„Mikilvægt að fara ekki út í öfgar með heilsu“

Viktor Örn Margeirsson er knattspyrnumaður og klínískur sálfræðingur.
Viktor Örn Margeirsson er knattspyrnumaður og klínískur sálfræðingur. Samsett mynd

Sálfræðingurinn og knattspyrnumaðurinn Viktor Örn Margeirsson hefur mikla ástríðu fyrir heilsu, bæði andlegri og líkamlegri. Hann spilar fótbolta með Breiðabliki í efstu deild karla og starfar samhliða því sem klínískur sálfræðingur hjá Kvíðameðferðarstöðinni og Heil Heilsumiðstöð.

Viktor þekkir vel hve stórt hlutverk hausinn spilar í íþróttum og segir að sálfræðin sé að vissu leyti vannýtt fræðigrein í íþróttaheiminum sem og í öðrum greinum þar sem leitað er eftir bætingum og velgengni. Hann setti því nýverið á laggirnar fyrirtækið Hugrænn styrkur ásamt félaga sínum, Hjálmtý Alfreðssyni sálfræðingi og handknattleiksmanni. Þar bjóða þeir upp á sálfræðiþjónustu sem er sérsniðin að fólki sem er að reyna að skara fram úr á ákveðnu sviði, til dæmis afreksfólk í íþróttum, eða vill láta sér líða vel í því sem það er að fást við.

Fótboltaferill Viktors hófst þegar hann var sjö ára gamall með Breiðabliki í Kópavoginum, en hann viðurkennir að iðkunin hafi þó verið með hálfum huga til að byrja með. „Ég held að ég hafi hangið í fótboltanum út af bróður mínum, Finni Orra, sem var og er enn að spila. Tíu ára fór ég svo að æfa á fullu og síðan þá hefur fótboltinn verið mitt helsta áhugamál,“ segir Viktor.

Í dag spilar Viktor enn með Breiðabliki og hefur gert allan ferilinn, að undanskildum tveimur stuttum stoppum í öðrum liðum þar sem hann var á láni. „Þegar það er hefðbundin vika, sem er nú sjaldan, þá æfum við fimm sinnum í viku og spilum einn leik. Þá má reikna með að hver æfing sé ein og hálf til tvær klukkustundir. Svo er mikill tími sem fer í margt annað en fótboltaæfingar, eins og endurheimt og styrktarþjálfun,“ segir hann.

Bræðurnir Viktor Örn og Finnur Orri.
Bræðurnir Viktor Örn og Finnur Orri. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Þurfti að læra að takast á við mistökin

Viktor leggur mikla áherslu á að huga að heilsu sinni en segir mikilvægt að það fari ekki út í öfgar. „Ég legg áherslu á að sinna grunnstoðum andlegrar og líkamlegrar heilsu vel, þá er ég að tala um svefn, mataræði, hreyfingu og félagsleg tengsl. Ég reyni að forgangsraða þessum hlutum framarlega og gera það vel – maður er auðvitað ekki fullkominn í þessu, en ef maður sinnir þessum hlutum stöðugt yfir lengri tíma þá kemst maður á góðan stað,“ útskýrir Viktor.

„Mér finnst líka mikilvægt að fara ekki út í öfgar með heilsu frekar en annað. Ef einhverjir af þessum þáttum fara að vera meiri kvöð en bara heilbrigð og skynsöm nálgun þá getur það farið að vinna á móti manni. Ég reyni að nálgast þetta allt sem viðmið frekar en skyldu. Ég reyni að sofa í níu klukkustundir á næturnar, en það gengur ekki alltaf. Ég reyni að borða hollt í 85% skipta, en fæ mér súkkulaði þegar það á við,“ bætir hann við.

Andleg heilsa er ekki síður mikilvæg í íþróttum og þekkir Viktor það af eigin reynslu. „Þegar ég var yngri að brjóta mér leið inn í meistaraflokk hjá Breiðabliki þurfti ég að hafa markvisst fyrir því að takast á við mistök. Ég stressaðist upp ef ég klúðraði einhverju sem fékk mig til að vilja ekki fá boltann og þar af leiðandi spilaði ég hálfhikandi. En svo fór ég markvisst að takast á við það og fór að „taka sénsinn“ á því að gera mistök og æfði mig í að taka mistökin ekki inn á mig,“ segir Viktor.

„Ég fór að vera hugrakkari sem leiddi til þess að ég þorði. Svo fóru hlutirnir að ganga betur og mér fór að líða betur varðandi það að spila og eiga mistök á hættu. Hræðslan við mistök er algeng hjá íþróttafólki enda upplifum við oft að mikið sé undir. Það er hægt að vinna með það og ná góðum árangri sem hjálpar fólki innan sem utan vallar,“ bætir hann við.

Viktor hefur einnig mikla trú á góðri rútínu sem hann leggur áherslu að halda í heilt yfir, sérstaklega hvað viðkemur svefni, mataræði og æfingum. „Í kringum leiki er eiginlega bara eini fastinn sem ég reyni að halda í það að borða á svipuðum tíma fyrir leiki og borða eitthvað sem mér líður vel af. Undanfarin ár hef ég til dæmis verið að fara á Saffran fyrir leiki,“ segir hann.

„Ég held það sé vandmeðfarið að vera of formfastur í ákveðnum hlutum á leikdag – frekar að treysta á sjálfan sig í leiknum en að eitthvað í rútínunni sé að fara að vinna fyrir þig leikinn. Það til dæmis hjálpar mér ekkert að skora mark ef ég fer í hægri skóinn á undan þeim vinstri eða öfugt. Það er mikilvægt að einbeita sér að sjálfum sér, stjórna því sem þú getur stjórnað og reyna síðan að gera það vel,“ bætir hann við.

Viktor Örn leggur áherslu á að huga að grunnstoðum heilsunnar, …
Viktor Örn leggur áherslu á að huga að grunnstoðum heilsunnar, þó án allra öfga. mbl.is/Hari

Skráði sig óvænt í sálfræði á síðustu stundu

Viktor segir hugmyndina um að fara í sálfræðinám hafa kviknað þegar hann var yngri, en það hafi snemma vakið áhuga hans þegar rætt var um andleg vandamál og geðsjúkdóma. „Svo eftir menntaskóla var ég óákveðinn og vissi ekki hvað ég vildi læra. Það var svo vinur minn, sem ég vann með sumarið fyrir grunnnámið, sem dró mig með sér í sálfræðina, en ég náði í raun að troða mér inn örfáum dögum áður en námið hófst,“ segir Viktor.

„Í grunnnáminu datt ég svo inn í góðan hóp sem gerði námið enn skemmtilegra og þá lá beinast við að fara í klíníska sálfræði sem ég sé svo sannarlega ekki eftir,“ bætir hann við.

Viktor Örn starfar í dag sem klínískur sálfræðingur.
Viktor Örn starfar í dag sem klínískur sálfræðingur. Ljósmynd/Úr einkasafni

Viktor kláraði bæði grunnnám í sálfræði og meistaranám í klínískri sálfræði við Háskólann í Reykjavík, en hann er þó hvergi nærri hættur að mennta sig og afla sér meiri þekkingar þar sem hann hóf nýverið nám í íþróttasálfræði sem hann mun sinna samhliða fótboltanum og vinnunni. Þá stofnaði hann einnig nýlega fyrirtækið Hugrænn styrkur ásamt félaga sínum.

„Ég og Hjálmtýr kynntumst í grunnnáminu, en hann er einnig klínískur sálfræðingur og íþróttamaður eins og ég, og út frá þeim sameiginlega áhuga spratt þessi hugmynd. Við þekkjum landslagið í íþróttaheiminum og sjáum klárlega pláss fyrir bætingar á því sviði. Að vissu leyti er sálfræðin vannýtt fræði í heimi íþrótta og annarra greina sem leita eftir bætingum og velgengni – þar má nefna vinnumarkaðinn, skóla, list, stjórnendur og fleira. Í því samhengi má nefna að þjónusta Hugræn styrks einskorðast ekki við íþróttafólk,“ segir Viktor.

„Sálfræðiþjónustan er í raun fyrir alla sem telja sig þurfa á sálrænni aðstoð að halda. Hjá Hugrænum styrk erum við að leggja áherslu á fólk sem vill láta sér líða vel í því það sem það er að fást við eða er að reyna að skara fram úr á ákveðnu sviði – það á við um íþróttafólk, listafólk, vinnustaði, stjórnendur og svo framvegis. Vandi fólks getur verið mismunandi og margþættur, sumir eiga í tilfinningavanda, eins og kvíða og þunglyndi, aðrir leita sér aðstoðar varðandi krísur í lífinu eða eiga í erfiðleikum með það sem þeir eru að fást við,“ segir Viktor og bætir við að hann telji þjónustuna geta nýst flestum, hvort sem þeir eigi við klínískan vanda að stríða eða vilji fá verkefni til að ná betri tökum á huganum og þar með nýta það til framfara.

