Sjálfsofnæmissjúkdómurinn Alopecia er hvimleiður og ólæknandi sjúkdómur sem talið er að einn af hverjum 50 geti einhvern tímann á lífsleiðinni greinst með.
Elísabet Reykdal, yfirlæknir á húð- og kynsjúkdómadeild Landspítalans, segir framtíðina bjarta fyrir þá sem fást við sjúkdóminn eftir að líftæknilyfin Xeljanz og Olumiant voru nýlega samþykkt í greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga.
Um er að ræða lyf sem innihalda svokallaða Janus Kinase (JAK) hemla sem hamla bólguviðbragð í hársekkjum og draga þar með úr hárlosi. Lyfin, sem að öllu jöfnu eru notuð við alvarlegum gigtarsjúkdómum og búa yfir æxlishemjandi virkni, hafa sýnt fram á jákvæð áhrif á blettaskalla.
Á dögunum ræddi Elísabet meðal annars um batahorfur sjúkdómsins í Dagmálum Morgunblaðsins ásamt þeim Hilmari Pálssyni deildarlækni og Höllu Árnadóttur sem missti hár af höfði, augabrúnir og augnhár á síðasta ári sökum sjúkdómsins.
„Við erum ekkert komin mjög langt í þessu og eigum eftir að læra mikið af því hvernig við bregðumst við,“ segir Elísabet. „Mér finnst ekki hafa verið vandamál að þeir sem hafa svarað lyfinu hætti að svara, alla vega ekki ennþá. Mér finnst það rosalega jákvætt.“
Er meðferðin þá bara ótímabundin hjá öllum eða kemur að einhverjum tímapunkti þar sem fólk hættir?
„Eins og staðan er núna þá teljum við að ef fólk hættir meðferð að þá mun hárið falla af aftur,“ segir Elísabet sem veit um tilfelli þar sem sjúklingar hafa gleymt inntöku á lyfinu í nokkur skipti og þar af leiðandi farið að missa hárið á ný.
„Svo er það með börnin. Við þurfum aðeins að láta tímann líða. Við vorum nefnilega líka með annað barn sem fékk þetta lyf vegna blettaskalla en var líka með mjög slæmt exem og mamman á allt í einu bara nýtt barn. Barnið hafði ekkert það miklar áhyggjur af hárinu, það er það lítið ennþá, en barnið er allt í einu farið að sofa af því allur kláðinn er horfinn. Bara allt annað barn.“
Til þess að gripið sé til lyfjameðferðar þarf að minnsta kosti 50% hárs að hafa fallið af. Ekki er talið að sjúkdómurinn valdi líkamlegum veikindum en getur þó haft víðtæk áhrif á andlega heilsu sjúklinga.
„Við lítum á þennan sjúkdóm sem krónískan ólæknandi sjúkdóm ef hann er kominn á þetta stig þar sem við förum að meðhöndla hann og þá erum við að gera ráð fyrir að þetta sé langvarandi meðferð. Ég geri ráð fyrir að við munum auðvitað prófa okkur áfram. Við setjum ekki börn á lyfin og höfum þau á þeim út ævina,“ segir Elísabet.
„Þetta hefur verið rannsakað betur í Bandaríkjunum og þar hafa börn verið tekin af lyfjunum og þá hefur komið bakslag,“ segir Hilmar.
„Tíminn þarf að leiða þetta í ljós.“
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að horfa á allt viðtalið.