Ekki gott að glæpavæða fólk

Svala Jóhannesdóttir.
Svala Jóhannesdóttir.

Svala Jó­hann­es­dótt­ir hlaut í upp­vext­in­um umb­urðarlyndi og for­dóma­leysi gagn­vart fólki með vímu­efna­vanda. Kannski er því ekki und­ar­legt að ör­lög­in hafi leynt og ljóst leitt hana í þann far­veg að vinna að bætt­um hag þessa fólks. Í viðtali við Sam­hjálp­ar­blaðið tal­ar hún um skaðam­innk­un og hvernig refs­ing­ar virka ekki á fólk með fíkni­sjúk­dóma. 

Svala er menntuð í fjöl­skyldu­fræði og fag­hand­leiðslu og henn­ar sér­svið er skaðam­innk­un. Hún hef­ur stýrt Frú Ragn­heiði, verið for­stöðukona Konu­kots, stýrt bú­setu­úr­ræðum og ótalmargt fleira mætti telja upp. Svala er einnig formaður Matt­hild­ar, sam­taka um skaðam­innk­un, sem berst fyr­ir fram­gangi skaðam­innk­andi úrræða og stend­ur vörð um mann­rétt­indi jaðar­setts fólks á Íslandi. Núna er hún í mjög sér­tæku og þörfu verk­efni hjá Vel­ferðarsviði Reykja­vík­ur­borg­ar. 

„Vel­ferðarsvið Reykja­vík­ur­borg­ar fékk styrk úr Jöfn­un­ar­sjóði til að vinna að kort­lagn­ingu og stuðningi fyr­ir fatlað fólk með vímu­efna­vanda,“ seg­ir hún. „Starf mitt er að kort­leggja stöðuna hjá fötluðu fólki með langvar­andi stuðningsþarf­ir sem glím­ir við vímu­efna­vanda og þróa inn­grip og stuðning fyr­ir um­rædd­an hóp, starfs­fólk og stjórn­end­ur, og er ég í frá­bæru teymi sam­starfs­fólks sem vinn­ur þetta með mér.

Við ætl­um einnig að skoða út fyr­ir land­stein­ana og sjá hvað aðrar þjóðir sem hafa náð góðum ár­angri eru að gera í þess­um mál­um. Skoða m.a. Skot­land og Hol­land, en þar eru margs kon­ar bú­setu­form og fjöl­breytt­ur stuðning­ur, þar sem fé­lags- og heil­brigðis­kerf­in vinna mikið sam­an. Við leggj­um mikla áherslu á að koma til móts við ólík­ar þjón­ustuþarf­ir fatlaðs fólks og er þetta mjög mik­il­vægt og spenn­andi verk­efni.“

Lærði í Mekka skaðam­innk­un­ar í Evr­ópu

Þú hef­ur langa reynslu af að vinna með fólki sem glím­ir við vímu­efna­vanda og heim­il­is­leysi og hef­ur komið að inn­leiðingu á skaðam­innk­andi hug­mynda­fræði og inn­grip­um. Hvernig kynnt­ist þú þess­ari hug­mynda­fræði skaðam­innk­un­ar?

„Já, ég byrjaði að vinna með fólki sem glím­ir við virk­an vímu­efna­vanda og heim­il­is­leysi árið 2007 og var þá í Konu­koti, sem er neyðar­skýli fyr­ir heim­il­is­laus­ar kon­ur. Ég var því far­in að starfa í mála­flokkn­um áður en fyrsta skaðam­innk­andi úrræðið á Íslandi var stofnað. Fyrsta form­lega skaðam­innk­un­ar­verk­efnið á Íslandi er Frú Ragn­heiðar-verk­efnið á höfuðborg­ar­svæðinu, sem Rauði kross­inn setti á lagg­irn­ar árið 2009. Þegar maður var að vinna í þessu hér áður fyrr voru bara all­ir að gera sitt og það var eng­in ákveðin hug­mynda­fræðileg nálg­un sem var starfað eft­ir. Hjálp­ræðis­her­inn, Sam­hjálp, Rauði kross­inn og Reykja­vík­ur­borg voru öll með sín úrræði og í raun voru eng­in ákveðin mark­mið, ár­ang­urs­mæl­ar eða stefna. Eng­inn var með skýra fræðslu og þjálf­un­ar­áætl­un fyr­ir starfs­fólk og því var fag­leg færni og þekk­ing starfs­fólks oft af skorn­um skammti. Mála­flokk­ur­inn hafði fá fag­leg tæki og tól til að draga úr þeim nei­kvæðu og hættu­legu af­leiðing­um sem fylgdu vímu­efna­notk­un fólks og þeim krefj­andi aðstæðum sem hóp­ur­inn bjó við.

Ég var svo hepp­in að ég fór í skipti­nám til Hol­lands. Ég var að læra fé­lags­fræði með áherslu á kynja­fræði í HÍ og fór út árið 2009–2010. Komst þar að því að til er eitt­hvað sem heit­ir „harm reducti­on“. Þá hafði ég flutt til borg­ar­inn­ar Utrecht í Hollandi, sem var á þeim tíma Mekka skaðam­innk­un­ar í Evr­ópu. Eft­ir á að hyggja upp­lifði ég svona; hmm, það var kannski ein­hver ástæða fyr­ir því að ég fór til Utrecht. Þarna kynnt­ist ég skaðam­innk­un og í kjöl­farið heim­sótti ég fullt af skaðam­innk­unar­úr­ræðum, eins og ör­ugg neyslu­rými, bú­setu­úr­ræði, heróín-viðhaldsmeðferð og stuðningsþjón­ustu fyr­ir fólk í kyn­lífsiðnaði.“

Skaðam­innk­un bjarg­ar manns­líf­um

Nú hef­ur átt sér stað mik­il umræða um skaðam­innk­un og hvort hún sé skyn­sam­leg. Hvað finnst þér um það?

„Byrj­um á að velta fyr­ir okk­ur hvað skaðam­innk­un er,“ seg­ir hún. „Skaðam­innk­un er viður­kennd aðferðafræði við vímu­efna­notk­un í sam­fé­lag­inu. Alþjóðaheil­brigðismála­stofn­un­in, Sam­einuðu þjóðirn­ar og Evr­ópu­sam­bandið viður­kenna öll mik­il­vægi aðferðafræði skaðam­innk­un­ar og leggja áherslu á að lönd og borg­ir inn­leiði slíka nálg­un og setji upp skaðam­innk­andi úrræði inn­an síns svæðis. Í grunn­inn snýr skaðam­innk­un að því að draga úr þeim nei­kvæðu og hættu­legu af­leiðing­um sem fylgja vímu­efna­notk­un, bæði á lög­leg­um og ólög­leg­um vímu­gjöf­um, og er áhersl­an á lýðheilsu­inn­grip og mannúðlega nálg­un gagn­vart al­mennri vímu­efna­notk­un og vímu­efna­vanda fólks.

Mark­mið skaðam­innk­un­ar er alltaf að aðstoða fólk við að halda lífi, að auka lík­urn­ar á því að fólk sem not­ar vímu­efni fái viðeig­andi stuðning og þjón­ustu til að lifa af. Mark­miðið er einnig að vernda lík­am­lega og and­lega heilsu fólks og að styðja fólk við að taka skref í átt að já­kvæðum breyt­ing­um. Skaðam­innk­un er raun­sæ­is­nálg­un og viður­kenn­ir að fólk not­ar vímu­efni af margs kon­ar ástæðum og flest­ir nota vímu­efni sér til skemmt­un­ar og afþrey­ing­ar, en rann­sókn­ir sýna að um 10% af vímu­efna­not­end­um þróa með sér vímu­efna­vanda eða fíknirösk­un. Þar að baki liggja oft erfiðar til­finn­ing­ar og sárs­auki sem fólk er að kljást við vegna af­leiðinga áfalla, þá sér­stak­lega úr barnæsku.

Í skaðam­innk­un er mik­il áhersla lögð á að mæta fólki þar sem það er statt hverju sinni og koma inn með gagn­reynd inn­grip og stuðning til fólks sem not­ar vímu­efni. Við veit­um fólki þjón­ustu og stuðning án þess að þvinga það, mis­muna eða krefjast þess að það hætti að nota vímu­efni sem for­sendu fyr­ir þjón­ustu. Fólk sem glím­ir við vímu­efna­vanda hef­ur sína ástæðu og við þurf­um að bera virðingu fyr­ir því og sýna fólki skiln­ing og sam­kennd.

Við vor­um mjög sein á Íslandi að byrja að starfa eft­ir skaðam­innk­andi hug­mynda­fræði en mörg lönd í Evr­ópu og sér­stak­lega á Norður­lönd­um hófu að inn­leiða hana upp úr 1990. Þess vegna held ég að fólk hér heima upp­lifi stund­um að þetta sé al­veg ný nálg­un við vímu­efna­notk­un og mögu­lega ekki sér­lega skyn­sam­leg. En skaðam­innk­un er viður­kennd aðferðarfræði inn­an fíkni­fræða, sem hef­ur sýnt fram á marg­vís­leg­an ávinn­ing. Eitt af því er að skaðam­innk­andi úrræði bjarga hrein­lega manns­líf­um, eins og ör­ugg neyslu­rými, viðhaldsmeðferðir, naloxo­ne-dreif­ing og góður og viðeig­andi stuðning­ur.“

Fyrsta skrefið í bat­an­um

Ein­hver hóp­ur fólks tel­ur að skaðam­innk­un fel­ist í því að hjálpa fólki að halda neysl­unni áfram. Hvernig svar­ar þú þeim viðhorf­um?

„Skaðam­innk­andi úrræði ýta ekki und­ir vímu­efna­notk­un hjá fólki, hvorki viðhalda henni né auka ný­gengi í vímu­efna­notk­un; þetta hef­ur verið skoðað mjög vel og rann­sókn­ir sýna að svo er alls ekki. Skaðam­innk­andi úrræði auka hins veg­ar lík­urn­ar á að fólk tali um vímu­efna­notk­un sína og eigi heiðarlegt sam­tal um stöðu sína og mögu­leg­ar áhyggj­ur, vegna þess að fólk treyst­ir því að starfs­fólk í þess­um úrræðum sýn­ir því skiln­ing, dæmi ekki og hafi sam­kennd í garð þess. Þar af leiðandi opn­ast mjög dýr­mætt svig­rúm til að eiga sam­tal um leiðir til að auka ör­yggi fólks og taka skref í átt að já­kvæðum breyt­ing­um. Fyr­ir marga er skaðam­innk­un fyrsta skrefið í bat­an­um, að fara að huga að heilsu sinni og vel­ferð, það eyk­ur vænt­umþykju fólks í sinn garð og gef­ur von, það hafa marg­ir fyrr­ver­andi skjól­stæðing­ar tjáð mér það.

Ég held að þessi hugs­un eða skoðun teng­ist líka því hvernig við sem sam­fé­lag telj­um að ár­ang­ur hjá fólki með vímu­efna­vanda eigi að vera. Okk­ur er svo tamt að hugsa svart/​hvítt, að vera edrú eða í neyslu. En ár­ang­ur fólks er ekki ein­göngu met­inn út frá því hvort mann­eskja með vímu­efna­vanda not­ar vímu­efni eða er al­veg hætt, það væri mjög eins­leit nálg­un á vel­ferð, ör­yggi og lífs­gæði fólks. Fólk er mun lík­legra til að taka mörg lít­il skref í já­kvæða átt held­ur en að hlaupa heilt maraþon eins og að hætta allri vímu­efna­notk­un akkúrat núna.“

Hvernig er ár­ang­ur mæld­ur?

Áttu þá við að hægt sé að ná ár­angri án þess að hætta að nota vímu­efni?

„Í skaðam­innk­un grein­um við þær nei­kvæðu og hættu­legu af­leiðing­ar sem vímu­efna­notk­un hef­ur á líf fólks í víðu sam­hengi, þar er horft til not­enda, aðstand­enda, nærsam­fé­lags­ins, kerf­anna og alls sam­fé­lags­ins. Árang­ur er met­inn og mæld­ur út frá fjöl­breytt­um þátt­um í lífi fólks og er lögð áhersla á mik­il­vægi þess að taka eft­ir öll­um litl­um já­kvæðum skref­um, það er alltaf stór sig­ur í þeim, sér­stak­lega hjá fólki sem glím­ir við þung­an vímu­efna­vanda.“

„Við get­um mælt og metið ár­ang­ur út frá fé­lags­leg­um þátt­um eins og hvernig geng­ur að halda hús­næði, er viðkom­andi að ná að draga úr fé­lags­legri ein­angr­un, hvernig geng­ur að standa skil á reikn­ing­um, er viðkom­andi í tengsl­um við fjöl­skyldu sína? Svo út frá lík­am­legri heilsu; er ein­stak­ling­ur síður að fá lungna­bólgu, hef­ur dregið úr sýk­ing­ar­til­fell­um, er nær­ing­arstuðull­inn að verða betri? Síðan get­um við mælt ár­ang­ur út frá sál­ræn­um þátt­um; hef­ur dregið úr kvíða hjá viðkom­andi, hafa al­menn lífs­gæði auk­ist, hef­ur viðkom­andi öðlast betri bjargráð við að tak­ast á við erfiðar til­finn­ing­ar? og svo fram­veg­is.“

Hóp­ur­inn vill sér­hæfða skaðam­innk­andi lyfjameðferð

Þekkt lyfjameðferð með su­boxo­ne er til við ópíóíðafíkn og veit­ir SÁÁ slíka meðferð. Hins veg­ar er aðeins veitt fjár­magn til að sinna 90 manns en 300 eru í meðferðinni. Þá verður að spyrja, er það að koma fólki á slíka lyfjameðferð já­kvæðara og betra en að lækn­ir skrifi út ópíóíðalyf sem fólk er háð?

„Lyfjameðferðin sem er veitt hjá SÁÁ nær mjög vel til stórs hóps fólks sem glím­ir við þung­an ópíóíðavanda og er þar að megn­inu not­ast við lyf­in su­boxo­ne og bu­vi­dal. Geðsvið Land­spít­al­ans er einnig með slíka lyfjameðferð fyr­ir lít­inn hóp af skjól­stæðing­um sín­um og geðheilsu­teymi fang­els­anna. Þessi lyfjameðferð hef­ur sýnt fram á mjög góðan ár­ang­ur og er afar mik­il­væg og því þarf að tryggja fjár­magn að fullu frá rík­inu. Slík lyfjameðferð á ekki að standa og falla með eig­in fjár­öfl­un SÁÁ.

Við í Matt­hildi, sam­tök­um um skaðam­innk­un, höf­um talað fyr­ir því að það vanti einnig nauðsyn­lega sér­hæfða skaðam­innk­andi lyfjameðferð eða viðhaldsmeðferð hér á landi, sem er stak­lega hönnuð fyr­ir af­markaðan lít­inn hóp ein­stak­linga með langvar­andi og þung­an ópíóíðavanda. Þetta er hóp­ur fólks sem á sögu um fjöl­marg­ar afeitran­ir og hef­ur reynt hefðbundna lyfjameðferð með lyf­inu su­boxo­ne en hef­ur ekki svarað þeirri meðferð vel eða náð góðum ár­angri. Slík­ar meðferðir eru til er­lend­is, meðal ann­ars í Nor­egi, Dan­mörku, Þýskalandi, Hollandi, Kan­ada og fleiri stöðum, og hafa sýnt fram á mjög góðan ár­ang­ur.“

Lyfjameðferðir þekkt­ar er­lend­is

En hvernig eru þess­ar lyfjameðferðir fyr­ir þenn­an hóp er­lend­is?

„Þær heita heroin-ass­isted treatment á ensku, þar sem lyf­seðils­skylt heróín er notað, og er þetta gagn­reynd skaðam­innk­andi meðferð fyr­ir þenn­an af­markaða hóp. Meðferðin er samþætt, þannig að hún veit­ir bæði fé­lags- og heil­brigðisþjón­ustu og er reynt að koma til móts við fjölþætt­an vanda fólks. Upp­setn­ing­in á meðferðinni er þannig að ein­stak­ling­ur kem­ur tvisvar á dag í heil­brigðisúr­ræði og fær sitt lyf, heróín, sem hann er háður og not­ar það á staðnum und­ir eft­ir­liti heil­brigðis­starfs­fólks, síðan fær hann ann­ars kon­ar lyf með sér fyr­ir nótt­ina. Flest­ir af þess­um ein­stak­ling­um hafa notað vímu­efni í æð í lang­an tíma og mæt­ir meðferðin þeim fíkni­vanda; ein­stak­ling­ur­inn fær að nota lyfið í æð eða reykja það í meðferðinni og er það ein af ástæðum þess að meðferðar­heldni og ár­ang­ur­inn er svona góður. Þessi sér­hæfða skaðam­innk­andi meðferð mæt­ir raun­veru­lega fíkni­vanda þessa hóps, er raun­sæ og legg­ur áherslu á að draga úr þeim fjölþætta skaða og hættu sem hóp­ur­inn býr við.“

Væri hægt að setja upp slíka skaðam­innk­andi meðferð hér á landi?

„Já, það væri vissu­lega hægt að setja upp sam­bæri­lega meðferð hér á landi og er mik­il þörf á. Við í Matt­hild­ar­sam­tök­un­um höf­um talað fyr­ir því að ákjós­an­leg­ast væri að þriðju línu heil­brigðisþjón­usta myndi veita slíka meðferð og not­end­ur hafa sér­stak­lega kallað eft­ir því að al­menna heil­brigðis­kerfið veiti þeim slíka meðferð. Einnig eru heil­brigðisþarf­ir hóps­ins þess eðlis að hann þarf oft á þriðja stigs heil­brigðisþjón­ustu að halda og þess vegna er þessi meðferð oft tengd sjúkra­hús­um er­lend­is. Þar sem heróín er ekki á Íslandi og fólk sem glím­ir við þung­an ópíóíðavanda hér á landi not­ar lyf­seðils­skyld lyf eins og contalg­in, oxycont­in og fent­anyl-plást­ur þyrfti að öll­um lík­ind­um að nota lyfið morfín en það er meðal ann­ars ætlað til inn­töku í æð.

Árang­ur­inn af þess­ari skaðam­innk­andi sér­hæfðu lyfjameðferð er í fyrsta lagi sá að not­end­ur kom­ast í and­legt og lík­am­legt jafn­vægi, þurfa ekki leng­ur að vera í af­brot­um og stöðugt að reyna að fjár­magna næsta skammt, sem er oft gert á skaðleg­an hátt bæði fyr­ir ein­stak­ling­inn sjálf­an og sam­fé­lagið. Einnig sýna rann­sókn­ir að geðheilsa fólks verður betri, al­menn meðferðar­heldni eykst, not­end­ur draga úr eða hætta al­veg notk­un á öðrum ópíóíðalyfj­um og lík­am­leg heilsa og fé­lags­leg staða þeirra batn­ar.“

Refs­ing skil­ar ekki ár­angri

Nú hef­ur nokkr­um sinn­um verið lagt fyr­ir Alþingi frum­varp um að af­glæpa­væðingu á neyslu­skömmt­un. Eitt­hvað er um að fólk telji að þar með sé verið að gera fíkni­efna­neyslu frjálsa og bjóða hætt­unni heim. Hvað finnst þér um þetta frum­varp?

„Ef við byrj­um á að skoða aðeins vímu­efna­notk­un, þá hef­ur hún fylgt mann­in­um frá ör­ófi alda. Raun­in er sú að meiri­hluti fólks not­ar lög­leg eða ólög­leg vímu­efni í sam­fé­lagi okk­ar, þrátt fyr­ir ýtr­ustu viðleitni stjórn­valda til að reyna að stöðva notk­un­ina með refs­ing­um, sekt­um, eft­ir­liti og jafn­vel fang­els­un. Það að banna ákveðin vímu­efni og refsa síðan fólki fyr­ir að nota þau hef­ur ekki skilað þeim ár­angri sem von­ast var eft­ir upp­runa­lega.

Nú­ver­andi vímu­efna­stefna og áv­ana- og fíkni­efna­lög hafa ekki náð að draga úr al­mennri vímu­efna­notk­un né eft­ir­spurn eft­ir ólög­leg­um efn­um. Í raun hef­ur aðgengið að ólög­leg­um vímu­efn­um aldrei verið eins auðvelt og í dag, fram­boðið af efn­um er einnig orðið mun meira, efn­in eru orðin sterk­ari og hættu­legri og dauðsföll­um hef­ur fjölgað mikið. Þannig að það má álykta að bann- og refs­i­stefn­an hafi í raun aukið skaðann og hætt­una sem fylgja ólög­leg­um vímu­efn­um og þeim heimi; þessi stefna er alls ekki að virka.“

End­ur­skoða þarf vímu­efna­stefnu

Er af­glæpa­væðing neyslu­skammta skaðam­innk­andi aðgerð?

„Skaðam­innk­un legg­ur vissu­lega áherslu á að draga úr nei­kvæðum af­leiðing­um af vímu­efna­notk­un en legg­ur einnig áherslu á að draga úr skaða sem fylg­ir vímu­efna­stefn­um og lög­gjöf,“ seg­ir Svala. „Á síðustu árum og ára­tug­um hafa verið birt­ar rann­sókn­ir og gögn sem sýna fram á skaðsemi nú­ver­andi stefnu og hvernig hún fjölg­ar meðal ann­ars dauðsföll­um og eyk­ur þján­ingu og of­beldi gagn­vart fólki, sér­stak­lega minni­hluta­hóp­um og fólki sem glím­ir við þung­an vímu­efna­vanda. Þessi stefna er ekki unn­in út frá vís­ind­um og við eig­um að gera kröfu um að vera með fíkni­stefnu og lög­gjöf sem er vís­inda­lega miðuð og gagn­reynd.

Þess vegna hafa mörg lönd í heim­in­um verið að end­ur­skoða vímu­efna­stefnu sína og lög­gjöf. Fyrsta skrefið í því er að hætta að refsa fólki fyr­ir að vera með neyslu­skammta á sér til eig­in nota, sem hef­ur verið nefnt af­glæpa­væðing eða af­nám refs­inga. Þá eru efn­in enn ólög­leg sam­kvæmt lög­um og einnig eru sala, inn­flutn­ing­ur og dreif­ing ólög­leg, en lagt er upp með að hætta að glæpa­væða not­end­ur 18 ára og eldri fyr­ir neyslu­skammta sem eru til eig­in nota.

Það er nefni­lega þannig að stór hluti fólks sem not­ar ólög­leg vímu­efni glím­ir ekki við vímu­efna­vanda, held­ur not­ar efn­in öðru hvoru eða á ákveðnu tíma­bili í lífi sínu og það skaðar eng­an ann­an. Það er því afar óhjálp­legt að glæpa­væða þann hóp, það get­ur haft tölu­verð nei­kvæð áhrif á líf ein­stak­linga eins og hvað varðar mann­orð, at­vinnu­mögu­leika og traust til stofn­ana. Einnig fylg­ir því mik­ill kostnaður fyr­ir kerfið að fylgja eft­ir nú­ver­andi lög­gjöf, með manna­forða lög­reglu og lög­fræðinga og er kostnaður á öll­um stig­um í rétt­ar­vörslu­kerf­inu,“ seg­ir Svala.

Af­glæpa­væðing er í raun­inni ör­ygg­is­mál 

„Að mínu mati er það síðan siðferðis­lega rangt að glæpa­væða fólk sem glím­ir við vímu­efna­vanda, það er ómannúðlegt og ýtir und­ir auk­inn vanda hjá fólk­inu,“ held­ur hún áfram. „Að kljást við vímu­efna­vanda er oft erfiður og þung­bær vandi og því þurf­um við áv­ana- og fíkni­efna­lög­gjöf og stefnu sem tek­ur utan um fólk, trygg­ir ör­yggi þess og eyk­ur lík­ur á bata frek­ar en að út­skúfa og refsa.

Rann­sókn­ir sýna að af­glæpa­væðing get­ur aukið lík­urn­ar á því að fólk sem not­ar ólög­leg vímu­efni opni á vímu­efna­notk­un sína við fag- og heil­brigðis­starfs­fólk, en hóp­ur­inn veigr­ar sér við það í nú­ver­andi lög­gjöf. Við vilj­um að fólk geti treyst heil­brigðis­starfs­fólki og talað um notk­un sína og mögu­lega áhyggj­ur, það er fyr­ir­byggj­andi aðgerð sem eyk­ur lík­urn­ar á því að fólk fái viðeig­andi stuðning og jafn­vel meðferð mun fyrr. Nú­ver­andi lög­gjöf dreg­ur úr lík­un­um á þessu, vegna ótta við nei­kvæðar af­leiðing­ar sem geta fylgt í kjöl­farið ef þú seg­ir frá.

Rann­sókn­ir sýna einnig að með af­glæpa­væðingu aukast lík­urn­ar á því að fólk sem not­ar ólög­leg vímu­efni leiti eft­ir viðbragðsþjón­ustu þegar bráðatil­felli ger­ast, hringi í 112 þegar ofskömmt­un á vímu­efn­um á sér stað, þegar það verður fyr­ir kyn­ferðisof­beldi eða öðru of­beldi. Með því að af­glæpa­væða er verið að draga úr þrösk­uld­um að margs kon­ar þjón­ustu í kerf­un­um okk­ar fyr­ir þenn­an hóp. Af­glæpa­væðing er í raun­inni ör­ygg­is­mál og aukið jafn­ræði.

Með af­glæpa­væðingu á neyslu­skömmt­un er hugs­un­in að færa mála­flokk­inn frá lög­reglu og rétt­ar­vörslu­kerf­inu og yfir í fé­lags- og heil­brigðis­kerfið.“

Það er kom­inn tími til að kveðja, en Svala seg­ir frá því að þegar hún var sex ára heim­sótti hún reglu­lega föður sinn á áfanga­heim­ili. Hann náði góðum bata og vann inn­an meðferðar­geir­ans. Svala kynnt­ist því ung fólki sem glímdi við fíkn og það varð til þess að hún upp­lifði aldrei ótta eða fyr­ir­litn­ingu gagn­vart því. Hún hef­ur mikla sam­kennd með öðrum og hef­ur þá trú að auk­in þekk­ing og meiri fag­mennska í viðbrögðum við þess­um vanda muni skila meiri og betri ár­angri en við höf­um hingað til séð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda