„Einmanaleiki hefur oft verið talinn hvað erfiðastur fyrir eldra fólk“

Ljósmynd/Kjartan Júlíusson

Sigrún Faulk er hjúkr­un­ar­fræðing­ur að mennt en hún hef­ur starfað við hjúkr­un í rúm­lega 30 ár. Lengst af hef­ur hún unnið með eldra fólki sem hún seg­ir vera al­ger for­rétt­indi. Sigrún hef­ur verið tengd Hjúkr­un­ar­heim­il­inu Grund alla ævi og seg­ist elska heim­ilið eins og það væri henn­ar eigið. Hún býr því yfir mik­illi þekk­ingu þegar kem­ur að ráðum um hvað beri að hafa í huga þegar ald­ur­inn fær­ist yfir en sjálf seg­ist hún nú þegar vera byrjuð að und­ir­búa þetta skeið æv­inn­ar.

Hver eru allra fyrstu ein­kenni þess að fólk sé að eld­ast og hvernig get­um við elst vel?

„Við erum eins mis­jöfn og við erum mörg og í raun ómögu­legt að festa fing­ur á hver fyrstu ein­kenni öldrun­ar eru. Við eld­umst alla ævi og það skipt­ir máli að hugsa um það alla daga ef við vilj­um lifa vel, eld­ast vel og deyja vel. Þannig get­um við und­ir­búið þetta ævi­skeið sem all­ir vilja jú ná. En það er ým­is­legt sem við get­um gert til að eld­ast vel. Ég segi alltaf að það sem skipti mestu máli, þegar farið sé inn í efri árin, sé að vera með góða rass- og lær­vöðva, gott jafn­vægi, já­kvæðni og góða lund.“

Sigrún seg­ir að huga þurfi að ýmsu varðandi heils­una. „Við þurf­um að passa upp á holdafar, blóðsyk­ur og blóðþrýst­ing og vera í reglu­legu eft­ir­liti hjá heim­il­is­lækni. Auk þess er brýnt að borða fjöl­breytt­an mat og muna að mein­læta­líf er ekki endi­lega það sem mann­skepn­an þarf, við eig­um að njóta líka. Það er held­ur ekki gott að vera of grann­ur, nokk­ur auka­kíló eru góður auka­forði. All­ir eiga að taka lýsi eða D-víta­mín og borða prótein og trefja­rík­an mat. Hægt er að fá góðar ráðlegg­ing­ar varðandi mataræði fyr­ir fólk sem er orðið 60 ára og eldra inni á vef Heilsu­veru.“

Holl og góð næring er mikilvæg.
Holl og góð nær­ing er mik­il­væg.

Hreyf­ing skipt­ir máli

Hún seg­ir að hreyf­ing skipi stór­an sess þegar kem­ur að góðri heilsu. „Það er mik­il­vægt að stunda al­hliða hreyf­ingu alla ævi og aðlaga hreyf­ing­una ef þarf, fólk get­ur lent í tíma­bundn­um veik­ind­um, slys­um eða þurft á aðgerð að halda en það er mik­il­vægt að hætta aldrei að hreyfa sig. Aðal­atriðið er að finna út úr því hvað fólki finnst skemmti­legt og hvers kon­ar íþrótt­ir eða hreyf­ing henti hverj­um og ein­um. Vel má nýta tækn­ina ef fólk er til dæm­is bundið heima við og ef til vill fá sjúkraþjálf­un heim. Með aldr­in­um miss­ir fólk vöðvamassa og þess vegna skipt­ir styrkt­arþjálf­un miklu máli, ekki síst til að þjálfa rass og læri en það eru vöðvarn­ir sem hjálpa okk­ur að standa upp og setj­ast niður, sem skipt­ir mestu máli í því að við séum sjálf­bjarga sem lengst,“ seg­ir Sigrún.

Ýmsu öðru þarf að huga að og nefn­ir Sigrún jafn­vægi.

„Það er mik­il­vægt að þjálfa jafn­vægið líka og ekki bara þegar jafn­væg­is­leysi ger­ir vart við sig held­ur byrja strax. Jafn­vægi okk­ar er mis­gott en við get­um öll þjálfað það. Dans er til að mynda frá­bær al­hliða hreyf­ing sem þjálf­ar þetta allt en dag­leg­ur göngu­túr og morg­un­leik­fim­in á Rás 1 er líka stór­góð þjálf­un. Sum­um hent­ar að hreyfa sig í hóp og er það víða í boði en al­mennt er talað um 30 mín­út­ur á dag sem lág­marks­tíma sem fólk á að hreyfa sig. Útivera er auk þess mik­il­væg, hún er eins og víta­mínsprauta, ferskt loft og nátt­úr­an gef­ur okk­ur kraft. Eldra fólki býðst einnig að kom­ast í end­ur­hæf­ing­ar­inn­lagn­ir ef þurfa þykir og mikið úr­val er til af alls kon­ar hjálp­ar­tækj­um,“ seg­ir hún og bæt­ir við að einnig sér hægt að fá ráðlegg­ing­ar á Heilsu­veru varðandi hreyf­ingu fyr­ir fólk sem komið sé yfir 60 árin.

Útivera er eins og vítamínssprauta.
Útivera er eins og víta­mínssprauta.

Maður er manns gam­an

Mikl­ar fé­lags­leg­ar breyt­ing­ar eiga sér oft stað hjá fólki sem komið er á efri árin, börn­in far­in að heim­an og sum­ir hætt­ir að vinna. Hvaða and­legu áhrif hef­ur þetta á ein­stak­ling­inn og hvernig ætti fólk að tak­ast á við dep­urð, kvíða og sorg?

„Mann­skepn­an er fé­lags- og vits­muna­vera, við göng­um í gegn­um breyt­ing­ar alla ævi og tök­umst á við alls kyns streitu­vald­andi at­b­urði og þá skipt­ir máli að vera í and­lega góðu jafn­vægi og góðum tengsl­um við fjöl­skyldu og vini. Streitu­los­un og góður svefn skipt­ir miklu máli. Það er eðli­legt að ganga í gegn­um erfið tíma­bil og upp­lifa dep­urð og kvíða. Á efri árum upp­lif­ir fólk oft­ar sorg og það er ferli sem þarf að ganga í gegn­um en það er hægt að leita sér hjálp­ar víða ef fólk kýs eða þarf á því að halda. Það er gott að ræða um sorg­ina og minn­ast þeirra sem við sökn­um.“

Félagsleg virkni skiptir máli.
Fé­lags­leg virkni skipt­ir máli.

Hún bæt­ir við að virkni geti haft já­kvæð áhrif og spornað við ein­mana­leika. „Virkni skipt­ir miklu máli og það er úr nógu að velja þegar kem­ur að fé­lags­starfi fyr­ir eldra fólk um allt land. Þar sann­ast máls­hátt­ur­inn „Maður er manns gam­an.“ Ein­mana­leiki hef­ur oft verið tal­inn hvað erfiðast­ur fyr­ir eldra fólk en það má leita til heim­sókna­vina RKÍ ef fólk á fáa eða eng­an að, eng­inn ætti að þurfa að vera einn.“

En hvaða ráð gef­ur Sigrún til að koma í veg fyr­ir and­lega hrörn­un?

„Við þurf­um að þjálfa heil­ann. Það má gera til dæm­is með því að ráða kross­gát­ur eða sudoku, leggja kap­al eða spila svo eitt­hvað sé nefnt. Einnig er gott að læra eitt­hvað nýtt og örva okk­ur, það hjálp­ar heil­an­um en því miður eru minni­sjúk­dóm­ar alltof al­geng­ir. Það er hægt að fá aðstoð hjá heilsu­gæslu og Alzheimer­sam­tök­un­um sem dæmi.“ Hún ráðlegg­ur fólki að vera óhrætt við að leita sér aðstoðar finni það til dæm­is fyr­ir minn­is­leysi og seg­ir vera fram­far­ir á þessu sviði eins og öðrum, það versta sé að fólk ein­angri sig.

Heilaleikfimi er góð.
Heila­leik­fimi er góð.

Það eru for­rétt­indi að eld­ast

Þegar hún er spurð hversu lengi fólk ætti að vinna þá stend­ur ekki á svör­um. „Það eru for­rétt­indi að eld­ast og mik­il­væg­ast að hver og einn finni sinn takt, sum­ir vilja vinna lengi því það er þeim mik­il­vægt, aðrir vilja hætta fyrr og njóta þess að eiga meiri frí­tíma. Ekk­ert er rétt eða rangt í þessu, það er bara mis­mun­andi hvað við vilj­um í líf­inu. Við lif­um sam­kvæmt okk­ar gild­um og hætt­um því ekki á efri árum, ger­um það sem gleður okk­ur og efl­ir sama hvað það er.“ Sigrún bæt­ir við að verst sé að gera ekki neitt því þá sé hætt við að fólk missi mik­il­væga færni.

En hvað geta fjöl­skylda og vin­ir gert og hverju þurfa þeir að fylgj­ast með og vera á varðbergi gagn­vart? „Fjöl­skylda og vin­ir eru helstu stuðningsaðilar eldra fólks og þeir sjá oft breyt­ing­ar á heilsu­fari ætt­ingja á und­an viðkom­andi. Þá skipt­ir máli að ræða mál­in, benda á og hjálpa. Það er gott að huga að heppi­legu hús­næði í tíma og skoða þau úrræði sem eru í boði fyr­ir eldra fólk sem miss­ir færni til að sjá um sig sjálft. Það get­um við best gert sjálf og und­ir­búið okk­ur fyr­ir þetta ævi­skeið. Við get­um safnað að okk­ur mynd­um og skráð sög­una okk­ar, hlaðið niður tónlist sem kall­ar fram vellíðan hjá okk­ur og átt það til­búið ef minnið fer að svíkja okk­ur. Lát­um okk­ar nán­ustu vita okk­ar ósk­ir ef heilsu­farið þró­ast þannig að við get­um ekki sjálf sagt hvað við vilj­um. Þetta er veg­ferð sem fjöl­skyld­an á sam­an og get­ur verið góð og gef­andi,“ seg­ir Sigrún að lok­um.

Það er gott að eiga gæðastundir með fjölskyldunni.
Það er gott að eiga gæðastund­ir með fjöl­skyld­unni.
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda