Það þarf að hætta að tala karlmenn og karlmennsku niður

Beggi Ólafs er ánægður með lífið í Bandaríkjunum.
Beggi Ólafs er ánægður með lífið í Bandaríkjunum. mbl.is/Árni Sæberg

Berg­sveinn Ólafs­son doktorsnemi seg­ist elska líf sitt í Kali­forn­íu, þar sem hann stund­ar doktors­nám. Berg­sveinn, sem er nýj­asti gest­ur­inn í podcasti Sölva Tryggva­son­ar þurfti tíma til að aðlag­ast líf­inu í Los Ang­eles, en fær nú reglu­lega óraun­veru­leika­kennd yfir því hve þakk­lát­ur og ánægður hann sé með lífið:

„Ég sakna Íslands stund­um og hlut­anna sem ég var að gera hér heima, en lífið í Los Ang­eles er frá­bært. Það var erfitt að hætta að gera hlut­ina sem ég gerði á Íslandi og þurfa að byrja að klífa fjallið al­veg frá byrj­un­ar­reit aft­ur þegar ég kom út. Þannig að það tók mig tíma að aðlag­ast og efla fé­lagsnetið, en eft­ir því sem tím­inn líður kann ég alltaf bet­ur og bet­ur við mig. Banda­rík­in eru auðvitað gríðarlega ólík Íslandi og það er margt í hug­ar­far­inu sem er mjög ólíkt því sem við eig­um að venj­ast. En und­an­farið hef ég átt daga þar sem ég er að æfa úti á morgn­ana við sól­ar­upp­rás og fer svo í sjó­inn og hrein­lega get ekki hætt að hugsa um hvað ég sé gríðarlega þakk­lát­ur og hepp­inn að fá að búa í Kali­forn­íu og vera að gera hluti sem ég elska. Ég fæ reglu­lega óraun­veru­leika­til­finn­ingu yfir því hvað líf mitt er frá­bært og hvað ég er þakk­lát­ur fyr­ir það. Það er hægt að finna allt í Los Ang­eles og lífs­gæðin eru mik­il. Mig hafði alltaf langað að kynn­ast ann­arri menn­ingu og búa ann­ars staðar en á Íslandi til að þrosk­ast og reyna meira á mig. Skól­inn sem ég er í er einn sá öfl­ug­asti sem til er og ég er stans­laust að læra eitt­hvað nýtt.“

„Ég stend við allt það sem ég segi“

Beggi hef­ur vakið at­hygli fyr­ir af­stöðu sína og umræðu um karl­mennsku á sam­fé­lags­miðlum og í viðtöl­um. Hann seg­ist ekki taka það inn á sig þó að ákveðinn hóp­ur ráðist á sig á net­inu:

„Ég er löngu kom­inn á þann stað að vita hver ég er og vita hverj­um ég á að taka mark á. Mér er ekki sama um það hvað fólki sem ég treysti og virði finnst um mig, en er al­veg laus við að láta það trufla mig hvað ein­hverj­ir lykla­borðsridd­ar­ar segja. Það var ákveðinn hóp­ur sem fór al­veg á lím­ing­un­um þegar ég tjáði mig um karl­mennsku fyr­ir ekki svo löngu. Ég átti að vera orðinn ís­lensk­ur Andrew Tate og bara stórskaðleg­ur maður. Ég tók þetta ekki inn á mig, enda veit ég al­veg hver ég er og hvað ég stend fyr­ir. Ég stend við allt það sem ég segi og myndi segja þetta aft­ur í dag. Það er hæpið að ég væri á skóla­styrk í há­skóla sem er lengst til vinstri, val­inn nýliði árs­ins og að stjórna rann­sókn­ar­stofu ef ég væri skaðleg­ur öfgamaður,“ seg­ir Beggi, sem seg­ist ekki hika við að segja sinn sann­leika, enda sé það eina leiðin til að lifa líf­inu:

„Þú þarft ekki stöðugt að reyna að muna hvað þú seg­ir ef þú seg­ir bara satt. Það get­ur vel verið að það mis­líki það ein­hverj­um, en þá veit fólk alla­vega hvar það hef­ur þig og það fylg­ir því mikið frelsi að vera heiðarleg­ur. Það er ákveðið æv­in­týri að þora að segja sinn sann­leika op­in­ber­lega og sleppa tök­um af því hvað fólki finnst um það. Það eyk­ur líka lík­urn­ar á því að þú fest­ist inn í ein­hverri hug­mynda­fræði þar sem þú verður að hafa ákveðnar skoðanir í öll­um mál­um og hætt­ir í raun og veru að hlusta á þína eig­in rödd. Sam­fé­lagið yrði mjög furðulegt og vont ef all­ir væru alltaf sam­mála.“

Þarf að ná til ungra karl­manna

Beggi seg­ir að það sé rangt að senda þau skila­boð til ungra karl­manna að þeir séu ómögu­leg­ir þar til annað komi í ljós:

„Það er eins og það megi ekki hvetja karl­menn í dag og skila­boðin eru aðallega að þeir verði að breyta sér, sinni ekki mik­il­vægu hlut­verki í sam­fé­lag­inu og að við þurf­um ekki á þeim að halda. Ég vil að við send­um þau skila­boð út í sam­fé­lagið að karl­mennska sé dyggð og það sé já­kvætt að vera sterk­ur og taka ábyrgð, hafa sýn á framtíðina og sterk­an til­gang,“ seg­ir Beggi, sem bend­ir á að það halli víða á karl­menn og það þurfi að taka umræðuna á öðrum nót­um en að ann­ar hver karl­maður sé eitraður:

„Mér finnst karl­mennska mjög heill­andi og það er ekki hægt að banna fólki að tala á þeim nót­um. Karl­mennska er meðal ann­ars að vera hug­rakk­ur, dug­leg­ur, taka ábyrgð og vera heiðarleg­ur og það þarf að tala þessa þætti upp, en ekki niður. Staðan er sú að karl­menn standa sig verr í öll­um fög­um í skóla, eru miklu ólík­legri til að ná grunn­hæfni í lestri, skrift og vís­ind­um. Við vit­um að stór hluti stráka er í raun ólæs eft­ir tí­unda bekk. Það þarf að ná til ungra karl­manna og tala þá upp en ekki niður. Umræðan hef­ur mest­megn­is verið á þann veg að það sé eitt­hvað að karl­mönn­um og þeir sem voga sér að tala öðru­vísi fá á sig reiði frá há­vær­um minni­hluta­hópi af lykla­borðsridd­ur­um. Mikið af ung­um karl­mönn­um eru að basla og þurfa á því að halda að stál­inu sé stappað í þá, en ekki að það sé stans­laust verið að tala þá niður.“

Hægt er að hlusta á brot úr þátt­um Sölva á hlaðvarpsvef mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda