Sjálfsálit einstaklinga felst í meginatriðum í að staðfesta hverjir þeir eru, hafa verið eða vonast til að vera og allt veltur það á gæðum tengsla við umheiminn. Persónulegt virði er síður listi yfir afrek heldur frekar saga um sambönd og skuldbindingar.
Þetta kemur fram í grein Thomas Henricks, prófessors emeritus í félagsfræði við Elon-háskóla, á Psychology Today.
Stafrænn heimur hefur veruleg áhrif á gæði raunverulegra tengsla.
Henricks segir sjálfsmynd einstaklinga að miklu leyti byggja á samböndum við annað fólk. Andinn rísi þegar „aðrir mikilvægir“, fjölskylda, vinir og samstarfsfélagar, samþykkja viðkomandi.
Þrátt fyrir að fólk sé ekki skilgreint út frá félagslegum tengslum líkt og áður fyrr bendir Henricks á að ekki eigi að hugsa um sjálfsálit fólks sem einstaklingsbundinn eiginleika sem fari eftir hvað viðkomandi segir og gerir.
„Sjálfshamingjan kemur ekki í stað góðvild annarra.“
Í dag búa einstaklingar í miklum mæli til útgáfu af sjálfum sér sem miðlað er til almennings á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Instagram, Pinterest og TikTok. Meira en fimm milljarðar manna nota þessi forrit.
Í því felst að einstaklingar miðli myndum og skrifum sem eiga að tákna athafnir þeirra, sjónarmið og áhugamál. Þar með tapast sá tími þar sem einstaklingar gefa af sér til annarra, augliti til auglitis.
Þá segir hann að einstaklingar eigi frekar að taka þátt í raunverulegri menningu. Það þýðir að í stað þess að fá viðurkenningu fyrir viðbrögð við ákveðnum málefnum á samfélagsmiðlum eigi að taka þátt í samfélaginu og þeim málefnum sem geta haft áhrif á líf hvers og eins.
Henricks segir að tengsl við annað fólk sé ekki eina staðfestingin á sjálfsáliti heldur einnig upplifunin af umhverfinu. Hamingjan geti einnig mótast af þeim aðstæðum sem einstaklingar búa við.
„Okkur hefur verið kennt að hugsa um náttúruna sem eitthvað sem við stjórnum... Okkur líður betur með okkur sjálf þegar við leggjum okkar af mörkum til velferðar plantna og dýrategunda sem eru jafn mikilvægar okkur sjálfum.“
Að missa hæfileikann til að skilja og stjórna eigin hegðun er eflaust mesti ótti fólks. Þess vegna bendir Henricks á að fólk finni huggun í vitundinni, að vera stolt af því sem það hefur lært af öðrum en vera einnig stolt af eigin innsæi.
Þannig ber að hlúa að huganum á sama hátt og hlúð er að líkamanum sjálfum. „Verið þakklát fyrir hvert skammvinnt augnablik.“
Henricks vísar í Dickinson með því að segja að „hrós mannfjöldans“ hafi lítið gildi. Betri uppspretta visku og sjálfsálits felst í að efla tengslin við veraldlegar auðlindir, kunnugleg andlit, nánd og dagsdaglega rútínu, sem styðja og viðalda sjálfshamingjunni.