Engar rannsóknir sýna að sjósund sé gott fyrir húðina

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Er sjó­sund eða það að baða sig í köldu vatni gott fyr­ir húðina? Jenna Huld Ey­steins­dótt­ir húðlækn­ir á Húðlækna­stöðinni seg­ir að ekki sé vitað hvort það hafi góð áhrif á húðina því það vanti rann­sókn­ir til að full­yrða það.  

„Sjó­sund eða að baða sig í köldu vatni er alltaf að verða vin­sælla og vin­sælla hér á Íslandi og í lönd­un­um í kring­um okk­ur. Marg­ir full­yrða að þessi iðkun sé mjög heilsu­efl­andi og þá er oft­ast nefnt að hún styrki ónæmis­kerfið og hjarta- og æðakerfið, auki kyn­hvöt­ina, brenni kal­orí­um og dragi úr streitu og þung­lyndi. Þetta hljóm­ar allt mjög vel og nokkr­ar rann­sókn­ir til sem gefa viss­ar vís­bend­ing­ar um að þetta sé rétt. Það verður samt að segj­ast að sann­an­irn­ar eru því miður ekki mjög sterk­ar og það vant­ar sár­lega stór­ar slembi­rann­sókn­ir til að sýna fram á þessa kosti sjó­baða/​kaldra baða með óyggj­andi hætti,“ seg­ir Jenna Huld. 

Hún bend­ir á að mik­il æðaherp­ing verði í húðinni við það að fara út í kalt vatn. 

„Þétt bláæðanet ligg­ur í fitu­lag­inu þétt und­ir húðinni sem gegn­ir mjög mik­il­vægu hlut­verki í hita­stjórn­un lík­am­ans. Þetta bláæðanet er vel tengt háræðunum eða litlu æðunum sem liggja svo í leðurhúðinni sem við það að fara í kalt vatn eða kald­an sjó drag­ast sam­an til að koma í veg fyr­ir að við töp­um frek­ari hita úr lík­am­an­um. Ef þetta varn­ar­kerfi okk­ar dug­ar ekki til að halda uppi lík­ams­hita þá fer næsta varn­ar­kerfi í gang sem er skjálfti, það er að segja lík­am­inn fer að skjálfa þegar vöðvarn­ir fara að drag­ast sam­an ósjálfrátt til að fram­leiða hita. Skjálft­inn krefst mik­ill­ar orku frá lík­am­an­um og eyk­ur þar með efna­skipta­hraða lík­am­ans og hafa nokkr­ar rann­sókn­ir sýnt að við þetta ferli verður fitu­brennsla og þar af leiðandi þyngd­artap.  

Áhrif kuld­ans á húðina sjálfa hef­ur lítið sem ekk­ert verið rann­sakað en við vit­um út frá nokkr­um eldri rann­sókn­um að böðun í sjó eða salt­vatni hef­ur vissu­lega já­kvæð áhrif á húðina. Þekkt­asta dæmið okk­ar hér á Íslandi um sjó­vatn sem hef­ur góð áhrif á húðina er Bláa Lónið og úti í hinum stóra heimi er Dauða hafið mjög þekkt. Marg­ar klín­ísk­ar rann­sókn­ir hafa sannað lækn­inga­mátt þess­ara staða gegn bæði psori­asis og ex­emi.   Lækn­inga­mátt­ur­inn hef­ur þá helst fal­ist í salt­magn­inu og steinefn­un­um sem eru í miklu magni í vatn­inu, eins og magnesí­um, kalsíum, kís­ill og kalsíum, og líf­rík­inu. Sem dæmi þá hafa þör­ung­arn­ir í Bláa Lón­inu sýnt fram á mikla líf­virkni og já­kvæð áhrif á húðina. Ef við tök­um sam­an al­mennt hvaða já­kvæðu áhrif böðun í sjó­vatni hef­ur á húðina þá er það auk­inn raki í húðinni, mýkri húð, bólgu­eyðandi áhrif og einnig vís­bend­ing­ar um frumu­breyt­ing­ar sem fyr­ir­byggja öldrun húðar­inn­ar. Auðvitað eru þess­ar rann­sókn­ir gerðar á alls kon­ar sjóvötn­um og við margs kon­ar hita­stig og því óljóst hve mikið er hægt að yf­ir­færa yfir á kald­an sjó, en ættu kannski að geta gefið okk­ur vís­bend­ing­ar,“ seg­ir hún. 

Jenna Huld bend­ir á að það séu til rann­sókn­ir sem sýna að sjó­sund hafi slæm áhrif á húðina. 

„Einnig eru til rann­sókn­ir sem hafa sýnt fram á slæm áhrif sjó­sunds á húðina, til dæm­is eins og merki um aukna tíðni húðsýk­inga, augn­sýk­inga og fleira hjá þeim sem synda reglu­lega í sjón­um. Hafa þá verið get­gát­ur um það að sjó­sundið breyti bakt­eríuflóru húðar­inn­ar og veiki þannig varn­ar­kerfi henn­ar.  

Niðurstaðan er því í stuttu máli að við vit­um ekki með vissu hvort sjó­sund hafi góð áhrif á húðina, það vant­ar rann­sókn­ir til að full­yrða það. En það virðist al­veg vera þess virði að kanna nán­ar þar sem marg­ir sjóiðkend­ur full­yrða að sjó­sund hafi mjög góð áhrif á húðina sína,“ seg­ir Jenna Huld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda