Æskileg morgunrútína samkvæmt internetinu

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„Ég las pist­il frá Röggu nagla um dag­inn og varð stein­hissa hvað hún þekk­ir mig vel. Ég meina, við höf­um aldrei hist og ég held að hún viti ekki einu sinni hver ég er. En vá, hvað hún þekk­ir mig vel. Ég ákvað að taka þessu sem hrósi og las pist­il­inn spjald­anna á milli. Mér leið samt pínu eins og það væri verið að njósna um mig, því­lík lík­indi sem voru með pistl­in­um og mínu lífi. Þannig að ég ákvað að fara í sam­an­b­urðar­rann­sókn­ir á þess­um pistli og mínu lífi. Feitletraði frá Röggu og mitt svar kem­ur svo beint þarna und­ir,“ seg­ir Ásdís Ósk Vals­dótt­ir, fast­eigna­sali og miðaldra kona, í nýj­um pistli á Smartlandi: 

„Rumsk­ar í ró­leg­heit­um klukk­an fimm núll núll við vekj­ara­klukku sem lýs­ir rýmið smám sam­an og fugla­söng­ur ómar í hár­réttu desi­beli úr hátal­ar­an­um“

Ég vakna klukk­an fimm núll núll á virk­um dög­um við vekj­ara­klukk­una sem ég keypti hjá Nova. Elska hana, því að hún er svo ein­föld og nóg að snúa henni við til að slökkva á henni. Veit ekki hvort að hún hef­ur blund­takka þar sem ég vel að vakna þegar klukk­an hring­ir. Finnst heimsku­legt að blunda, þar sem þú ert að eyða klukku­tíma í að vakna, í staðinn fyr­ir að stilla klukk­una á þann tíma sem þú vilt vakna.

„Býrð um rúmið og hend­ir á rúm­tepp­inu sem var keypt í jóga­ferðinni til Ind­lands“

Ég bý um rúmið og set rúm­teppið sem ég keypti í Epal á rúmið og fjóra púða úr Ikea. Ég mun lík­lega aldrei eiga teppi frá Indlandi, þar sem mig hef­ur aldrei langað til Ind­lands. Það er hins veg­ar á óskalist­an­um að fara í jóga­ferð til Tæ­l­ands eða Bali og þegar ég fer þá mun ég pottþétt kaupa rúm­teppi úr líf­rænni bóm­ull sem er handofið í ná­lægu búddaklaustri og selt á markaði á staðnum. Á hverj­um morgni mun ég hlakka til að búa um rúmið mitt þar sem þetta teppi verður stút­fullt af minn­ing­um um frá­bæra ferð. Mér finnst a.m.k. svo góð til­finn­ing að sjá um­búið rúm þegar ég labba fram hjá svefn­her­berg­inu mínu. Læt­ur mér finn­ast að ég hafi byrjað dag­inn á því að klára eitt­hvað og að her­bergið taki vel á móti mér þegar ég fer að sofa.

„Skokk­ar glaðlega fram á baðher­bergi“

Ég geng inn á baðher­bergi. Það væri kjána­legt að skokka þangað, þar sem það eru ekki nema þrjú skref frá her­berg­inu mínu fram á baðið og ég tel það auka hætt­una á meiðslum að skokka áður en þú ert kom­in í gang. Eina skiptið sem ég skokka inn­an­húss er þegar ég vakna á und­an vekj­ara­klukk­unni minni og gleymi að snúa henni við. Ég veit að ég yrði seint val­in vin­sæl­asta mamm­an ef ég færi út að skokka og krakk­arn­ir myndu vakna við hana fimm núll núll á miðviku­degi. Ég sef reynd­ar út um helg­ar. Þá vakna ég yf­ir­leitt ekki fyrr en sjö núll núll nema það hafi verið eitt­hvert teiti kvöld­inu áður, þá sef ég stund­um til átta núll núll eða jafn­vel níu núll núll. Ég þarf ekk­ert að sofa leng­ur, þar sem ég fer yf­ir­leitt heim ekki seinna en eitt núll núll. Það ger­ist yf­ir­leitt ekk­ert markvert eft­ir eitt núll núll um helg­ar hvort sem er. Gall­inn við að drekka ekki áfengi er að þol­mörk­in fyr­ir þeim sem inn­byrða áfengi í miklu magni eru yf­ir­leitt gufuð upp, upp úr eitt núll núll.

„Stórt glas af ís­köldu vatni með kreistri sítr­ónu“

Ég byrja alltaf dag­inn á tveim­ur glös­um af köldu vatni, drekk svo tvö glös eft­ir að ég kem inn af æf­ingu og áður en ég fæ mér morg­un­mat, þá drekk ég eitt glas með víta­mín­un­um. Ég toppa þetta með því að fá mér sítr­ónu­vatn, kreisti hálfa sítr­ónu ofan í vatns­glas. Ég byrjaði alltaf dag­inn á sítr­ónu­vatni en svo áttaði ég mig á því að það er ótrú­lega gott að hita vatnið aðeins og taka lýsið með volgu sítr­ónu­vatni í staðinn fyr­ir að drekka djús. Mæli ein­dregið með því. Ég drekk yf­ir­leitt 3-4 l af vatni á dag og með morg­un­rútín­unni er ég yf­ir­leitt hálfnuð með vatnið. Al­gjör óþarfi að stressa sig á því að þetta sé hættu­legt. Ég er ennþá á lífi. Mögu­lega kem­ur samt í ljós að þetta á eft­ir að drepa mig. Ég las það hjá vini mín­um Google að ALL­IR sem drekka vatn munu á ein­hverj­um tíma­punkti deyja. ALL­IR.

„Bursta tenn­ur með kó­kost­ann­bursta og líf­rænu plast­lausu tann­kremi“

Þetta var ágæt­is áminn­ing að fara í Vist­veru og kaupa betri tann­bursta og tann­krem. Það tek­ur lík­lega jafn­lang­an tíma að bursta tenn­urn­ar með betri vör­um og það er betra fyr­ir um­hverfið. Ég er þekkt fyr­ir mikla tíma­stjórn­un og þegar ég þarf að fara í sér­versl­an­ir, kaupi ég yf­ir­leitt slatta og þarf því ekki að fara nema tvisvar á ári til að fylla á lag­er­inn.

„Hysja upp um sig þrýsti­bræk­ur og henda mann­brodd­um ut­an­yf­ir splunku­nýja Brooks hlaupa­skó og strappa höfuðljósið utan um flís­fóðraða buffið“

Ég nota ekki þrýsti­bræk­ur en á frá­bær­ar hlaupa­bux­ur frá NikeA­ir. Þær eru full­komn­ar, nógu hlýj­ar á vet­urna og samt nógu létt­ar fyr­ir sum­arið. Tveir stór­ir vas­ar á hliðunum fyr­ir síma og annað og svo vasi að aft­an fyr­ir lykl­ana. Einnig eru þær með bönd­um, þannig að þegar ég er extra mjó, detta þær ekki niður um mig. Ég á ekki alltaf splunku­nýja Brooks-skó en þegar ég er ný­bú­in að kaupa þá, þá jú, á ég splunku­nýja skó. Ég nota alltaf Brooks-hlaupa­skó á mal­biki, þar sem þetta eru einu skórn­ir sem ég fæ ekki bein­himnu­bólgu af og styðja samt vel við ilj­arn­ar á mér. Ég þarf ekki að nota höfuðljós því að þó að ég hlaupi snemma á morgn­ana þá er ég með upp­lýst­an hlaupa­stíg sem er full­kom­inn. Ég á ekki flís­fóðrað buff, verður of kalt með buff, en ég á fína húfu.

Þegar ég las þessa setn­ingu „mann­brodda utan yfir hlaupa­skó“ rann kalt vatn milli skinns og hör­unds. Hvenær var þessi pist­ill skrifaður? Ætli það sé ennþá leyfi­legt að vera á nagla­dekkj­um á þess­um árs­tíma eða yrði hlaup­ar­inn grip­inn af Gísla Marteini á Ægisíðunni og til­kynnt­ur til lög­reglu? Ég þarf sem bet­ur fer ekk­ert að hafa áhyggj­ur af því, þar sem ég bý í Kópa­vogi og það má vera á nögl­um í snjó. Hlaupa­skórn­ir mín­ir hafa ákveðinn líf­tíma. Ég kaupi mér yf­ir­leitt nýja ut­an­vega­skó að vori og stund­um duga þeir í 2 ár. Ég nota þá bæði í ut­an­vega­hlaup sem og fjall­göng­ur. Þegar botn­inn er far­inn að grípa illa, fer ég með þá í “Eins og Fæt­ur Toga” og læt negla þá. Það er svo mik­il snilld að eiga neglda hlaupa­skó. Virk­ar jafn­vel og brodd­ar en miklu létt­ari og þægi­legri.

„Út að skokka í hálf­tíma“

Eft­ir að ég fékk Covid hef ég þurft að breyta öll­um æf­ing­un­um mín­um og fór aft­ur til fortíðar. Ég þurfti að fara 3 ár aft­ur í tím­ann og bæði fækka æf­ing­um, stytta þær og minnka álagið. Núna er rútín­an þessi. Dag­ur 1 sund, dag­ur 2 hjól, dag­ur 3, hlaup og svo end­ur­tekið út mánuðinn. Ég tók út lyft­ing­ar og jóga, þar sem það var of mikið að taka 2 æf­ing­ar á dag. Mér finnst ég loks­ins vera kom­in á ágæt­isról og næ að lengja æf­ing­arn­ar ör­lítið á hverj­um degi. 

Ég er ennþá að æfa fyr­ir hálf­an járn­karl en ég er ekk­ert að stressa mig á þessu. Annað hvort get ég hann eða ekki. Ef ég get hann ekki þá er framund­an 10 daga stelpu­frí á Ítal­íu og ég get litið á ferðina sem und­ir­bún­ing fyr­ir næsta járn­karl, sem ég fer þá í eft­ir ár. Löngu hætt að stressa mig á svona smá­mun­um eins og hvort að ég geti klárað eitt­hvað sem ég ætlaði að gera. Ef þetta er ekki rétti tím­inn, þá kem­ur hann bara síðar. Í júlí ætla ég að bæta við jógat­eygj­um og einni fjall­göngu á viku og fara að taka göng­ur eft­ir hjólið til að venja lík­amann við að hreyfa sig eft­ir hjól. Í ág­úst ætla ég svo að bæta við dansappi þar sem dans er ein­fald­lega skemmti­leg­asta hreyf­ing­in sem ég veit um.

„Fara í ís­kalda sturtu eft­ir skokkið“

Fer ekki í kalda sturtu en er búin að setja á list­ann að fara á kæli­nám­skeið hjá Andra í haust eft­ir að ég klára járn­karl­inn. Þá reikna ég með að kald­ar sturt­ur verði hluti af mín­um lífs­stíl. Ég fer hins veg­ar alltaf í kalda pott­inn eft­ir sund og er kom­in í tvær mín­út­ur með það að mark­miði að geta setið í 10 mín­út­ur í kalda pott­in­um. Fín æf­ing fyr­ir kæli­nám­skeiðið. Ég hitti konu í kalda pott­in­um. Við tók­um upp spjall. Henni svelg­ist aðeins á þessu plani mínu. „10 mín­út­ur er alls ekki hollt. Nú sagði ég, hvers vegna er það. Það er bara of mikið. Of mikið hvernig? Hún hafði heyrt um eina konu sem fékk held ég bara hjarta­áfall við það að vera of lengi í kalda pott­in­um. Nú, sagði ég, var hún eitt­hvað veik fyr­ir? Nei, alls ekki, fór reglu­lega í sund“. Jú, jú, það er full­kom­inn mæli­kv­arði á heil­brigði að fara reglu­lega í sund. Ég elska að heyra þess­ar sög­ur. Sög­ur af al­heil­brigðu fólki sem dó þegar það fór út að hlaupa eða hjóla eða guð má vita hvað.

Eng­inn hafði áhyggj­ur af því þegar ég var 95 kg sófa­kartafla með óheil­brigðan lífstíl. Það kom eng­inn og sagði mér sög­ur af fólki sem var óheil­brigt og dó. Hins veg­ar, þegar ég fer yfir strikið í hreyf­ingu eða ein­hverju sem öðrum finnst klikkað, þá eru þess­ar sög­ur alltaf dregn­ar upp. Einu sinni heyrði ég sömu sög­una þris­var sinn­um í sömu vik­unni af mann­in­um sem fór út að hlaupa og dó. Ég velti því stund­um fyr­ir mér hver til­gang­ur­inn sé með þess­um sög­um. Mér er samt al­veg sama. Aðrir mega hafa all­ar þær skoðanir sem þeir vilja. Það er þeirra rétt­ur. Ef þú ert hins veg­ar sér­fræðing­ur í kulda og köld­um pott­um og get­ur komið með ein­hverja vís­inda­lega sönn­un, þá hlusta ég sann­ar­lega á þig. Þangað til brosi ég bara og segi: „Mér er al­veg sama“ Svo fór ég heim og googlaði þetta og Google seg­ir að allt að 15 mín­út­ur sé í fínu lagi.

„Smyrja hand­ar­krik­ana með mat­ar­sóda og kó­kosol­íu“

Hef ekki séð neina þörf á þessu, ég nota ekki einu sinni svitarolló.

„Löðra skrokk­inn með möndl­u­olíu“

Ég set oft góða olíu á mig beint eft­ir sturtu og þurrka hana svo af mér. Ég verð svaka­lega mjúk og fín eft­ir það og þetta tek­ur ekki nema eina mín­útu. Ég keypti góða Avoca­dool­íu í Krón­unni sem kost­ar ekki mikið og er ekki í gleri. Mæli ein­dregið með því að prófa.

„Sötra sell­e­rí­djús með macha-dufti, hör­fræj­um, spírúlína, hveitigrasi og haframjólk úr nýja Nutr­iN­inja-bland­ar­an­um“

Eitt af því fáa sem ég get ekki borðað er sell­e­rí. Finnst það eins og mold á bragðið. Ég fæ mér aldrei djús á morgn­ana. Ég byrja mína morgna annað hvort með góðri omm­lettu eða Chia­graut. Ég æfi mikið og þarf að borða mikið. Ein stærstu mis­tök sem fólk ger­ir varðandi heils­una er að borða of lítið. Eitt af því sem ég lærði í Cle­an hjá Green­fit var að drekka ekki ávext­ina mína, held­ur borða þá. Djús­ar eru ekk­ert endi­lega holl­ir. Svo er líka spurn­ing hvað þú borðar all­an dag­inn. Ef þú byrj­ar dag­inn á því að fá þér sell­e­rí­djús og færð þér svo pylsu og kók í há­deg­inu og Pizzu um kvöldið er það þá sniðugt? Mín leið til að vera í lagi er að vera með ákveðið mataræði. Ég finn gíf­ur­leg­an mun á bæði and­legri og lík­am­legri heilsu ef ég vanda mat­ar­valið. Það lærði ég hjá Green­fit og all­ar mæl­ing­ar sýna það.

„Jóga­dýn­an handof­in úr örtrefj­um af munk­um í Nepal, lögð á par­ket­lagt gólfið“

Jóga­dýn­an er keypt á Íslandi enda hef ég ekki ennþá farið til Nepal. Þegar ég fer til Nepal, þá er ég sann­færð um að ég kaupi mér eina handofna frá munk­um. Á mín­um bucketlista er að fara í klaust­ur í viku og stunda jóga, íhug­un og þagn­ar­bind­indi. Það yrði lík­lega stærsta áskor­un­in sem ég get tekið, sleppa sím­an­um og þegja í viku. Ef þú veist um gott klaust­ur máttu endi­lega senda mér skila­boð.

