„Ég var bölvaður sykurfíkill, alltaf að éta sætindi“

Ragnar Ingi Aðalsteinsson hætti að borða dýraafurðir árið 1985.
Ragnar Ingi Aðalsteinsson hætti að borða dýraafurðir árið 1985. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er orðinn 80 ára og um það verður ekk­ert deilt,“ seg­ir Ragn­ar Ingi Aðal­steins­son, fróðleiksmaður á ljóð og sög­ur og áhugamaður um lífs­ins gleðigjaf­ir. Hann byrjaði nýja árið á háu nót­un­um og fagnaði átt­ræðisaf­mæli sínu hinn 15. janú­ar með pompi og prakt.

Ragn­ar Ingi umbreytti lífi sínu með hreinu mataræði og hreyf­ingu fyr­ir nokkr­um ára­tug­um og held­ur nú full­ur til­hlökk­un­ar inn í nýj­an tug og þakk­ar lífs­stíl án dýra­af­urða, syk­urs, koff­íns og áfeng­is fyr­ir heilsu sína og vellíðan og seg­ir það bestu af­mæl­is­gjöf­ina.

Ekk­ert að hægja á sér

Ragn­ar Ingi, menntaður brag­fræðing­ur, hef­ur komið víða við á langri starfsævi og miðlað þekk­ingu sinni til nem­enda í fjölda­mörg ár. Hann starfaði sem aðjunkt eða eins og hann kýs að kalla það „kennsluþræll“ við Há­skóla Íslands í 12 ár ásamt eig­in­konu sinni, Sig­ur­línu Davíðsdótt­ur, fyrr­ver­andi pró­fess­or við fé­lags­vís­inda- og síðar menntavís­inda­deild, en hjón­in kenndu við sömu deild síðustu árin.

Í dag starfar Ragn­ar Ingi sem rit­stjóri. Hann gef­ur úr tíma­ritið Stuðlaberg, helgað hefðbund­inni ljóðlist og brag­fræði. „Ég hef ógur­lega gam­an af þessu og þetta hjálp­ar að halda heil­an­um skörp­um,“ seg­ir hann, en Ragn­ar Ingi hef­ur eng­in áform um að setj­ast í helg­an stein né hægja á sér á næst­unni, enda í topp­formi, lík­am­lega og and­lega.

Hann gerðist grænkeri á miðjum átt­unda ára­tugn­um og hef­ur ekki brugðið út af van­an­um síðan, ef svo má segja, enda sjálf­sagður þverþaus.

Hvað varð til þess að þú gerðist grænkeri?

„Ég hafði lengi haft það á til­finn­ing­unni að þetta væri betra fyr­ir mig og við hjón­in ákváðum að stökkva á vagn­inn og það var vorið 1985. Við vor­um bæði kom­in með nóg af neyslu dýra­af­urða og hef ég hvorki bragðað á kjöti né öðrum dýra­af­urðum síðan. Eig­in­kon­an hef­ur aðeins farið aft­ur í fisk­inn en sjálf­ur hef ég verið mjög harður og kýs aðeins að borða það sem er holl­ast fyr­ir mann og hef nú þróað með mér hálf­gerða dellu,“ seg­ir hann og hlær.

Þrátt fyr­ir að vera grænkeri til margra ára viður­kenn­ir Ragn­ar Ingi að þekkja ekki al­veg mun­inn þegar kem­ur að grænkera og græn­met­isætu. „Ég verð bara að viður­kenna að ég man aldrei hvað þetta þýðir. Hvenær er maður grænkeri? Og hvenær er maður græn­met­isæta? Ég veit bara að ég borða ekki kjöt, fisk og eng­ar dýra­af­urðir og hef ekki gert í ár­araðir.“ 

Lærði mik­il­væga lex­íu í meðferð

Ragn­ar Ingi kvaddi ekki aðeins kjöt, fisk og aðrar dýra­af­urðir fyr­ir tæp­lega 40 árum held­ur tók hann einnig þá ákvörðun að gefa syk­ur, koff­ín og áfengi al­farið upp á bát­inn og sér hann sko alls ekki eft­ir því. „Ég hef ekki borðað syk­ur­korn í nærri 40 ár, ekki eitt korn, og geri aldrei und­an­tekn­ing­ar á því,“ seg­ir hann.

Ekki einu sinni á af­mæl­is­dag­inn?

„Drott­inn minn dýri! Fara þannig með mig á af­mæl­is­dag­inn, ég ætti nú ekki annað eft­ir.“

Ragn­ar Ingi glímdi við alkó­hól­isma sem ung­ur maður og fór í meðferð 35 ára gam­all. Þar lærði hann mik­il­væga lex­íu sem hef­ur fylgt hon­um alla tíð síðan. „Ég drakk eins og „idjót“ og hafði enga stjórn á sjálf­um mér, en svo lærði ég bara að hætta því og að hætta að hugsa um það og hef ekki bragðað dropa síðan,“ út­skýr­ir Ragn­ar Ingi, sem beitti sömu aðferð þegar hann tók syk­ur úr mataræðinu.

„Ég var bölvaður syk­urfík­ill, alltaf að éta sæt­indi, þar til ég hætti al­veg að smakka syk­ur. Í dag er ég bú­inn að gleyma hvernig bragðið er af hon­um og geri aldrei neina ein­ustu und­an­tekn­ingu. Syk­ur er óholl­ur og bara bölvaður óþverri.“

Ragnar fagnaði áttræðisafmæli nýverið.
Ragn­ar fagnaði átt­ræðisaf­mæli ný­verið. mbl.is/​Eggert Jó­hann­es­son

Hef­urðu ein­hverja slæma áv­ana?

„Nei, ég er bú­inn að losa mig við þá alla og held bara mínu striki. Mér líður svo vel í lík­am­an­um og finnst ég ekki vera gam­all maður.“

„Ekki borðað soðinn mat­ar­bita í yfir 20 ár“

Ragn­ar Ingi steig skref­inu lengra eft­ir mörg ár sem grænkeri þegar hann byrjaði að borða ein­ung­is hrá­fæði, en það er jurta­fæði sem borðað er óeldað. „Ég hef ekki borðað soðinn mat­ar­bita í yfir 20 ár. Ég borða aldrei neitt sem er steikt eða soðið. Það var rosa­lega góð viðbót þegar ég fór út í það að borða mat­inn eins og hann kem­ur fyr­ir frá nátt­úr­unn­ar hendi.“

Hvað er í upp­á­haldi hjá þér að borða?

„Ég borða mikið brauð. Við hjón­in búum til dá­sam­legt brauð sem við þurrk­um úr maís og hör­fræj­um sem okk­ur þykir báðum mjög gott. Við erum líka dug­leg að borða avóka­dó, rótarávexti, eggald­in og hnet­ur, þá sér­stak­lega kasjúhnet­ur sem eru af­skap­lega holl­ar og bragðgóðar.“

Örugg­lega yngst­ur í ald­urs­flokkn­um

Hreyf­ing er stór hluti af lífi Ragn­ars Inga, enda lengi verið sagt að reglu­leg hreyf­ing geti lengt líf okk­ar og aukið lífs­gæði. Hann er dug­leg­ur að finna leiðir til að styrkja lík­amann en gef­ur sér einnig tíma á hverj­um degi til að rækta and­lega vellíðan, en hann hef­ur stundað jóga árum sam­an. „Ég er mik­ill hlaupakall og hef hlaupið maraþon og fleiri götu­hlaup en síðan eru liðin nokk­ur ár,“ seg­ir Ragn­ar Ingi, sem ætl­ar sér að kom­ast á fulla ferð aft­ur í úti­hlaup­un­um og er bjart­sýnn á nýja ald­urs­flokk­inn, 80 til 90 ára, þar sem hann tel­ur sig ör­ugg­lega yngsta þátt­tak­and­ann.

„Ég er ekki með stór áform um að vinna ein­hverja verðlauna­pen­inga en maður er bara með í þessu á meðan maður er og get­ur,“ út­skýr­ir hann, en Ragn­ar Ingi stefn­ir á þátt­töku í Reykja­vík­ur­m­araþon­inu þar sem hann hyggst hlaupa 10 kíló­metra.

Hvað ger­irðu á hverj­um degi til að viðhalda bæði lík­am­legri og and­legri heilsu?

„Ég er í jóga. Ég æfi jóga alla daga, alltaf. Ég stunda jóga heima og er einnig hluti af hópi sem stund­ar jóga sam­an. Jógaæf­ing­ar þjálfa heil­ann og minnið, það er ekki nóg að þjálfa bara skrokk­inn.“

Hvenær byrjaðirðu að stunda jóga?

„Það eru að verða 36 ár síðan. Ég byrjaði árið 1988 að stunda jóga, fyr­ir al­vöru.“

Ein í lok­in, hvernig er að vera kom­inn á níræðis­ald­ur?

„Þetta er bara dá­sam­legt. Ég vitna bara í Há­kon bróður minn þegar hann varð sjö­tug­ur og var spurður að því hvort hon­um þætti ekki leiðin­legt að vera orðinn svona gam­all. Þá sagði hann: „Nei, ann­ars væri ég dauður.“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda