Emilía Ósk Steinarsdóttir missti móður sína, Sigríði Einarsdóttur, þann 5. ágúst síðastliðinn úr briskrabbameini og ætlar að hlaupa tíu kílómetra í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka næstu helgi til að heiðra minningu hennar.
„Mamma hafði glímt við krabbamein í hartnær tvö ár. Hún greindist með hvítblæði árið 2008, þegar ég var sex ára gömul, en sigraðist á því eftir að hafa gengist undir mergskipti í Svíþjóð.
Það var því mikið áfall þegar mamma var greind með briskrabbamein, við héldum auðvitað öll að hún væri búin með sinn skammt af veikindum,“ segir Emilía Ósk.
Emilíu Ósk hafði lengi langað til að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu og hafði móðir hennar hvatt hana til þátttöku. Aðeins nokkrum vikum áður en Sigríður kvaddi þennan heim, skráði Emilía Ósk sig í hlaupið og varð strax staðráðin í að hlaupa þessa tíu kílómetra til styrktar Krafti.
„Mamma mín var hetja sem gafst aldrei upp og kenndi mér að halda áfram sama hvað. Hún var sterk, hugrökk og vildi gera allt fyrir alla.
Eftir að mamma sigraðist á hvítblæðinu leitaði hún mikið í þjónustu Krafts og sat í stjórn félagsins um tíma. Kraftur gerði mikið fyrir fjölskylduna og þá sérstaklega mömmu og pabba. Síðustu tvö árin hef ég reglulega leitað mér aðstoðar hjá Krafti og það hefur hjálpað mér mikið.“
HÉR er hægt að heita á Emilíu.