hljómar mjög skynsamlega en ég er ekki jafnsannfærð um að það séu allir sem muni halda ró sinni fastir í neðansjávarhelli, alveg að verða loftlausir og sjá þennan fína hákarl nálgast. Ég man a.m.k. ekki eftir neinum rólegum í myndinni Jaws.

Ég vissi innst inni að ég myndi aldrei verða sátt við mig ef ég myndi ekki reyna. Þannig að á þessum tímapunkti í lífi mínu ákvað ég að það væri best að labba upp og niður h”#$”# brekkuna. Síðan fékk ég þessa frábæru hugmynd að spyrja næsta hjólara hvort að hann væri til í að labba með mér. Það vildi mér til happs að næsti hjólari var hann Árni sem hafði líka verið í Landvættunum 2019 og honum fannst það nú ekki mikið mál að labba með mér niður. Hann væri hvort sem er ekkert að keppa við tímann. Á leiðinni áttaði ég mig á því að brekkan var miklu flatari en mig minnti og einnig fann ég ekki svæðin sem voru þverhnípt síðast. Líklega hefði ég prófað að hjóla hana ef það hefði ekki verið svona brjálæðislega hvasst að fólk átti í mestu vandræðum með að hanga á hjólinu í mestu hviðunum. Þegar ég var komin niður var stutt eftir og ég fann að ég var pínu punkteruð eftir að hafa klárað brekkuna og ákvað að hjóla rólega restina af leiðinni. Það kostaði töluverðan tíma að labba niður brekkuna. Þeir sem eru bestir eru að fara hana á svona 70 km hraða. Ég var líklega á svona 5 km hraða.

Best að byrja illa

Það sem ég hef hins vegar lært er að það er langbest að byrja mjög illa á sínu fyrsta móti þá er svo auðvelt að ná miklum bætingum á milli ára. Ég reyndi það í Reykjavíkurmaraþoninu, mæli eindregið með þessu. Nema þú sért mjög góður og eigir sjens á vinningssæti þá kannski er betra að fara all in líka á fyrsta móti. Það er í raun mun verra að byrja vel og vera svo lélegur í næsta móti á eftir. Það er ekkert ósvipað og þessi byrjendaheppni í Keilu. Yfirleitt þegar fólk fer í fyrsta skipti í keilu þá virðist það ná endalausum fellum og feykjum og næst fer kúlan nær eingöngu í rennuna.

Þegar ég lít til baka var Bláalónskeppnin alveg frábær. Mér fannst mjög gaman að hjóla leiðina og var gífurlega sátt við að ég var mun minna stressuð í H”#$”#$ brekkunni en síðast. Það var vel að mótinu staðið og ég var mjög sátt við allt nema eitt. Ég var ansi spæld að fá ekki þátttökupening eftir mótið. Ég skil alveg að fólk sem er búið að fara margoft nenni ekki að fá enn einn peninginn en þegar þetta er þitt allra fyrsta hjólamót þá er nauðsynlegt. Fyrirkomulagið í Reykjavíkurmaraþoninu er mjög sniðugt. Þar getur þú valið hvort þú vilt kaupa pening eða ekki.

Hins vegar fékk ég Blikanaglalakkið eftirsótta daginn eftir þannig að það vóg alveg upp peninginn sem ég fékk ekki og vel það. Hvað er Blikanaglalakkið eftirsótta? Allir Blikar sem keppa í hjólamóti fá dásamlega bleikt naglalakk frá Nailberry. Það er sumarlegt og smellpassar við blikabúninginn. Þrátt fyrir að hafa lent í sjöunda neðsta sæti leið mér eins og sigurvegara þegar ég fékk naglalakkið. Fyrir mér var þetta jafngeggjað eins og að fá gula jakkann í Tour de France. Sem aukabónus þá endist þetta naglalakk lengur á mér en önnur sem ég hef prófað.

Eftir keppnina fann ég samt hvað mér var létt að hafa lifað Bláalónskeppnina af. Hvað hún hafði verið íþyngjandi í nokkrar vikur og hvað ég var orðin stressuð yfir því að vera að fara að keppa. Þegar þú klárar eitthvað sem þú varst ekki viss um að geta þá mölbrýtur þú þægindarammann og næsta keppni verður minna mál.

Landvættir stækka þægindarammann

Ég hef oft leitt hugann að því hvar ég væri stödd ef ég hefði ekki skráð mig í Landvættina á sínum tíma. Ég væri líklega enn þá að skokka og tæki svona 10 km „langhlaup“ stundum en væri líklega mest í stuttum hlaupum.

Ég hefði ekki farið á hjólaæfingar hjá Breiðabliki. Ég væri hvorki búin að fá mér götuhjól né fjallahjól. Ég gæti ekki synt skriðsund. Ég væri ekki búin að hlaupa utanvegahlaup og ég hefði líklega aldrei prófað gönguskíði.

Það að skrá sig í Landvættaprógrammið er líklega það allra besta sem ég hef gert fyrir sjálfa mig. Ég hef ítrekað rústað þægindarammann og mun halda því áfram aftur og aftur og aftur.

Þetta ár verður samt ár hæglætis. Ég ætla að njóta þess að hreyfa mig rólega. Klára Landvættinn á rólegum hraða þar sem ég finn að sykurleysi og rólegar æfingar svínvirka á þetta blessaða breytingaskeið. Í hvert skipti sem ég rek mig á vegg þá læri ég eitthvað nýtt. Ég fæ meiri samkennd með öðrum og á auðveldara með að setja mig í spor annarra. Í fyrra hefði ég líklega ráðlagt þessari konu að bíta á jaxlinn og keyra áfram á fullu.

Ég skoða alltaf tímana í þeim keppnum sem ég tek þátt í og hef tekið eftir því að 70 plús hópurinn er frekar óvirkur í keppnum. Það eina sem ég þarf að gera er að krossa fingur að þeir sem eru að keppa núna á mínum aldrei verði allir komnir í golf og ég muni því rústa þessum keppnum eftir tæp 20 ár. Þarna mun minn tími koma.

Mér er samt alveg sama í hvaða sæti ég lendi. Ég er í betra formi en tvítuga, þrítuga og fertuga ég. Ég myndi vinna þær í öllum þrautum. Ég hef engan metnað til að verða afreksmanneskja í íþróttum. Mig langar að vera í góðu formi og við góða heilsu út ævina. Það eru mín lífsgæði.

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á Instagram: 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda