Er í lagi að nota einnota andlitsmaska?

Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands.
Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Ljósmynd/Helgi Ómars

Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknir á Húðlæknastöðinni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá konu á fertugsaldri sem spyr hvað sé til ráða vegna tíðra fílapensla og fleira.

Góðan dag!

Ég er kona á fertugsaldri og hef um árabil átt við húðvandamál að stríða, en ég fæ mjög reglulega bólur og fílapensla á andlitið, mikið á höku og kinnar. Ég vil því forvitnast um hvernig sé best að þrífa húðina og hvort það sé í lagi að nota einnota andlitsmaska endrum og sinnum?

Kveðja, 

Ein slæm í húðinni. 

Komdu sæl.

Bólur og fílapenslar eru alltaf hormónatengdar og sérstaklega hjá konum komnar yfir 25 ára aldurinn. Hormónagetnaðarvarnir geta aðstoðað við að koma á meira jafnvægi á hormóna og húðina og ef þær þolast illa þá reynist vel að nota gamalt blóðþrýstingslyf sem heitir Spironolacton. Að koma jafnvægi á hormónin gefur alltaf besta árangurinn og hefur einnig langverkandi áhrif. Fyrir utan það þá er mikilvægt að hreinsa húðina vel bæði kvölds og morgna og þá gjarnan með andlitshreinsi sem inniheldur salicylsýru.

Salicylsýra (BHA sýra) er fituleysanleg sýra sem hreinsar vel húðfituna og getur hjálpað mikið til að halda myndun fílapensla og bóla í lágmarki. Einnig myndi ég mæla með A-vítamínkremi fyrir þig og þá helst sterku A-vítamínkremi eins og Differini eða Tretinoin kremi.

Þetta eru mjög sterk A-vítamínkrem sem minnka fituframleiðslu húðarinnar og draga þannig úr bólumyndun. Hafa einnig mjög góð áhrif á fílapensla og lokaða kirtla. Mikilvægt er að fara varlega í upphafi meðferðar og nota kremið á kvöldin einungis 1-2x í viku til að byrja með. Ef það gengur vel er ráðlagt að nota kremið oftar og jafnvel daglega ef það þolist vel.

Algengt er að húðin versni aðeins í upphafi meðferðar þar sem lyfið ýtir á fitukirtlana að tæma sig og þ.a.l. geta sprottið upp einhverjar nýjar bólur í byrjun meðferðar. Auk þess tekur a.m.k. 2-3 mánuði áður en árangur verður sýnilegur.

Kremið getur þú notað í langan tíma og jafnvel árum saman. Þetta krem gerir húðina viðkvæmari fyrir sólinni, þannig að notaðu sólarvörn ef þú ert í sól eða taktu hlé á meðferðinni ef þú ert að fara í sólarlandaferð eða yfir hásumarið á Íslandi. 

Við mælum ekki sérstaklega með andlitsmöskum þegar húðin er olíukennd og með tilhneigingu til að fá fílapensla og bólur. Endilega kynntu þér hvernig er best að hugsa um bólukennda húð og hvaða vörur er gott að nota hér á heimasíðu Húðvaktarinnar.

Kær kveðja,

Jenna Huld Eysteinsdóttir, húðlæknir á Húðvaktinni og Húðlæknastöðinni.

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Jennu Huld spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

endurskoðandi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál

lýtalæknir svarar spurningum lesenda