„Það er að færast í vöxt að fólk leiti í andlega þjálfun sem líkja má við styrktarþjálfun, nema það snýr að huganum og andlega hlutanum. Hægt er að notast við aðferðir sálfræðinnar til að bæta frammistöðu, samskipti, svefn, að takast á við mistök og svo margt fleira. Til að nefna tvær aðferðir af mörgum eru markmiðasetning og hugarþjálfun þekkt tól sem reynast vel,“ segir Viktor og bætir við að þeir félagarnir bjóði meðal annars upp á námskeið, fræðslu, hlaðvarp og fyrirlestra, en séu einnig að þróa nýtt efni jafnóðum.

„Við vinnum allt okkar efni og þjónustu út frá gagnreyndum aðferðum sem eru byggðar á fræðilegum grunni. Einna helst styðjumst við við hugræna atferlismeðferð (HAM) eða Acceptance and Commitment Therapy (ACT),“ segir Viktor.

Viktor Örn varð Íslandsmeistari með Breiðablik árið 2022.
Viktor Örn varð Íslandsmeistari með Breiðablik árið 2022. mbl.is/Óttar Geirsson

Íþróttafólk upplifi oft mikla pressu

Spurður út í hvað það sé sem íþróttafólk er helst að takast á við þegar kemur að andlegu hliðinni segir Viktor að það eigi það til að upplifa meiri pressu en gengur og gerist. „Sú pressa getur verið sjálfsprottin eða frá umhverfinu eins og foreldrum, þjálfurum, samherjum eða áhorfendum. Pressan getur farið misvel í einstaklinga – sumir þrífast vel undir pressu en öðrum líður illa undir henni. Í því samhengi má ræða væntingar fólks en þær eru ekki alltaf á rökum byggðar og geta haft neikvæðar afleiðingar,“ útskýrir Viktor.

„Í íþróttum fær maður að sjá útkomuna snöggt og getur það verið góður skóli ef fólk vill nýta sér mótlætið til góðs, en sumir eiga erfitt með mótlætið og gagnrýnina sem því getur fylgt. Fólk þarf því að geta berskjaldað sig til að geta staðið sig vel, en velgengninni fylgir alltaf hættan á mistökum. Svo sýna rannsóknir einnig að íþróttafólk er líklegra til að upplifa klínísk andleg vandamál eins og kvíða, þunglyndi og átraskanir,“ bætir hann við.

Sjálfur hefur Viktor leitað mikið til bróður síns í gegnum tíðina þegar hann hefur upplifað erfiðleika eða lent í mótlæti á fótboltaferlinum, en hann er þakklátur fyrir að eiga góða að sem eru ávallt reiðubúnir að aðstoða hann þegar þörf er á. „Svo hef ég lagt upp úr því að eiga í góðu samtali við þjálfara til að fá ráðleggingar varðandi það sem ég má bæta,“ segir hann.

Viktor segir íslenska íþróttaumhverfið virðast farið að leggja meira upp úr andlega þættinum, til dæmis með því að gera þjónustu aðgengilegri, en það sé þó alltaf rými til bætinga. „Með áframhaldandi þróun og auknu fjármagni inn fer sálfræði og andleg heilsa íþróttafólks vonandi að verða samþykktari og aðgengilegri öllum þeim sem þurfa á því að halda. Það er klárlega pláss fyrir bætingar hvað þetta varðar en það þarf samstöðu úr hreyfingunni,“ segir hann.

Það er margt spennandi fram undan hjá Viktori sem er óneitanlega með marga bolta á lofti þessa dagana. „Nú er farið að líða á seinni hluta tímabilsins í fótboltanum svo maður er með fullan fókus á að klára það vel og gera allt til að vinna Íslandsmótið sem klárast í lok október. Í vinnu er ég síðan að taka viðtöl á starfsstöðvum sem ég vinn á og er sífellt að bæta við mig reynslu og þekkingu á sviði klínískrar sálfræði – var til dæmis að byrja í námi í íþróttasálfræði,“ segir hann.

„Svo mun ég halda áfram að þróa og vinna í Hugrænum styrk, en þar eru helstu verkefni að halda námskeið og fræðslu ásamt því að gefa út hlaðvarpsþætti – allt með það að markmiði að gera sálfræðiþjónustu fyrir afreksfólk eins aðgengilega og faglega og mögulegt er,“ segir Viktor að lokum.

Viktor Örn ásamt kærustu sinni, Rebekku Steinarsdóttur, og dóttur þeirra.
Viktor Örn ásamt kærustu sinni, Rebekku Steinarsdóttur, og dóttur þeirra. Ljósmynd/Úr einkasafni
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál