Gunnar Smári Jónbjörnsson og unnusta hans Lilja Kjartansdóttir voru gestir Kristínar Sifjar í Dagmálum á dögunum. Þar sögðu þau sögu sína af stóru áfalli sem skall á litlu fjölskylduna þann 28. nóvember 2023 þegar Gunnar Smári veiktist skyndilega eftir að meðfæddur hjartagalli gerði vart við sig með þeim afleiðingum að Gunnar Smári barðist fyrir lífi sínu.
Að sögn Gunnars og Lilju var um ósköp venjulegan þriðjudag að ræða. Að öllu leyti nema að Gunnari leið eins og hann væri aðeins slappur en gaf því ekki mikinn gaum. Hann ákvað að skella sér á morgunæfingu líkt og hann var vanur að gera en félagar hans tóku eftir því að hann var ekki alveg eins og hann átti að sér að vera.
Gunnar harkaði af sér slenið og dagurinn leið eins og venjulega. Þegar daginn tók að líða og kvöldmatarleytið nálgaðist eldaði hann kvöldverð fyrir fjölskylduna og lék sér við dóttur dóttur sína.
Lilja segir þau hafa verið komin upp í rúm og tilbúin að fara að sofa þegar Gunnar Smári sprettur skyndilega upp í rúminu og grípur um brjóstkassann þar sem hjartað er staðsett. Hún segir hann hafa öskrað: „Hvað var þetta?“ og báðum var þeim mjög brugðið. Þegar Lilja bar upp þá hugmynd að hringja á Neyðarlínuna neitaði Gunnar Smári því en hann rétt svo náði að sleppa orðinu áður en hann leið út af.
„Ég hringi á Neyðarlínuna og hann er alveg meðvitundarlaus. Hann svarar ekki þegar ég pikka í hann og þeir eru með mig á línunni,“ lýsir Lilja sem var, líkt og gefur að skilja, mjög óttaslegin á þessum tímapunkti.
Hún segir stutta stund hafa liðið þar til Gunnar tók að svara henni aftur. Lá hann þá á maganum á gólfinu og barðist við að ná andanum með mikilli áreynslu, átökin voru það mikil að svitinn perlaði af líkama Gunnars Smára.
Vinir Gunnars Smára mættu á heimili þeirra til að aðstoða við að flytja hann á spítala en Gunnar Smári starfaði áður sem sjúkraflutningamaður. Þar lá hann á gólfinu í um það bil tíu fermetra rými umvafinn góðu fólki sem vildi honum allt það besta.
„Þar er hann á gólfinu. Þar er ég og þar eru þau þrjú. Svo koma tvær löggur og það er bara allt að gerast og litla stelpan okkar sofandi svona tveimur metrum frá honum. Hann bara liggur þarna og er auðvitað lærður svo hann segir: „Verkur fyrir miðju brjósti, verkur fyrir miðju brjósti“ hann gat alveg sagt það og sagði svo: „hringdu í mömmu þína og fáðu hana til að passa“,“ segir Lilja og lýsir karaktereinkennum Gunnars svo vel; góður leiðbeinandi sem gefst aldrei upp.
Hún segir að á þessum tímapunkti hafi Gunnar verið virkilega kvalinn og átti hún sjálf erfitt að horfa upp á það sem var að gerast.
Aðspurður segist Gunnar ekki muna eftir því sem gerðist þetta kvöld.
„Á einum tímapunkti spurði hann: „er ég með púls?““ bætir Lilja við.
Gunnar var fluttur á sjúkrahúsið á Akranesi. Þangað fylgdi Lilja honum, enda hefur hún staðið við hlið hans eins og klettur í gegnum þessi erfiðu veikindi. Litla stúlkan þeirra varð eftir heima í umsjá Lögreglunnar á meðan beðið var eftir því að móðir Lilju kom til að annast dóttur þeirra.
Á sjúkrahúsinu var Gunnar Smári ítarlega skoðaður og talið að líklegast væri um hjartaáfall að ræða. Í kjölfarið var hann fluttur til Reykjavíkur til frekari aðhlynningar. Gunnar Smári var þungt haldinn og barðist fyrir hverjum andardrætti. Að sögn Lilju reyndist það henni afar erfitt að horfa upp á ástina í lífinu hennar í þessum aðstæðum.
Á meðan læknar á sjúkrahúsinu á Akranesi héldu að Gunnar Smári væri að fá hjartaáfall var blóðþynningu dælt í hann. Það átti þó eftir að koma í ljós að ekki var um hjartaáfall að ræða.
Smelltu á hlekkinn hér að neðan til að nálgast viðtalið við Gunnar Smára og Lilju í heild sinni.