„Sjúkdómar taka ekki sumarfrí“

Valgeir Magnússon skrifar um heilbrigðiskrefið og andlega sjúkdóma í nýjum …
Valgeir Magnússon skrifar um heilbrigðiskrefið og andlega sjúkdóma í nýjum pistli. Samsett mynd

Val­geir Magnús­son viðskipta- og hag­fræðing­ur skrif­ar um heil­brigðis­kerfið og and­lega sjúk­dóma í nýj­um pistli þar sem hann seg­ir mik­il­vægt að hugsa hlut­ina upp á nýtt.

„Því miður þá verð ég að segja þér að þú ert með krabba­mein á þriðja stigi og ef ekk­ert verður að gert núna þá er ekki aft­ur snúið. Það verður að hefja meðferð núna strax. En því miður verð ég líka að segja þér að það er ekki hægt. Krabba­meins­deild­in fer nefni­lega í frí all­an júlí og fyrstu vik­una í ág­úst. Við verðum því bara að vona það besta og það verði ekki of seint að hefja meðferð um miðjan ág­úst.“

Hvað mynd­um við segja ef við fengj­um svona mót­tök­ur á krabba­meins­deild­inni? Ég er viss um að eng­in myndi sætta sig við þetta enda fer krabba­mein ekki í frí frek­ar en aðrir sjúk­dóm­ar. En því miður þá eru sum­ir sem halda að and­leg­ir sjúk­dóm­ar fari í frí á sumr­in. Alkó­hólist­ar og aðrir fíkl­ar verða að tóra sum­arið og vona að þeir haldi lífi til að geta hafið sín­ar meðferðir í ág­úst ef þeir kom­ast að því biðlist­inn leng­ist veru­lega á sumr­in.

Fíkni­sjúk­dóm­ar drepa flesta, eyðileggja flest líf og valda mest­um skaða í sam­fé­lag­inu í dag. Samt sem áður er ein­hver sem ákveður að það sé í lagi að meðferðir við þess­um sjúk­dómi geti farið í sum­ar­frí í 5 til 6 vik­ur af því það hent­ar best kostnaðarlega. Þetta sé hvort sem er sjúk­dóm­ur sem fólk vel­ur að hafa og því sé best að láta áhuga­sam­tök um alla meðferð og skammta þeim bara fyr­ir hluta þeirra sjúk­linga sem þurfa hjálp. En „al­vöru sjúk­dóm­ar“ fá allt öðru­vísi meðhöndl­un. Þar eru „al­vöru lækn­ar“ að lækna og það inni á al­vöru spít­ala. Það er eins og Saxi lækn­ir hafi ákveðið hvernig þetta á allt að vera. „Það er aldrei neitt al­menni­legt að þér,“ sagði Saxi. Þannig eru skila­boðin sem heil­brigðis­kerfi Íslands send­ir þeim 10% lands­manna sem haldn­ir eru fíkni­sjúk­dómi, ban­væn­asta sjúk­dómi ver­ald­ar í dag. Hann er víst ekki al­menni­leg­ur sjúk­dóm­ur enda ekki hægt að lækna hann með pill­um eða upp­skurði.

Á síðasta ári hófst fentýlfar­ald­ur í Banda­ríkj­un­um og er að breiðast yfir heim­inn. Yfir 100.000 manns lét­ust þar í landi árið 2022 vegna of­neyslu fíkni­efna og aldrei hafa jafn marg­ir látið lífið á Íslandi vegna of­neyslu lyfja og í ár. Þetta er að megn­inu til ungt fólk sem fær aldrei að reyna lífið og aðstand­end­ur standa eft­ir í sár­um yfir þeirri framtíð sem glataðist. Sjá aldrei unga fólkið þrosk­ast og verða sjálft að for­eldr­um. Halda á barna­barn­inu, hjálpa ungu for­eldr­un­um og koma sér af stað inn í full­orðins­lífið.

Ég hef sem bet­ur fer ekki upp­lifað þann sára missi sem það hlýt­ur að vera að missa barn og geta ekk­ert gert til að hjálpa viðkom­andi að snúa af þeirri braut sem það er á. Því þegar fík­ill­inn er við stjórn­völ­inn, þá er ekk­ert hægt að gera annað en vona og vera til staðar. Bíða átekta þar til fík­ill­inn er til­bú­inn og vona að það verði ekki að vori því hann gæti verið hætt­ur við þegar loks kem­ur að því að viðkom­andi kom­ist inn. Því þegar fík­ill­inn er bú­inn að taka ákvörðun um að fara í meðferð, þá byrj­ar erfiðasti tím­inn. Upp­gjöf­in er kom­in en meðferðin hef­ur ekki haf­ist. Biðlist­inn er dauðans al­vara og það er þá sem fólk oft á tíðum miss­ir allt. Eig­urn­ar, fjöl­skyld­una, ær­una. Tjónið sem fólk með fíkni­sjúk­dóma valda á þeim tíma sem þau eru á biðlista eru ómæl­an­leg hvort held­ur sem er í fjár­hæðum eða til­finn­inga­lega. Ég tel mig lán­sam­an að vera aðstand­andi alkó­hólista í bata, það er góður tími en ég finn til með öll­um sem ekki eru jafn lán­sam­ir og ég á þess­um erfiðu tím­um.

Sýndu mér frelsið flögrandi af ást

Falið bakvið riml­ana hvar sál­irn­ar þjást

Og nöfn­in sem hjartað hafði löng­um gleymt

Haltu fast í draum­inn sem þig hafði eitt sinn dreymt

Þetta syng­ur Bubbi Mort­hens, en hann hef­ur sungið í fleiri jarðaför­um ungs fólks í ár en nokkru sinni fyrr.

Ég skora á Will­um Þór heil­brigðisráðherra að taka þessi mál upp sem mik­il­væg­ustu áskor­un þjóðar­inn­ar næstu árin í heil­brigðismál­um. Það þarf að hugsa hlut­ina upp á nýtt. Þar sem ég bý í Nor­egi þessa dag­ana sé ég hvernig mál­in eru gerð þar. Þar er t.d. af­vötn­un á sjúkra­hús­um og inn­an sama kerf­is og aðrir sjúk­dóm­ar. Eft­ir það taka önn­ur sam­tök við með það sem við köll­um eft­ir­meðferð, en þar er það bara kallað meðferð. Heim­ur­inn er full­ur af góðum hug­mynd­um. Nú ligg­ur á að finna þær bestu og gera þær að okk­ar og vera til fyr­ir­mynd­ar í þess­um mál­um eins og okk­ur hef­ur tek­ist að vera til fyr­ir­mynd­ar í svo mörgu öðru.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda