Er hægt að tækla breytingaskeiðið?

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Ég var á báðum átt­um hvort að ég ætti að skella í þenn­an pist­il. Kannski bíða í nokkra daga á meðan mesta horm­óna­sveifl­an og úrill­an var að ganga yfir en svo hugsaði ég FOKKIT. Hann fang­ar lík­lega aldrei bet­ur augna­blikið og líðan­ina en akkúrat núna. Ég viður­kenni að ég rit­skoðaði hann samt al­veg hressi­lega. Ef ég hefði ekki gert þá þá hefði hann lík­lega sam­an­staðið af “#$”#%”#$&#”$&”$%#&”#$&$”#&#” og FOKKIT, HELVÍTIS og fleira í þess­um dúr. Þannig að ég vil vara þig við. Þessi er ansi bein­skeytt­ur og ekki fyr­ir viðkvæm blóm að lesa,“ seg­ir Ásdís Ósk Vals­dótt­ir miðaldra kona og fast­eigna­sali í sín­um nýj­asta pistli: 

Ég skipti um lífstíl í ág­úst 2017 og og lífs­stíls­breyt­ing­in gekk eins og í sögu fyr­ir utan hressi­legt kvíðak­ast og bug­un í janú­ar 2018. Ég var stöðugt að bæta mig og formið og al­menn líðan var á bullandi upp­leið.

Ég hafði skráð mig í FÍ Land­vætti 2018 en náði ekki að klára þar sem ég datt á hjóli og lenti í gifsi viku fyr­ir Bláalóns­hjóla­keppn­ina. Ég hélt þó mínu striki og haustið 2020 skráði ég mig aft­ur í FÍ Land­vætti. Ég var að æfa hjól, sund, hlaup og göngu­skíði og skellti mér ein­staka sinn­um í fjall­göngu. Lífið var dá­sam­legt og ég var stút­full af orku og al­mennri lífs­gleði. Ég naut þess að taka þátt í mót­um þar sem ég var alltaf að bæta mig. Ég var ein­göngu að keppa við sjálfa mig og þegar hér var komið við sögu þá gat ég farið að setja mér raun­hæf mark­mið um hvaða ár­ang­ur ég vildi ná á mót­um þar sem ég átti móta­sögu og gat því gert áætl­un um per­sónu­leg­ar bæt­ing­ar.

Fyrsti skell­ur­inn

Eft­ir síðustu ára­mót var ég þó aðeins far­in að finna fyr­ir þreytu og lífs­gleðin tók sér stund­um frí. Stund­um fór ein­hvern allt í taug­arn­ar á mér og það varð ótrú­lega mikið af ÖSNUM í kring­um mig. Ég skráði mig í Stranda­mótið sem er 20 km skíðagöngu­keppni. Ég var ansi peppuð fyr­ir hana. Ég hafði klárað Fossa­vatns­göng­una 2019 sem voru 42 km og það gekk svona glimr­andi vel. Fyrsta skíðagöngu­keppn­in mín hafði verið stuttu árið. Það var Bláfjalla­gang­an sem hafði líka verið 20 km og ég vissi að ég myndi ALDREI ná verri tíma en í henni þar sem ég hafði svo litla reynslu þegar ég tók þátt í henni. ALDREI_­SEGJA_ALDREI.

Stranda­gang­an gekk ein­fald­lega ekk­ert alltaf of vel. Ég var þreytt og þung á mér. Mér fannst ég orku­laus og stund­um fannst mér ég ekki kom­ast áfram. Marg­ir tóku fram úr mér en ég tók ekki fram úr nein­um. Þetta var eig­in­lega al­veg glatað og til að toppa þetta allt sam­an þá var ég á verri tíma en í Bláfjalla­göng­unni. Þetta var í fyrsta skipti síðan ég breytti um lífstíl að ég náði ekki að bæta mig per­sónu­lega. Vin­kon­ur mín­ur reyndu að peppa mig: „Ásdís, þetta get­ur verið dags­formið“. „Halló, ég var á verri tíma en þegar ég tók þátt í Bláfjalla­göng­unni fyr­ir 2 árum og þá hafði ég stigið nokkr­um sinn­um á göngu­skíði, kunni hvorki að fara upp né niður brekk­ur og var svo mikið klædd að ég ældi næst­um því í keppn­inni með hita­óráði.“ „Það hæg­ist á fólki með aldr­in­um“, bættu þær við. Þarna voru þær heppn­ar að ég var óvopnuð... Það var al­veg sama hvaða rök þær komu með. Ég vissi innst inni að þetta var ekki eðli­legt. Ég hafði bara ekki hug­mynd um hvað gat verið að.

Skugg­inn af sjálfri sér

Eft­ir Stranda­mótið versnaði ástandið. Ég var orku­laus, upp­stökk og datt reglu­lega niður í óskil­greinda dep­urð. Ég hafði ekki alltaf orku til að fara á æf­ing­ar og stund­um þegar ég fór fannst mér all­ir á æf­ing­unni öm­ur­leg­ir. Mér er sér­stak­lega minn­is­stætt að hafa þurft að labba upp brekku á hjólaæf­ingu og sjá á eft­ir öll­um upp brekk­una. Ég fór að grenja því mér fannst ég svo öm­ur­lega lé­leg og æf­inga­fé­lag­an­ir hund­leiðin­leg­ir að stinga mig svona af. Ég var orðin skugg­inn af sjálfri mér. Ég var skít­hrædd um að síðustu ár hefðu verið frá­vik. Þetta hefðu verið 3 ár sem ég fékk að prófa að vera í topp­formi og svo væri það búið.

Núna tæki við tíma­bil orku­leys­is, pirr­ings og al­mennra leiðinda. Ég var svo ekki til­bú­in að fara þangað en ég vissi bara ekk­ert hvað ég átti að gera eða hvernig ég átti að tækla þetta. Eina sem virki­lega virkaði vel á þessu tíma­bili var þvag­blaðran. Hún fór á yf­ir­snún­ing og ákvað að virki­lega fara í full sw­ing. Ég náði nú reynd­ar að googla þetta og greindi hana sem of­virka þvag­blöðru. Al­gjör snilld get ég sagt ykk­ur. Fátt betra en að pissa 15 sinn­um á dag og vakna einu sinni til tvisvar á nótt­unni til að skvetta úr skinn­sokk­un­um. Við vor­um reynd­ar svo heppn­ar þvag­blaðran og ég að kom­ast í sjúkraþjálf­un og núna sof­um við á okk­ar græna eyra alla nótt­ina.

Pottþétt ofþjálf­un

Al­mannaróm­ur var með þetta á hreinu. Þetta er lík­lega OFÞJÁLFUN var sam­dóma álit Al­mannaróms­ins, já pottþétt OFÞJÁLFUN. Ég var ekki al­veg að kaupa þessa skýr­ingu þar sem ég hafði ein­mitt verið í óstuði í nokk­urn tíma og æft óvenju lítið. All­ir sem voru sam­mála um að ég þjáðist af OFÞJÁLFUN áttu eitt sam­eig­in­legt. Eng­inn þeirra var sér­fræðing­ur. Eng­inn þeirra var þjálf­ari og eng­inn þeirra hafði skoðað Stra­vað mitt til að sjá hvað ég var í raun og veru að æfa mikið. Fossa­vatns­gang­an var framund­an og það var ekki laust við að ég væri að verða pínu stressuð fyr­ir hana þar sem ég treysti ork­unni minni ekki al­veg. Hvað ef ég myndi hrein­lega klára ork­una mína á leiðinni og ekki drífa upp ein­hverja brekk­una? Fossa­vatns­gang­an er hvorki meira né minna en 50 km skíðaganga.

Fossa­vatns­ganga dauðans

Hún byrjaði frá­bær­lega. Það var gott veður og við höfðum náð góðu núm­eri þannig að við byrjuðum snemma. Vegna Covid var ræst út eft­ir skrán­ingaröð. Ég vissi að ég yrði að byrja snemma til að ég myndi ekki koma í mark eft­ir að búið væri að taka niður marklín­una og loka fjall­inu. Ég var vel stemmd í upp­hafi. Svo fór gleðin að minnka. Það hjálpaði sann­ar­lega ekki til að þetta varð ein erfiðasta ganga í manna minn­um. Þegar verst var sást ekki í næsta mann fyr­ir snjóstormi og í mesta hliðar­vind­in­um var ég skít­hrædd um að ég myndi fjúka ofan af fjall­inu.

Gang­an varð alltaf erfiðari og erfiðari og ég man þegar ég sá skiltið 29 km þá hugsaði ég það eru Hel... hálf­m­araþon eft­ir. Það hvarflaði samt aldrei að mér að klára ekki. Ég vissi að ég gæti þetta þó að ég yrði ROSA­LEGA lengi. Ég er með mjög gott grunnþol þó að orku­lega séð hafi ég verið ónýt. Ég var far­in að fá mér orku á 2ja km fresti og það elsk­urn­ar mín­ar tef­ur heil­an hell­ing.

Síðustu 7 km er brun í mark. Flest­ir nýta sér það til að ná upp meðal­hraðanum. Þreytt­ar orku­laus­ar brun­hrædd­ar miðaldra kon­ur fara þetta í plóg. Niðurstaðan var að ég var ekki nema 8:04:57:8 að klára þetta. Jú þú last þetta rétt, átta­klukku­tímar­fjór­armín­út­urfimm­tíu­og­sjösek­úndurogátta­sek­úndu­brot. Ég kom í mark nr 216 og það voru ekki nema 10 kepp­end­ur fyr­ir neðan mig. Ég kláraði Fossa­vatnið en al­gjör­lega gleðilaust og þegar ég kom í mark langaði mig að kveikja í öllu drasl­inu. Það vottaði ekki fyr­ir stolti að hafa klárað þessa erfiðu göngu og blessuð medalí­an er ennþá í plast­inu. Þegar ég kom í mark þá vissi ég að það væri eitt­hvað hressi­legt lík­am­legt ójafn­vægi í gangi og pantaði mér tíma hjá  heim­il­is­lækn­in­um. Ég fór í nokkr­ar blóðpruf­ur og þetta var fljót­greint...

Vel­kom­in á breyt­inga­skeiðið

„Mæl­ing á kven­horm­ón­um sýn­ir að það er skort­ur á þeim og þú virðist vera kom­in í tíðahvörf. Nú já, ég ætla að fá nokk­ur kven­horm­ón takk og redda þessu. Þá kom stóri skell­ur­inn. “Ég myndi ráðleggja þér frá því að taka inn kven­horm­ón meðan blóðfiturn­ar eru svona háar því slík meðferð eyk­ur lík­ur á hjarta- og æðasjúk­dóm­um.“
 
Þetta var hrik­lega skell­ur. Ég tók tvær vik­ur í sjálfs­vork­un og velti mér upp úr því hvað lífið er ógeðslega ósann­gjarnt. Ég er búin að taka lífstíl­inn í gegn. Ég er búin að vera hrik­lega dug­leg bæði í mataræði og hreyf­ingu og svo er þetta niðurstaðan. Al­veg sama hvað ég geri. Þetta HELV ko­lester­ól er alltaf til vand­ræða.

Svo tók ég eitt skref til baka. Ég rifjaði upp þegar ég tók 4ja mánaða Cle­an mataræði hjá Green­fit og svindlaði EKK­ERT. Ég var í full­komnu jafn­vægi bæði and­lega og lík­am­lega. Ég svaf eins og eng­ill og ko­lester­ólið lækkaði úr 8.2 í 6.7 á 4 mánuðum. Þetta var því auðleyst. Ég þarf ein­fald­lega að lifa svona út æv­ina. Þann 13.maí 2021 ákvað ég því að hætta að borða syk­ur. Hann ger­ir ekk­ert fyr­ir mig og er í raun lífs­hættu­leg­ur.

Okk­ar á milli þá var það ekki al­veg raun­hæft mark­mið. Syk­ur er ein­fald­lega út um allt og mig lang­ar stund­um að vera með hinum og fá mér tertusneið í brúðkaupi eða fara með dótt­ur minni á kaffi­hús án þess að fá sam­visku­bit dauðans. Eft­ir nokkra mánaða til­rauna­starfs­semi varð niðurstaðan að vera 90% Cle­an.

Hristu þetta af þér

Ég finn gíf­ur­leg­an mun á viðhorfi fólks hvort að ég er að glíma við sýni­legt tjón eða ósýni­legt. Ég hef tvisvar dottið á hjóli og lent í gifsi. Ég fékk mikla sam­kennd og fólk sýndi því mik­inn skiln­ing að ég vildi taka því ró­lega og sleppa hlaupa- og hjólaæf­ing­um. Samt er aug­ljóst að ég get al­veg hlaupið þó að ég sé í gifsi á ann­ari hend­inni, það er ekki eins og ég sé að fara í handa­hlaup? Hins veg­ar þegar horm­ón­in fara í rugl þá finnst fólki til­valið að ég hristi þetta af mér. Ég eigi að harka af mér. Ekki láta þetta hafa svona mik­il áhrif á mig. 

ERUÐ ÞIÐ AÐ FOKKA Í MÉR!!!

Ég nenni ekki einu sinni að vera kurt­eis leng­ur þegar kem­ur að þess­ari umræðu. Samt til að vera al­veg sann­gjörn hefði ég lík­lega veitt svipaða ráðgjöf áður en ég upp­lifði þetta á eig­in skinni. Það er mein­holt að lenda reglu­lega í smá krýs­um. Það ger­ir þig mann­legri og þú þróar meiri sam­kennd.

Það er lægð yfir kon­unni

Ég verð stund­um aðeins „off“ þegar það er lægð yfir land­inu. Það er svo hægt að taka þá til­finn­ingu og marg­falda hana með pí nokkr­um sinn­um þegar breyt­inga­skeiðslægðin skell­ur á. Hjá mér byrj­ar lægðin alltaf á því að ég verð svaka­lega döp­ur. Það hell­ist yfir mig von­leysi, orku­leysi, bug­un og gíf­ur­leg­ur ein­manna­leiki. Það er skrýtið hvernig þetta skell­ur á. Gær­dag­ur­inn var kannski al­veg frá­bær og svo vakn­ar þú með allt á horn­um þér og þessa yfirþyrm­andi óskil­greindu dep­urð, svona eins og þú sért al­ein í heim­in­um.

Það var mik­ill létt­ir þegar ég vissi hvað var í gangi. Þá var amk hægt að vinna í kring­um þetta. Mín leið til að díla við lægðirn­ar er að minnka um­fangið. Ég tek að mér færri verk­efni meðan þetta er að ganga yfir. Ég legg mig. Ég prjóna. Ég les góða bók. Ég fer út að hlaupa. Ég nýti tím­ann til að Kjarna mig og hlúa að mér. Ég minnka mig aðeins. Ekki mis­skilja mig samt. Ég má nú ekki við því að minnka mig, enda ekki nema 1.65 sm, hálf­gerður hobbiti. Ég hef aldrei verið há­vax­in, nema þegar ég bjó í Honduras, þá var ég há­vax­in og ljós­hærð og heyrði reglu­lega kallað á eft­ir mér á göt­um úti. Hey Barbie. Ég segi bara eins og Col­in vin­ur minn í Love Actually, ég er í raun ekk­ert lág­vax­in: „I’m just in the wrong cont­in­ent.“

Það var ansi margt sem ég sleppti á þessu ári. Ég varð pínu and­fé­lags­leg og treysti mér ekki í stór­ar æf­ing­ar og ferðalög. Ég sleppti öll­um hópaæf­ing­um með Land­vætt­in­um sem var eitt það skemmti­leg­asta sem ég gerði í fyrra skiptið. Ég reyni að vanda mig extra mikið í sam­skipt­um. Stund­um á ég erfitt með að greina á milli hvort að viðkom­andi sé virki­lega svona ósann­gjarn eða hvort að breyt­inga­skeiðið sé að skella á. Ég er mjög feg­in fyr­ir hönd kær­ast­ans að við búum ekki sam­an. Ég veit að ég er að fara í gegn­um snjóstorm núna og sem bet­ur fer er ég alltaf að læra bet­ur á mig og hvað ég get gert til að bæta mína líðan. Ég næ að stjórna þessu að mestu með hreyf­ingu og mataræði. Ef ég borða mik­inn syk­ur þá er ég næm­ari fyr­ir áreiti. Ef ég tek marg­ar álag­sæfing­ar þá er ég verri. Löng ró­leg hlaup henta mér bet­ur en stutt hröð hlaup.

Breyt­inga­skeiðið er furðulegt

50% af mann­kyn­inu þjást af þessu á ein­hverj­um tíma­punkti. Mjög mis­mikið. Sum­ar kon­ur fara mjög illa út úr breyt­inga­skeiðinu og aðrar finna varla fyr­ir þessu og svo eru það kon­ur eins og ég sem erum svona mitt á milli. Samt er rosa­lega lítið vitað um breyt­inga­skeiðið og því meira sem ég kynni mér málið því aug­ljós­ara er að kon­ur eru oft greind­ar með allskon­ar aðra kvilla áður en breyt­inga­skeiðið er kannað, sér­stak­lega yngri kon­ur sem passa ekki inn í ald­urs­kass­ann. Ég hefði mögu­lega ekki kveikt á per­unni strax ef ég hefði ekki verið búin að skipta um lífstíl. Ég þekki minn lík­ama mjög vel og er fljót að átta mig á því hvenær ég er off og hvenær ekki.

Ég á mína slæmu daga. Mér finnst stund­um al­veg glatað að þurfa að hugsa svona vel um mataræðið. Mér finnst glatað að al­veg sama hvað ég hreyfi mig mikið þá get ég ekki borðað allt sem mig lang­ar í þegar ég vil. Mér finnst líka glatað hvað syk­ur­púk­inn er fljót­ur að kveikja á sér. Fyr­ir mér er þetta samt ekki val. Með því að vanda mataræðið og hreyf­ing­una er ég heil­brigðari og í miklu betra jafn­vægi. Það geta liðið mánuðir án þess að ég finni fyr­ir ein­kenn­um breyt­inga­skeiðsins. Svo einn dag­inn skell­ur það á mér af full­um þunga og þá er bara að anda sig í gegn­um þetta. Tíma­bil­in verða alltaf styttri og stund­um er þetta bara dagspart­ur.

Cle­an­life.is

Ég og Axel Val­ur son­ur minn erum með mat­ar­blogg sem heit­ir því ein­falda nafni Cle­an­life.is. Það eru stærri framtíðar­plön fyr­ir þetta verk­efni en í dag læt ég duga að halda úti mat­ar­bloggi. Þarna set ég inn mat­seðlana mína og upp­skrift­ir sem við erum að þróa. Ég fæ mikið af hug­mynd­um af In­sta­gram og aðlaga þær svo að mínu mataræði. Því minni syk­ur sem ég borða því bet­ur líður mér og því sæt­ari finnst mér mat­ur. Strák­arn­ir mín­ir tala stund­um um að ég sé með gallaða bragðlauka því mér finnst allt dí­sætt í dag. 

Eru kon­ur að brenna yfir?

Mér finnst mikið um að kon­ur á mín­um aldri séu að brenna yfir. Þær eru með alltof mikið á sinni könnu. Um hvað ertu að tala Ásdís mín, þú ert nú held­ur bet­ur of­virk og ger­ir alltof mikið og sef­ur of lítið. Nei, alls ekki, það lít­ur kannski þannig út. Ég er í raun með 4 verk­efni. Fjöl­skyld­an, hreyf­ing, hvíld og vinn­an. Ég er ekki í námi með vinnu. Ég er ekki í neinni nefnd. Ég er ekki í neinu sjálf­boðastarfi af því að ég kemst ekki yfir meira en þessi fjög­ur verk­efni sem eru í al­gjör­um for­gangi hjá mér. Þau eru í raun öll jafn­mik­il­væg. Ég var einu sinni í allskon­ar nefnd­um og ráðum og með millj­ón og tvo bolta á lofti. Sá tími er liðinn og kem­ur von­andi aldrei aft­ur.

Má vera leiður?

Hvers vegna má ekki bara vera off? Hvers vegna þurf­um við alltaf að vera í lagi?
Eig­um við kannski að taka bara Lego Movie á þetta og all­ir eiga að vera AWESOME ALWAYS....

„Everything is awesome
Everything is cool when you're part of a team
Everything is awesome
When you're li­ving out a dream“

Mín reynsla að díla við til­finn­ing­ar er að ef ég leyfi þeim að flæða og bæli þær ekki niður þá geng­ur þetta fyrr yfir. Ef ég leyfi úrill­unni að sleppa út í staðinn fyr­ir að halda henni inni þá fer hún fyrr. Við göng­um öll í gegn­um allskon­ar áföll á lífs­leiðinni og hvers vegna ekki bara að leyfa okk­ur að eiga öm­ur­leg­an dag eða viku eða mánuð eft­ir til­efni. Það er held ég öll­um hollt að vera dap­ur og syrgja þegar eitt­hvað kem­ur upp á.

Ég út­skýrði þetta einu sinni fyr­ir vini mín­um sem fannst ég eitt­hvað pirruð og sagði: „Ekki sleppa úrill­unni út í and­rúms­loftið.“ Að ráðleggja pirraðri konu að slaka á er svipað og fara með flug­elda niður á bens­ín­stöð, henda þeim ofan í púðurtunnu við hliðina á bens­ín­dælu, kveikja í öllu drasl­inu og vona að það verði ekki spreng­ing.

2021 er árið sem ég notaði í að finna jafn­vægi og hvað virk­ar fyr­ir mig og hvað ekki. Ég hef hins veg­ar fulla trú á því að 2022 verði frá­bært ár og því er ég búin að skrá mig bæði í Maraþon og hálf­an Járn­karl á næsta ári.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda