„Dreymdi um að vera dánartilkynning“

Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.
Ásdís Ósk Valsdóttir fasteignasali og miðaldra kona.

„„Mamma get­ur þú komið og horft á mig keppa á Síma­mót­inu í staðinn fyr­ir að vinna,“ Sigrún Tinna 6 ára. 

„Mamma, mér finnst svo þreyt­andi þegar þú ert í sím­an­um þegar ég er að lesa fyr­ir þig á kvöld­in,“ sagði Sigrún Tinna 7 ára. 

„Mamma, það mættu all­ir for­eldr­arn­ir á fim­leikaæf­ing­una nema þú,“ sagði Sigrún Tinna 8 ára. 

Ég þjáðist af mömmu­visku­biti (sam­visku­biti mömmu sem er vinnualki) í mörg ár. Ég setti alltaf vinn­una í fyrsta sæti. Ég vinn sjálf­stætt og mér fannst ótrú­lega erfitt að segja nei við verk­efn­um. Mér fannst erfitt að setja mörk og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég var ekki viðstödd ein­hvern at­b­urð þó að ég væri á staðnum þar sem ég var með hug­ann við vinn­una eða jafn­vel að sinna vinn­unni,“ seg­ir Ásdís Ósk Vals­dótt­ir fast­eigna­sali og miðaldra kona í sín­um nýj­asta pistli: 

Upp­skrift af sjúk­legri streitu

Ég var kom­in með öll ein­kenni sjúk­legr­ar streitu þegar ég fór á fyr­ir­lest­ur hjá Dav­id Gogg­ins og hann mælti þessi fleygu orð:

„Ef ég læsi ævi­sögu þína, myndi hún hafa áhrif á mig?“ Ég renndi stutt­lega yfir síðustu ár og ára­tugi. Það var nú ekk­ert voðal­ega mikið sem myndi heilla mann­inn. Ég og vinn­an vor­um eitt. Ég var með mjög óheil­brigðan lífstíl. Ég borðaði á hlaup­um í næstu sjoppu og eina æf­ing­in sem ég fékk var að hlaupa á milli staða ef ég var að verða of sein á fund. Dæmi­gerður vinnu­dag­ur voru 10-12 tím­ar og svo þurfti að nota kvöld­in til að svara tölvu­póst­um. Þær voru ófá­ar helgarn­ar þar sem ég vann eitt­hvað báða dag­ana og fór svo örþreytt inn í vinnu­vik­una. Ég var þreytt, ég var orku­laus og það var ansi stutt­ur í mér þráður­inn og oft­ar en ekki kom ég heim úrill og pirruð og hafði enga þol­in­mæði í neitt meira. Vildi bara henda í mig mat og fleygja mér í sóf­ann.

Þessi orð Dav­id Gogg­ins fengu mig til að hugsa fram í tím­ann. Hvar verð ég eft­ir 10 ár ef ég held svona áfram. Sú framtíðar­sýn var ekki spenn­andi og ég gerði mér grein fyr­ir því að ég yrði að gera gíf­ur­leg­ar breyt­ing­ar á mínu lífi, bæði á einka­lífi sem og vinnu til að ég yrði ekki enn ein minn­ing­ar­grein­in um dug­lega fólkið sem dó á besta aldri. Ég hugsaði meira að segja: Hvað ætli börn­in mín myndu setja í minn­ing­ar­grein­ina. Mig grunaði að það yrði eitt­hvað á þessa leið. „Mamma var fín­asta kona, höld­um við. Við þekkt­um hana kannski ekk­ert svaka­lega mikið og hún var oft pirruð en hún var rosa­lega, rosa­lega dug­leg að vinna.“

Draum­ur að vera dán­ar­til­kynn­ing

Ég segi oft að Dav­id Gogg­ins hafi bjargað lífi mínu. Áður en ég fór á fyr­ir­lest­ur­inn hjá hon­um hafði ég ekki hug­mynd um á hversu slæm­um stað ég var. Þegar þú ert kom­in með stjórn­lausa streitu þá hugs­ar þú ekki alltaf rök­rétt. Ég man að það voru ófá skipt­in sem ég las Morg­un­blaðið og sá dán­ar­til­kynn­ing­ar og það fyrsta sem ég hugsaði: „Mikið svaka­lega er þetta friðsæll staður til að vera á. Það væri kannski bara ágætt að vera dán­ar­til­kynn­ing. Það er ekk­ert áreiti þarna, bara ei­líf­ur friður og ró“.

Þegur þú ert kom­in á botn­inn þá færðu líka allskon­ar rang­hug­mynd­ir í koll­inn eins og að það yrði lík­lega bara létt­ir fyr­ir aðra líka ef þú yrðir dán­ar­til­kynn­ing. Það tók mig mörg ár að vinda ofan af mér og breyt­ing­ar sem ég byrjaði 2017 eru ennþá í ferli. Ég náði þessu með því að setja mig í fyrsta sæti og hætta að hafa áhyggj­ur af því sem öðrum finnst því okk­ar á milli þá er í raun lang­flest­um skít­sama um þig og það besta sem þú get­ur gert fyr­ir þig er að hætta að hafa áhyggj­ur af skoðunum ann­ara.

Stöðugt síreiti

Eft­ir að ég tók þá ákvörðun að setja mig í fyrsta sæti fylgdu því allskon­ar vaxta­vext­ir eins og mér varð eig­in­lega bara al­veg skít­sama hvað öðrum finnst um mig (svona að mestu). Ég vinn aldrei á kvöld­in og mjög sjald­an um helg­ar. Ég vakna klukk­an 05:00 á virk­um dög­um til að æfa og fer snemma að stofa. Þegar ég bregð mér af bæ á kvöld­in þá nenni yf­ir­leitt ekki að ræða vinnu­mál og bið fólk að virða það. Það fer mis­vel í fólk. Ég hef aðeins verið að hugsa þetta. Hvers vegna á ég að þurfa að segja að ég nenni ekki að ræða vinn­una á kvöld­in? Hvers vegna er ekki eðli­legt að spyrja hvort það sé í lagi að spyrja vinnu­tengdr­ar spurn­ing­ar utan vinnu­tíma? Minn heit­asti draum­ur núna er að þetta sé næsta bylt­ing. Það verði skýr mörk á milli vinnu og einka­lífs og það verði jafn­fá­rán­legt að ætl­ast til þess að fólk svari vinnusím­tali eða email á kvöld­in eins og að reykja í bíó. Fyr­ir 20 árum þótti ekki taka því að kvarta yfir fulla kall­in­um í vinnustaðapartý­inu sem var að káfa á öll­um kon­um. „Æi, vertu ekki að þessu tuði, hann Jói er nú alltaf pínu fjölþreyf­inn þegar hann er í glasi. Hann mein­ar nú ekk­ert með þessu.“ Í dag er fulli kall­inn lát­inn víkja. Hver er með í næstu bylt­ingu um að setja skýr mörk á milli vinnu og einka­lífs og að það sé ekki eðli­legt að ætl­ast til þess að fólk sé aðgengi­legt í vinnu all­an sól­ar­hring­inn allt árið um kring?

Enda­laust aðgengi í nú­tíma­líf­inu

Ég fékk minn fyrsta gsm síma í 30 ára af­mæl­is­gjöf. Þetta var Nokia 5110 og með hon­um fylgdi einn síma­leik­ur, sá magnaði leik­ur Sna­ke. Hann var frá­bær því þú nennt­ir aldrei að spila hann lengi. Í dag erum við með síma sem eru of­ur­tölv­ur. Þeir eru stút­full­ir af allskon­ar öpp­um og leikj­um og við gæt­um eytt æv­inni með þeim og alltaf fundið eitt­hvað nýtt til að gera. Nýtt áreiti er bara eitt down­load away. Nokia 5110 var neyðarsími. Hann var notaður ef það þurfti að ná í mig í neyðar­til­fell­um. Það var bæði mjög dýrt að hringja í hann sem og úr hon­um og svo fannst mér þetta vera mik­il árás á einka­líf fólks að hringja í gsm sím­ann þeirra. Ég notaði alltaf heimasím­ann og hringdi bara í gsm ef ég þurfti lífs­nauðsyn­lega að ná í fólk. Núna á ég ekki heimasíma. Ég gerði til­raun um dag­inn. Ég slökkti á til­kynn­ing­um á öll­um öpp­um í sím­an­um og vá því­lík­ur mun­ur. Það næsta sem ég gerði var að slökkva á messenger  yfir eina helgi og það gekk svona glimr­andi vel. Eng­in áföll þannig að ég mun gera þetta reglu­lega héðan í frá.

Á mömmu­visku­bitið rétt á sér?

Þegar ég lít til baka þá er ekki hægt að gera allt. Það er ekki hægt að mæta á alla viðburði, vera alltaf til staðar og byggja upp fyr­ir­tæki. Í dag hef ég náð að beisla vinn­una og finna jafn­vægi milli einka­lífs og vinnu og ég er til staðar fyr­ir krakk­ana eins og þarf.

Það sem ég er að vinna í núna er að í hvert skipti sem „Face­book memories“ birt­ir minn­ingu sem kveik­ir á Mömmu­visku­bit­inu er að muna að það er ekki hægt að breyta fortíðinni. Þú get­ur bara lagað núið. Ég held að við séum of gjörn á að ein­blína á mis­tök­in sem við gerðum í fortíðinni og bíða eft­ir framtíðinni í staðinn fyr­ir að lifa í nú­inu. Ég veit að ég var að minnsta kosti þar og það hef­ur verið mik­il vinna að breyta því.  Ég þarf stöðugt að stoppa og minna mig á að dag­ur­inn í dag er það eina sem er í hendi.

Mér varð hugsað til dán­ar­til­kynn­inga­tíma­bils­ins um dag­inn þegar ég vaknaði og hugsaði, lífið er eig­in­lega 12 af 10. Það geng­ur allt frá­bær­lega. Auðvitað koma dag­ar þegar ég er ekki 12, kannski meira 2 en það er eðli­legt. Lífið er ekki Lego Movie þar sem allt er Æðis­legt (Everything is awesome). Það er hins veg­ar ekki eðli­legt að vera í stjórn­lausri streitu og vera búin að missa stjórn á aðstæðum.

Ein í regn­skógi um jól­in

Eft­ir að ég fór að vinda ofan af mér þá hef ég ekki al­veg nennt aðvent­unni. Mér finnst þetta alltof mikið auka­álag og  stress. Í  sum­ar tók ég því þá ákvörðun að sleppa bara jól­un­um og gera bara það sem ég nennti á aðvent­unni (les­ist lang­ar að gera). Ég pantaði mér 2ja vikna jóga­ferð til Costa Rica ein­hvers staðar í miðjum regn­skógi. Ég fer al­ein og mér finnst það pínu, nei mjög stress­andi. Ég kann ekki jóga en vona að þetta kveiki á mín­um innri jóga. Ég veit ekk­ert hvað er býður mín og sam­kvæmt veður­spánni virðist eiga að rigna all­an tím­ann. Ég keypti mér því hell­ing af garni og prjón­um og ætla að njóta þess að kjarna mig í 2 vik­ur og vera í nú­vit­und. Ég hef nokkr­um sinn­um hætt við ferðina í hausn­um á mér og einu sinni sagði ég við Vikt­or Loga son minn að ég væri hætt við að fara. Væri bara of stressuð fyr­ir þessa ferð. Hann var fljót­ur að sann­færa mig um að ég hefði mjög gott af því að fara í þessa ferð, sem er hár­rétt, og núna hlakka ég gíf­ur­lega til. Ég velti því samt fyr­ir mér hvort að hann hafi verið svona sann­fær­andi þar sem hann fórnaði sér til að sjá um húsið og bíl­inn á meðan ég væri í burtu.

Mitt mottó fyr­ir 2023 er að gera bara það sem mig lang­ar til að gera. Ekki gera neitt af skyldu­rækni eða kvöð. Halda áfram að minnka áreiti og lifa í nú­inu. Hver með memm í #Nessessu



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda