Erla Guðmundsdóttir heilsumarkþjálfi segir að líta þurfi á markmið tengd heilsu á heildrænan hátt þar sem einn þáttur kunni að hafa áhrif á annan. Mataræði hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu, andleg heilsa hefur áhrif á félagslega heilsu og svo koll af kolli - allt helst þetta í hendur og hefur áhrif á hversdagslega líðan.
„Það var einu sinni talið eðlilegt að allir reyktu en núna lítur maður hornauga á það þegar maður finnur reykingafnyk. Og með heilsuna þá erum við ennþá þar, eins og var með reykingarnar fyrir löngu, að það er bara orðið samfélagslega samþykkt eða eðlilegt að borða rusl,“ lýsir Erla.
„Það þarf einhverja sterka leiðtoga til þess að stíga niður fæti og berjast fyrir betri heilsu. Það er sem betur fer farið að gerast, eins og með Greenfit og Þorgrímur Þráinsson og fleiri eru að gera, þau eru að berjast fyrir betri heilsu þjóðfélagsins. En það þurfa að verða samfélagslegar breytingar,“ segir hún og kallar eftir samtakamætti.
„Hver og einn getur gert sitt en það þarf að auðvelda okkur aðgengið að hollari mat og passa að næringin sem börnin okkar fá í skólanum sé almennileg.“
Talið berst að þyngdarstjórnunarlyfjum sem síðustu misseri hafa tröllriðið öllu og óhætt er að segja að séu umdeild.
„Þetta er sko ekkert grín. Þetta er mjög alvarlegt mál ef fólk byrjar að nota þessi lyf þá þarf það að vera á þeim alla ævi,“ segir Erla.
„Þetta er frábær lausn fyrir þá sem þurfa, alveg eins og að sumir þurfa gleraugu, en því miður eru margir að nota svona hækjur sem þurfa þær ekki,“ segir hún jafnframt og telur að mikil neysla á unnum matvörum sé að miklu leyti orsakavaldur slæmrar efnaskiptaheilsu landsmanna.
„Ég held að þessi gjörunnu matvæli séu að raska þarmaflórunni og valda rugli í líkamanum okkar sem veldur því að efnaskiptaheilsan okkar er ekki góð. Þó að einhver líti út fyrir að vera hraustur að þá er kannski allt í rugli í líkamsstarfseminni.“
En hvar á maður að byrja?
„Þetta er stærsta spurningin og þetta er það sem ég er að hjálpa fólki með. Maður þarf svolítið að setjast niður og gefa sér tíma til þess að taka stöðuna,“ segir Erla.
„Ef 90% af því sem þú borðar er ruslfæði þá er ég ekki að fara segja þér að hætta því alveg - það er bara ekki hægt.“
Enn og aftur segir Erla litlu skrefin skipta mestu máli þegar markmið eru annars vegar. Þegar til lengri tíma er litið hafa þau safnast saman og orðið að heilbrigðum lífstíl.
„Reyndu að borða eins vel og þú getur og reyndu að lifa eins heilbrigt og þú getur 80% af tímanum og 20% bara njóta og leyfa sér.“