Um testósterón, trompið og að eldast frábærlega

Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Ágústa Johnson framkvæmdastjóri Hreyfingar. Ljósmynd/Ásta Kristjánsdóttir

„Vöðvarn­ir þjálfa sig ekki sjálf­ir. Ef við ekki þjálf­um þá sam­visku­sam­lega, rýrna þeir og all­ar lík­ur á að við koðnum niður smám sam­an. Því betri rækt sem við leggj­um við lík­amann, því bet­ur blómstr­ar hann og bæt­ir líf okk­ar og lífs­gæði,“ seg­ir Ágústa John­son fram­kvæmda­stjóri Hreyf­ing­ar í sín­um nýj­asta pistli á Smartlandi: 

Vöðvamassi er „brennslu­vef­ur“

Segja má að vöðvamassi sé upp­spretta lang­líf­is. Vöðvar eru und­ir­staða efna­skipta­heilsu, gegna fjöl­mörg­um mik­il­væg­um hlut­verk­um í lík­am­an­um auk þess að vera virk­ur „brennslu­vef­ur“. Því bet­ur sem þú þjálf­ar vöðvana, því ör­ari er grunn­brennsla lík­am­ans.  

Styrkt­arþjálf­un bæt­ir og breyt­ir líf­inu. Viltu geta leikið þér alla ævi, stundað úti­vist, klifið fjöll eða prófað eitt­hvað enn meira krefj­andi og æv­in­týra­legra?  Þú vilt vænt­an­lega að vöðvarn­ir þínir hafi það sem til þarf, svo þú get­ir gert allt það sem þig lang­ar að gera. 

Skipt­ir þig máli að hug­ur­inn sé skarp­ur, lík­am­inn sterk­ur, hraust­ur og til í allt, bakið beint, skref­in rösk, þrekið gott og fasið ung­legt, alla ævi?

Við vit­um að reglu­leg styrkt­arþjálf­un ásamt nægri próteinn­eyslu stuðlar að sterk­ari vöðvum, stælt­ari lík­ama, heil­brigðari sam­setn­ingu lík­am­ans, upp­bygg­ingu og meiri lífs­gæðum.  En þar með er síður en svo allt upp talið.

Heilsu­fars­leg­ur ágóði af reglu­leg­um styrktaræf­ing­um er ein­fald­lega gríðarleg­ur og ómet­an­leg­ur.  Það besta er,  sama á hvaða aldri þú ert, þá er aldrei of seint að byrja. 

Það kann að koma þér skemmti­lega á óvart að ...

  • Með mark­vissri styrkt­arþjálf­un eykst hæfni lík­am­ans. Hann vinn­ur t.d. bet­ur úr kol­vetn­um sem get­ur þ.a.l. verið for­vörn gegn syk­ur­sýki 2.

  • Skipu­leg­ar lyft­ing­ar geta viðhaldið og aukið testó­sterón­magn lík­am­ans sem ann­ars fer minnk­andi með aldr­in­um.

  • Virkni heil­ans efl­ist með því að setja reglu­lega álag á vöðva lík­am­ans.  Hver vill ekki hafa heil­ann í topp­formi?

  • Það er nóg að lyfta mark­visst í 20-30 mín 2x í viku til að upp­skera ár­ang­ur sem get­ur lengt líf þitt, bætt heilsu og lífs­gæði æv­ina út.

  • Þegar þú lyft­ir lóðum verða til nýir hvat­ber­ar í vöðvafrum­um. Vís­inda­menn telja að hvat­ber­ar (mitochondria) spili stórt hlut­verk í að hægja á öldrun, jafn­vel mun meira en áður var talið. Með reglu­leg­um lyft­ing­um stuðlum við að auk­inni fram­leiðslu nýrra vöðvafrumna í lík­am­an­um og bæt­um vefi lík­am­ans. M.ö.o. við end­ur­nýj­um vefi lík­am­ans hraðar en ella.

 

Vara­hlut­ir fást ekki á net­inu

Það blas­ir við okk­ur að við ætt­um öll að styrkja vöðva lík­am­ans með hnit­miðuðum hætti alla ævi. Styrkt­arþjálf­un er í raun leiðin til að halda okk­ur við eins og kost­ur er, ævi­langt. Sum­ir sinna viðhaldi heim­il­is­bíls­ins bet­ur en eig­in kroppi, sem er galið, því hægt er að kaupa nýj­an bíl en þessi eini skrokk­ur verður að duga okk­ur út lífið, vara­hluti pant­ar maður ekki á net­inu.

Við erum þó hepp­in, sumt sem miður fer af völd­um okk­ar eig­in lífs­stíls má e.t.v. laga að ein­hverju leyti með lyfj­um, en alls ekki allt. Heil­brigð skyn­semi seg­ir okk­ur að vita­skuld ætt­um við að gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til að rækta af alúð lík­ama og sál. Ljóst er að eng­inn get­ur gert það fyr­ir okk­ur.

Styrkt­arþjálf­un tromp­ar 

Eins og við vit­um eru mik­il­væg­ustu þætt­irn­ir góð nær­ing, næg­ur svefn og reglu­leg þjálf­un.  Fjöl­breytt þjálf­un er vissu­lega æski­leg­ust, bland af þol-, styrkt­ar-, liðleika- og jafn­væg­isæfing­um. En styrkt­arþjálf­un er „trompið“ ef svo má segja, og ætti að vera eins sjálf­sagður liður í líf­inu og að drekka vatn.  Með vel skipu­lagðri styrkt­arþjálf­un get­ur þú einnig þjálfað þol, liðleika og jafn­vægi.

Byrjaðu ró­lega og efldu þig smátt og smátt svo fyrr en var­ir áttu auðvelt með kröft­ug­ar 20-30 mín­útna styrktaræf­ing­ar 2-3x í viku.

Best­ur ár­ang­ur næst ef þú reyn­ir vel á þig, áreynsla er lyk­ill að fram­förum. Hvíld eða létt æf­ing er nauðsyn­leg dag­inn eft­ir lyft­ingaæf­ingu til að leyfa ónæmis­kerf­inu að vinna sína vinnu. Þegar þú hef­ur byggt þig upp nægi­lega ætt­irðu að prófa HIIT (High In­tensity In­terval Train­ing) æf­ing­ar eða stutt­ar mjög krefj­andi áreynslu lot­ur með hvíld á milli.  Rann­sókn­ir hafa sýnt að sé til­gang­ur­inn með æf­ing­un­um ein­fald­lega að viðhalda al­mennu hreysti og styrk er ekki þörf á 45-60 mín æf­ing­um.  Það dug­ar vel og gef­ur góðan ár­ang­ur að taka mark­viss­ar styttri æf­ing­ar með hressi­legri ákefð, hækka hjart­slátt og láta lík­amann finna fyr­ir álagi.

Ekki gera bara eitt­hvað

Njóttu lífs­ins til hins ýtr­asta, notaðu þenn­an eina lík­ama sem þú átt, styrktu hann á all­an máta fyr­ir lífið.

Tær­asta snilld­in er sú staðreynd að við get­um sjálf haft heil­mik­il áhrif, stuðlað að langri ævi við góða heilsu með virk­um lífs­stíl flesta daga árs­ins.

Leitaðu þér upp­lýs­inga hjá fag­fólki til að fá vel skipu­lagt styrktaræf­inga­kerfi sem hent­ar þér og vinn­ur með þína styrk­leika og veik­leika. Mættu í lyft­inga­sal­inn með vel sam­setta æf­inga­áætl­un. Flest­ir sem setja sam­an sín eig­in æf­inga­kerfi van­rækja æf­ing­arn­ar sem þeir þurfa mest á að halda. Þú ert EKKI ein/​n í þeirri stöðu að vita ekki hvernig á að bera sig að í tækja­sal. Leitaðu ráða hjá þjálf­ara.

Dragðu það ekki degi leng­ur, byrjaðu að lyfta lóðum strax í dag. Þú mátt til!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

ráðgjafi hjá Fyrsta skrefinu og umsjónarmaður Meðvirknipodcastsins

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda

fasteignasali svarar spurningum lesenda