Erla Kolbrúnardóttir hefur um árabil glímt við matarfíkn og varð hún fyrir einelti vegna þyngdar á ungdómsárum sínum. Erla hefur unnið mikla sjálfsvinnu síðastliðin ár og er í dag í endurhæfingu á efnaskipta- og offitusviði Reykjalundar, en þar er unnið við að aðstoða einstaklinga við að bæta og skipuleggja lífshætti sína og fæðuvenjur.
Erla hefur komið sér vel fyrir á Dalvík og býr þar í dag ásamt sambýlismanni sínum, Ágústi Bjarka Sigurðssyni. Hún starfar á íbúðakjarna fyrir fatlaða og leggur stund á nám í þroskaþjálfafræði við Háskóla Íslands, en hún á sér stóra drauma, vonir og væntingar um framtíðina.
Erla segist ekki geta bent nákvæmlega á það hvenær hennar fíkn byrjaði en að hún hafi ekki verið mjög gömul þegar hún byrjaði að leita í mat og sætindi til að deyfa ákveðnar tilfinningar. „Ég var mjög ung þegar ég fór að sækjast í mat og borða á þeim tímum sem mér leið illa,“ útskýrir hún.
„Það tók alls ekki langan tíma að þróa með mér óheilbrigt samband við mat, ég var með mat á heilanum,“ segir hún.
Foreldrar Erlu skildu þegar hún var átta ára gömul og hefur hún lítið átt í samskiptum við föður sinn síðan. Bernskudagarnir reyndust henni oft og tíðum erfiðir og kyntu undir erfiðleika hennar með mat.
„Ég fékk reglulega að heyra að ég væri feita stelpan í bekknum og skólanum. Það var á þessum tíma að ég byrjaði að þróa með mér matarfíkn og átröskun. Sjálf var ég mjög meðvituð um að ég væri of þung, en nokkrum skólafélögum mínum fannst mjög mikilvægt að minna mig á það, reglulega,“ segir Erla, en afleiðingar eineltis og æskuáfalla hafa fylgt henni úr barnæsku fram á fullorðinsár.
Hvernig var samband þitt við mat á uppvaxtarárunum?
„Móðir mín, Kolbrún Kristín Daníelsdóttir, er mjög fær matreiðslumeistari með yfir 40 ára reynslu úr veitingabransanum og ólst ég þar af leiðandi upp við myndarskap í eldhúsinu, það vantaði ekki,“ útskýrir Erla.
„Samband mitt við mat breyttist á unglingsárunum þegar ég byrjaði að þéna peninga og fór að geta keypt mér sælgæti og annað sem mig langaði í. Það sem ég keypti borðaði ég einsömul og í einni atrennu þegar enginn sá til mín,“ segir hún, en Erla faldi sælgætisumbúðirnar hingað og þangað þar sem hún skammaðist sín fyrir að vera að borða sælgæti á virkum dögum eða fyrir magnið sem hún innbyrti hverju sinni.
Aðeins 16 ára gömul flutti hún að heiman og inn á heimavist Menntaskólans að Laugarvatni. Óheft frelsið þar reyndist henni dýrkeypt þar sem matarfíknin ágerðist út í mjög alvarlega fíkn.
„Ég missti tökin þegar ég flutti á Laugarvatn. Þarna var ég ein á viðkvæmum aldri og undir niðri kraumaði mikil reiði og kvíði sem ég hafði ekki náð að vinna úr,“ segir Erla. „Þarna var ég ein að sjá um innkaupin og keypti allt sem ég vildi borða og hámaði það,“ útskýrir hún. Aðspurð segir Erla þetta hafa verið eilífan og oft á tíðum yfirstíganlegan vítahring þar sem hún endaði á að svelta sig eftir hámið aðeins til að endurtaka „leikinn“ skömmu síðar.
„Þetta var leikþáttur og matur var skömm,“ segir Erla, en það var á 18. aldursári þegar hún viðurkenndi loks fyrir sjálfri sér að hún væri matarfíkill. „Já, ég glími við matarfíkn og það lýsir sér í ofneyslu matar. Þegar mér líður illa þá get ég ómögulega slökkt á matarlönguninni. Ég hef keyrt langar vegalengdir eftir sælgæti, snakki og skyndibita,“ útskýrir Erla, en það sem fæstir vita er að matarfíkn er geðræn truflun og því mikilvægt að leita sér aðstoðar.
Aðspurð segist Erla hafa reynt alla megrunarkúra undir sólinni og því ákveðið að leita til heimilislæknis. „Fyrir tveimur árum varð einhver vitundarvakning og ég fór að sjá enn betur hversu óeðlilegt og óheilbrigt samband mitt við mat var. Á þeim tíma hafði ég ekki hugmynd um að ég væri að glíma við átröskun en vissi vel að ég væri matarfíkill,“ segir Erla.
„Ég pantaði mér tíma hjá heimilislækni sem ráðlagði mér að prófa Saxenda,“ útskýrir hún. Lyfið stuðlar að þyngdartapi og virkar með því að hafa áhrif á viðtaka í heilanum sem stjórna matarlystinni og veldur því að þú finnur fyrir seddutilfinningu og minna hungri. „Það gerði ekkert fyrir mig enda var átröskunin búin að eyðileggja efnaskiptin í líkamanum,“ segir Erla.
Í nóvember á síðasta ári heimsótti hún lækninn á ný þar sem henni fannst hún komin á ákveðna endastöð. „Það var þá sem ég var kynnt fyrir prógramminu hjá Reykjalundi,“ segir Erla, en frá byrjun árs 2001 hefur offituteymi verið starfrækt á heilbrigðisstofnuninni.
„Sjálf vildi ég forvitnast um efnaskiptaaðgerð en læknirinn, sem hefur reynst mér gríðarlega vel, taldi það skynsamlegra að ég fengi hjálp við meininu í höfðinu áður en ég færi að gangast undir aðgerð út af aukakílóum,“ útskýrir Erla, en sjálf segir hún aðgerðina hafa verið einu útgönguleiðina sem hún sá á þeim tíma.
Erla fór í viðtal á Reykjalundi í júní og í innlögn í ágúst. „Ég var hrikalega hrædd og stressuð, vissi ekkert við hverju ég átti að búast,“ útskýrir Erla.
Hvernig er samband þitt við mat í dag?
„Eins og staðan er í dag þá er ég að fá aðstoð við matarfíkninni og átröskuninni sem ég er greind með. Ég tel mig vera í bata, en mér hefur gengið vel síðustu vikur að rétta mig af, hvað varðar matarvenjur, borða reglulega yfir daginn og átköstunum hefur fækkað,“ segir Erla.
„Ég borða allan mat, það eru engin boð og bönn. Á Reykjalundi er ég að læra að þróa heilbrigt samband við allan mat. Ég er á byrjunarreit á minni vegferð, á langt í land og veit að ég er ekki „læknuð“, en ég mun halda áfram að vinna í mínum málum,“ útskýrir hún.
Erla segir þessar síðustu vikur hjá Reykjalundi hafa verið sér ómetanlegar en hún hefur sótt ýmis námskeið og hitt fólk í svipuðum sporum með álíka reynslusögur.
„Fagfólkið á Reykjalundi einblínir á að komast að rót vandans. Ég fór á frábært námskeið sem kallast „Svengdarvitund“ en þar fær maður meðal annars að kynnast magamálinu og skilja hvað liggur að baki þessum eilífu matarhugsununum,“ segir Erla.
Hvað er þitt helsta markmið?
„Ég vil eiga heilbrigt samband við mat og hreyfingu án þess að spá í því hvað stendur á vigtinni. Ég vil geta öðlast þetta samband og viðhaldið því út ævina, óháð þyngd eða útliti,“ segir hún.
Erla segist vera með það á bak við eyrað að fara í efnaskiptaaðgerð á vegum Reykjalundar en ekki fyrr en hún hefur heilað meinið í höfðinu. „Sjálf treysti ég mér ekki í aðgerð fyrr en ég er komin á rétt spor,“ útskýrir Erla. „Maður verður að borða, ég þarf að læra að borða rétt.“