„Kveikja í reyk­elsi og brenna myrru“

Ég þoli ekki reyk­elsi eða myrru þannig að það er úti­lokað.

„Hug­leiða í hálf­tíma“

Ég hug­leiði ekki mikið. Mín hug­leiðsla er yf­ir­leitt fólg­in í því að fara út að ganga eða hlaupa ró­lega og hlusta á gott hlaðvarp, nú eða prjóna. Það er frá­bær hug­leiðsla fólg­in í því að prjóna.

„Leggj­ast á nýju nála­dýn­una úr Eir­bergi“

Ég elska nála­dýn­una frá Eir­bergi. Nota hana reynd­ar ekki oft, bara þegar ég fer í nudd þar sem nudd­ar­inn á svona dýnu og ég get vottað að hún los­ar ótrú­lega mikið um allt sam­an.

„Önd­un­aræf­ing­ar eft­ir formúlu frá fræg­um hol­lensk­um gúrú“

Þegar ég byrjaði að æfa hlaup hjá Green­fit þá var það fyrsta sem ég þurfti að bæta var önd­un. Með því að nota nefönd­un, þá bætti ég heils­una á all­an hátt. Ég sef bet­ur, ég hleyp bet­ur og mér líður bet­ur. Nefönd­un er allra meina bót og ég mæli ein­dregið með því að kynna sér það. Fullt af góðum hljóðbók­um um málið og einnig hægt að gúggla æf­ing­ar. Eft­ir síðasta próf hjá Green­fit sendi Már mér nokkr­ar önd­un­aræf­ing­ar til að iðka. Þær eru reynd­ar ennþá á bucketlist­an­um, fyr­ir­gefðu Már en ég get bara gert fáar breyt­ing­ar í einu.

„Hreyfiteygj­ur í lok­in“

Hreyfiteygj­ur eru nauðsyn­leg­ur hluti af mínu lífi. Ég fann að þegar ég var far­in að teygja reglu­lega varð nuddið ekki svona vont. Ég fór í hjóla­ferð til Spán­ar um dag­inn og nudd­ar­inn var heils­unudd­ari, sem var ný­bú­in að nudda danska hjólaliðið. Hún gaf mér topp­ein­kunn í liðleika og hreyf­an­leika og sagði að ég væri með húð eins og þrítug kona. Ég er 53 ára og elsti son­ur minn er 26 ára. Mér fannst þetta vera ansi góð meðmæli með mín­um lífstíl.

„Skrifa þrjá hluti sem gefa líf­inu gildi í þakk­læt­is­dag­bók­ina“

Ég skrifa ekki þakk­ar­dag­bók. Hins veg­ar er það síðasta sem ég geri áður en ég sofna er að þakka fyr­ir það sem var já­kvætt í dag. Ég áttaði mig á því að ég sef miklu bet­ur þegar ég er þakk­lát en þegar ég er stressuð og fylli haus­inn á mér með nei­kvæðum hugs­un­um.

„Vekja síðan börn­in blíðlega með kossi svo þau fari ekki í streitu­ástand“

Börn­in mín eru 13, 20 og 26. Strák­arn­ir myndu lík­lega fara í streitu­ástand ef ég færi inn til þeirra og vekti þá með kossi. Hins veg­ar tók ég eft­ir gíf­ur­leg­um mun á krökk­un­um þegar þau voru minni, hvort að ég vakti þau með VILJIÐI KOMA YKK­UR Á FÆTUR eða færi inn til þeirra, vekti þau ró­lega með kossi og knúsi og byrjaði dag­inn vel (ég var mun meira í fyrri pakk­an­um og skildi ekk­ert í því hvað börn­in voru öf­ug­snú­in á morgn­ana). Mæli með að prófa seinni aðferðina og sjá hverju hún skil­ar.

„Öll fjöl­skyld­an borðar hafra­graut úr glút­ein­laus­um höfr­um, heima­gerðri kasjúhnet­umjólk, með kanil frá Sri Lanka, líf­ræn­um epl­um og chia­fræj­um“

Þegar krakk­arn­ir voru yngri, þá var hefðbund­inn morg­un­mat­ur hjá þeim hafra­graut­ur með epl­um, kanil og rús­ín­um. Ég er nýhætt að kaupa vör­ur frá MS og þessi yngsta er al­veg til í að nota haframjólk í staðinn. Ég sá ein­mitt að það er kom­in vél til að búa til sína eig­in möndl­umjólk og er gíf­ur­lega spennt að prófa hana.

„Eng­ir sím­ar við mat­ar­borðið“

Við borðum á mjög mis­mun­andi tím­um þannig að þessi regla hef­ur ekki al­veg gengið upp. Ég nota yf­ir­leitt síma við morg­un­verðar­borðið en er alltaf á leiðinni að bæta mig. Það er bara drep­leiðin­legt að sitja ein við morg­un­verðar­borðið og tala við sjálfa sig. Samt var ég að lesa að við hefðum gott að því að láta okk­ur leiðast, þannig að kannski ætti ég að henda þessu á Bucketlist­ann, sef á þessu.

„Nestið fyr­ir börn­in til­búið. Heima­bakað rúg­brauð með avoca­do og harðsoðnu eggi pakkað í end­ur­nýt­an­leg­an vaxpapp­ír“

Mín vill helst ávexti og græn­meti í nesti. Ég set það í nest­is­box þar sem það er hægt að nota það aft­ur og aft­ur.

„Geng­ur frá leirtauinu í uppþvotta­vél­ina, þurrk­ar af borðinu, því það er svo gott að koma heim eft­ir vinnu í hreint eld­hús“

Guð minn góður já, var það sem ég hugsaði þarna. Það er dá­sam­legt að koma heim í hreint eld­hús.

„Villt­ur lax og brok­kolí í kvöld“

Lax og brokkóli er frá­bær kvöld­mat­ur.

Svo kom seinni hlut­inn og ég hrein­lega tengdi ekki við neitt í hon­um. Ég veit alltaf hvar bíllykl­arn­ir mín­ir eru, þeir eru í skúff­unni. Ég set upp mat­seðil fyr­ir vik­una og við versl­um inn sam­kvæmt inn­kaupal­ista. Ég klára meira að segja vinnu­dag­inn með því að setja upp planið fyr­ir morg­undag­inn. Æfing­arn­ar mín­ar eru líka í plani. Síðast þegar ég átti ekki hrein­ar nær­bux­ur var 1990, þegar ég og Re­bekka vin­kona mín fór­um í sex mánaða bak­poka­ferðalag um Suður-Am­er­íku og þvottaaðstaða var ekki á hverju strái. Reynd­ar er oft hægt að bjarga sér eins og í góðri á eða læk.

Ég fór út að ganga og hlustaði á hlaðvarp með Tim Grover og Tom Ferry. Tim Grover er al­gjör snill­ing­ur. Ég hitti hann fyrst á ráðstefnu 2018. Hann hef­ur þjálfað gíf­ur­lega marga toppíþrótta­menn og ég tengi ansi vel við það sem hann hef­ur að segja. Mitt tengslanet sam­an­stend­ur af fólki sem seg­ir ein­fald­lega: „Þú upp­skerð eins og þú sáir. Þú get­ur orðið allt sem þú vilt ef þú ein­fald­lega legg­ur inn vinn­una“. Ég veit hvað ég vil. Ég vil vera heil­brigð og ham­ingju­söm mann­eskja. Ég vil eiga gott sam­band við krakk­ana mína og mína nán­ustu. Ég vil ná mín­um mark­miðum, hvort sem það er í vinnu eða einka­lífi og ég vil eld­ast vel og geta gengið á Esj­una þegar ég verð átt­ræð. Ég næ ekki þeim mark­miðum með því að blunda vekj­ara­klukk­una mína eða fylgja plan­inu stund­um. Ég þarf að fylgja því alltaf. Michael Jor­d­an varð ekki best­ur með því að mæta stund­um á æf­ing­ar og gera lág­markið. Hann varð best­ur af því að hann ögraði sér og gerði meira en hann þurfti. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda