„Ég var hræddur við það að deyja,“ segir Davíð Goði Þorvarðarson kvikmyndagerðarmaður, sem veiktist af illvígum sjúkdómi fyrir um ári. Sjúkdómurinn er óþekktur en í fyrstu var talið að um hvítblæði væri að ræða.
„Í dag er enn ekki vitað nákvæmlega hvaða sjúkdómur þetta er en þetta kallast „Hypereosinophilia idopathic with end organ damage“. Það þýðir í rauninni of háir eósínfílar af óþekktri ástæðu sem á endanum veldur líffærabilun ef þetta er ekki meðhöndlað.“
Davíð Goði undirgekkst krabbameinsmeðferð og beinmergskipti í Svíþjóð í kjölfarið síðastliðið haust. Það reyndist honum mikil þrautaganga.
„Þetta reynir á líkama þinn alveg að þolmörkum og fer langt yfir þolmörkin í hausnum á þér,“ lýsir Davíð Goði sem segir sögu sína í Dagmálum í dag.
Í meðfylgjandi myndskeiði má sjá og heyra brot af Davíð Goða lýsa reynslu sinni af því að greinast með þennan lífshættulega sjúkdóm sem enginn veit almennilega af hverju stafar. Hann lýsir örvæntingunni sem greip um hann í kjölfar þess að greinast með óþekktan og lífhættulegan sjúkdóm en hann var staðráðinn í að gera allt til að reyna vinna bug á veikindunum.
„Ég byrjaði að skrá niður í Excel-skjal allt sem ég gerði. Ég skráði allan mat, alla hreyfingu, allan svefn, allar töflur og bara allt sem ég var að gera til þess að reyna að finna út úr þessu sjálfur,“ lýsir hann.
„Á þessu skjali sem ég gerði þá sá ég að þegar við settum inn þetta lyf þá virkaði þetta og ef við settum inn þetta lyf og tókum þetta út þá gerðist þetta. Á þessum tímabili sem voru fjórir mánuðir eftir að ég kom út af spítalanum fengum við ákveðnar vísbendingar um það hvaða lyf það voru sem voru að virka,“ útskýrir Davíð Goði og segir augljóst að Excel-skjalið hafi komið læknunum að góðu gagni til að sjá hvernig sjúkdómurinn hegðaði sér og brást við lyfjagjöfum.
Þrátt fyrir að Davíð Goði beri sig vel eftir allar meðferðirnar er hann ekki enn fulllæknaður. Hver dagur er stöðug barátta við að ná ónæmiskerfinu og þrekinu í fyrra horf en Davíð Goði fer langt á bjartsýni, þrautseigju og jákvæðu hugarfari.
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að horfa á viðtalið við Davíð Goða í heild sinni.