Íris Svava Pálmadóttir, þroskaþjálfi og talsmaður jákvæðrar líkamsímyndar, deildi einlægri færslu á Instagram-síðu sinni í gær.
Í færslunni ræddi hún um mikilvægi jákvæðrar líkamsímyndar og greindi einnig frá þeim miklu líkamlegu breytingum sem urðu á meðgöngu og eftir fæðingu dóttur hennar, Sóldísar Hönnu, sem kom í heiminn þann 3. maí á síðasta ári.
„Á sjálfsástarferðalagi mínu hafði ég lært að elska og samþykkja líkama minn, en eftir meðgönguna, þekkti ég mig varla þegar ég leit í spegil. Meðgangan tók sinn toll á líkamann minn.
Maginn á mér orðinn allt öðruvísi, slit búin að bætast í safnið og ég er búin að missa mikinn vöðvmassa. En núna, nákvæmlega núna þarf ég á allri sjálfsástinni að halda. Gömul hugsanamynstur hafa hægt og rólega verið að reyna að brjótast upp á yfirborðið en ég ætla ekki að leyfa því að gerast.
Það tók mig 9 mánuði að búa til heila mannveru og 9 mánuðum síðar er líkaminn minn enn að jafna sig, enn að styrkjast. Maginn minn er breyttur og líkaminn minn allt öðruvísi.
En ég elska hann meira en nokkru sinni fyrr—fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig. Það er engin fyrri útgáfa af mér sem ég þarf að „komast aftur í.“
Jákvæð líkamsímynd bjargaði lífi mínu og ég ætla að kynnast þessari útgáfu af sjálfri mér enn betur, sýna mér mildi og elska mig nákvæmlega eins og ég er. Fyrir mig. Fyrir dóttur mína,“ skrifaði Íris Svava við færsluna.
Í viðtali við Írisi Svövu sem birtist á Smartlandi um mitt síðasta ár viðurkenndi hún að hafa átt í erfiðleikum með að taka líkama sinn í sátt eftir því sem leið á meðgönguna.
„Ég hef unnið hörðum höndum að því að heila samband mitt við líkamann minn, hvernig ég hugsa og tala um hann, hvernig ég næri hann og hvernig ég horfi á hann. Samt hef ég aldrei „strögglað“ jafn mikið og þegar ég var ófrísk.
Mér fannst ég aldrei með nógu fallega kúlu og var hrædd um að fólk sæi ekki að ég væri ófrísk. Eins mikið og ég hef þráð að verða ófrísk þá leið mér skringilega yfir þessa níu mánuði. En um leið og ég fékk dóttur mína í fangið, horfði ég til baka og sá kúluna í allt öðru ljósi. Þar fékk þessi fullkomna, fallega og stórkostlega stúlka að dafna.“