„Mér finnst næringarprógrömm mjög misvísandi!“ segir Guðrún Sara Reynisdóttir, einkaþjálfari, danskennari og samfélagsmiðlaráðgjafi.
Guðrún Sara er 23 ára og kláraði réttindin til einkaþjálfara erlendis frá enda hreyfing stór partur af hennar lífi. Þess utan segir hún að sér hafi aldrei gengið neitt sérstaklega vel í skóla og verið „ömurleg“ í að taka próf og því hafi hið hefðbundna háskólanám ekki beint höfðað til hennar.
„Ég er mun betri á verklega sviðinu og hef alltaf verið.“ Hún segir sjálfstæðan hugsunarhátt vera einkennandi fyrir sig og hafði alltaf þann draum að vinna sjálfstætt. Í dag rekur hún sitt eigið fyrirtæki og heldur úti fjarþjálfunarappinu SARAFIT. Að auki kennir hún dans hjá Eríal Pole og er einkaþjálfari hjá Kötlu Fitness, áður Rebook Fitness.
Spurð um heilsuráð og markmiðasetningu fyrir árið 2025 stendur ekki á svari: „Að einblína á einn hlut í einu.“
Það er of mikið að ákveða að á einum tímapunkti verði gerð algjör lífsbreyting, útskýrir Guðrún Sara. „Að hætta alveg að borða sælgæti, hreyfa sig á hverjum degi, lesa á hverju kvöldi, fara alltaf snemma að sofa o.s.frv.“ Það sé vart raunhæft og dæmt til að verða tímabundið.
Þess í stað ætti að einblína á einn hlut í einu og nefnir Guðrún Sara dæmi um að auka próteininntöku. „Það er miklu auðveldara að skipta út einum vondum ávana fyrir einn góðan og þannig koll af kolli.“
Annað sem Guðrúnu Söru finnst áberandi hjá fólki, sem hægt er að taka til umhugsunar, er að vera of mikið í símanum á æfingu. „Á meðan þú hreyfir þig þá er síminn lagður til hliðar,“ segir hún.
„Ef manneskja er t.d. á teygjusvæðinu í ræktinni að „þykjustuteygja“ á meðan skrollað er á TikTok, getur viðkomandi alveg eins sleppt því að teygja.“ Með hugann í símanum sé árangri ekki náð og bendir Guðrún Sara á að hreyfing og teygjur hafi tilgang og snúist sá tilgangur ekki um að rýna í skjáinn.
Hvað með hvíldardagana?
„Hvíldardagar þurfa ekki að snúast um að liggja upp í sófa og úða í sig sælgæti. Það er misskilningur. Hvíldardagar mega alveg innihalda t.d. létta hreyfingu.“
„Ég geri helst ekki matarprógramm fyrir fólk,“ segir Guðrún Sara. Að hennar mati er miklu árangursríkara að skoða hvernig mataræði viðskiptavinarins er samsett í dag, hvað hann er að borða og hvernig hægt sé að breyta því í hollari kosti.
Hún vill ekki umturna mataræði fólks og segir það hreinlega vera skrýtið því alla jafna endist fólk ekki lengi ef því er sagt að borða á einhvern hátt sem það er ekki vant.
„Svo er fólk t.d. með fjölskyldu og börn og það þarf að taka tillit til þess. Ég fæ stundum til mín mömmur sem langar að taka mataræðið í gegn, en þær eru með börn og mann og þá getur verið einfaldara að gera mataræði heimilisins bara ögn hollara, heldur en að hún fari að borða eitthvað allt annað en allir hinir.“ Það geti orðið óraunhæft að ætla að púsla því saman og hreinlega of flókið.
Að lokum bendir Guðrún Sara á að ef fólki finnst erfitt að koma sér af stað eða viti ekki hvernig eigi að bera sig að, gæti verið gott að tala við þjálfara, þótt ekki væri nema stutt spjall. Hún segir að það geti verið upplýsandi að fylgja öðrum á samfélagsmiðlum: “Einhverjum sem vita hvað þeir tala um.”